Á afmælisári Morgunblaðsins er ástæða til að rifja upp þessa frétt, sem var fyrsta blaðafréttin sem birtist um málið. Leiða má líkur að því að þetta verði stysta fréttin sem rifjuð verður upp í tilefni afmælisins. Fréttirnar verða alls 110, jafn margar og árin sem Morgunblaðið hefur lifað.
Ofanritaður blaðamaður var tiltölulega nýbyrjaður á Morgunblaðinu þegar honum var falið að sjá um að skrifa lögreglufréttir í blaðið. Ég hafði aðeins verið nokkrar vikur í því starfi þegar lögreglan í Keflavík hringdi fimmtudaginn 21. nóvember 1974 og bað um að auglýst væri eftir vitnum að ferðum Geirfinns. Hvarf hans þótti afar dularfullt og var fjallað um málið í fréttum næstu daga. Reyndar næstu vikur, mánuði, ár og áratugi. Og Geirfinnsmálið, síðar nefnt Guðmundar- og Geirfinnsmál, er ennþá fréttaefni, þótt næsta sunnudag séu liðin 49 ár frá hvarfi Geirfinns.
Engin vísbending
Fréttin hljóðaði svona:
„Saknað er í Keflavík ungs manns, Geirfinns Einarssonar, 32 ára gamals, en hann sást síðast er hann fór frá heimili sínu sl. þriðjudagskvöld kl. 22.30. Ætlaði hann þá að skreppa eitthvað en hefur ekki sézt síðan. Geirfinnur er kvæntur og tveggja barna faðir. Hann fór frá heimili sínu á bíl sínum, en bíllinn fannst við verzlun nálægt heimili hans.
Eindálka fréttin á blaðsíðu 2.
Leitarflokkar og sporhundar hafa leitað Geirfinns, en engin vísbending hefur fengizt um það hvað orðið hefur af honum. Leit verður haldið áfram að sögn lögreglunnar í Keflavík, en ef einhverjir skyldu hafa orðið varir við Geirfinn eftir kl. 22.30 á þriðjudagskvöld eru þeir beðnir að láta lögregluna vita.“
Strax daginn eftir, 23. nóvember, var frétt um málið í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Dularfullt mannshvarf“. Mánudaginn 25. nóvember heimsóttu Ingvi Hrafn Jónsson blaðamaður og Friðþjófur Helgason ljósmyndari lögregluna í Keflavík. Fyrirsögn greinar Ingva var: „Við finnum manninn sem hringdi“ og var þar vísað til manns sem á að hafa hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni kvöldið sem hann hvarf. Lögreglan í Keflavík lagði allt kapp á að finna þennan mann og leitaði hún sérfræðiaðstoðar hjá Sakadómi Reykjavíkur. Sakadómur, sem var rannsóknarlögregla þessa tíma, tók síðar alfarið við rannsókn málsins.
Viku eftir hvarf Geirfinns var Morgunblaðið boðað til fundar í lögreglustöðinni í Reykjavík. Þetta var þriðjudaginn 26. nóvember. Ég sótti fundinn ásamt þeim merka og eftirminnilega ljósmyndara Ólafi K. Magnússyni. Þar var í fyrsta skipti sýnd leirstytta sem Ríkey Ingimundardóttir myndlistarkona í Keflavík hafði gert að beiðni lögreglunnar. Hún átti að líkjast manni sem hringt hafði úr Hafnarbúðinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Fékk styttan nafnið Leirfinnur í daglegu tali.
Blaðamenn Morgunblaðsins fylgdust með hverju skrefi lögreglunnar næstu daga. Strax eftir að leirmyndin hafði verið sýnd byrjuðu símarnir að hringja á lögreglustöðvum landsins og þeir hringdu linnulítið næstu daga. Alls bárust yfir 100 símtöl og fyrr en varði var lögreglan í Keflavík komin með nöfn 70 manna, en á suma var bent oftar en einu sinni. Er skemmst frá því að segja að birting Leirfinns bar ekki þann árangur sem menn vonuðust eftir.
Samband haft við sjáanda
Lögreglan lýsti eftir nokkrum mönnum í sambandi við rannsóknina. Má þar nefna bílastjóra á rauðum Fiat með G-númeri, sem sést hafði á Akureyri og síðar var talinn hafa sést á Raufarhöfn. Einnig var auglýst eftir manni sem sást á tali við Geirfinn í stiga upp á 3. hæð í veitingahúsinu Klúbbnum í Borgartúni. En ekki skilaði þetta árangri frekar en aðrir þættir rannsóknarinnar, því enginn gaf sig fram.
Í desember greip lögreglan til þess ráðs að hafa samband við heimsþekktan hollenskan sjáanda, Gerard Croiset. Hann hafði komist í heimsfréttirnar fyrir að leysa dularfull mannshvörf. Morgunblaðið hringdi í Croiset, sem taldi Geirfinn ekki lengur í tölu lifenda. Lík hans lægi í „tréverki“ í sjó eða vatni 800-1.000 metra frá heimili hans. Um var að ræða hús eða skipsflak. Leitað var á sjó og í öllum höfnum í Keflavík og nágrenni en án árangurs. Ekkert spurðist til Geirfinns.
Endaði með sýknu
Ekki er rými til að tíunda hér hvað síðan hefur gerst í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Slík frásögn myndi fylla heilt Morgunblað. Fjórir menn sátu saklausir í gæsluvarðahaldi í 90-105 daga frá hausti 1975. Sex ungmenni voru handtekin og hlutu þunga dóma, fyrst í Sakadómi Reykjavíkur 1977 og síðan í Hæstarétti 1980. Hinir dómfelldu fengu mál sín endurupptekin fyrir Hæstarétti sem með dómi 27. september 2018 kvað upp sýknudóm yfir fimm mönnum. Var það 38 árum eftir að fyrri dómurinn hafði fallið í Hæstarétti.
Morgunblaðið hefur allt frá upphafi lagt mikla áherslu á lögreglufréttir. Ákveðnum blaðamönnum á ritstjórninni var falið þetta ábyrgðarstarf og margir gegndu því lengi. Það var mikilvægt svo tengsl mynduðust við lögreglumenn og trúnaður ríkti.
Ég var í löggufréttunum frá hausti 1974 fram í febrúar 1981, þegar ég tók við starfi fréttastjóra. Mér hafði verið falið það hlutverk af Matthíasi Johannessen ritstjóra. Ég hringdi daglega í helstu lögregluembættin og fór í heimsóknir þangað vikulega. Var málkunnugur öllum helstu lögreglumönnum landsins. Fréttirnar voru ítarlegar og lögreglan lá ekki á upplýsingum sem máli skiptu. Þetta má sannreyna með því að skoða gamlar fréttir á timarit.is.
Hafnarbúðin. Allt kapp var lagt á það í upphafi rannsóknarinnar að hafa
uppi á manninum sem talið var að hringt hefði í Geirfinn úr Hafnarbúðinni.
Afturför
Í dag er allt breytt enda þjóðfélagið miklu fjölmennara. Og ítarleg lög um persónuvernd hafa tekið gildi. Nú er það lögreglan sem skammtar fjölmiðlum og þar með almenningi upplýsingar. Þær eru oft takmarkaðri en eðlilegt getur talist. Lögregluforingjar koma í beinar útsendingar og svara alltof mörgum spurningum á þann veg að þeir geti ekki svarað þeim. Þetta er afturför. Blaðamenn eru sagnaritarar samtímans og það sem þeir birta er sagan.
Eins og fram kom í upphafi fréttarinnar hafði ég aðeins verið skamma hríð í löggufréttum þegar símtalið afdrifaríka barst frá lögreglunni í Keflavík. Ekki man ég lengur hver hringdi en líklega hefur það verið Haukur Guðmundsson, sem stjórnaði rannsókninni í Keflavík. Næstu rúmlega sjö árin var ég í löggufréttum og skrifaði gríðarmargar fréttir um Guðmundar- og Geirfinnsmál sem og endursögn úr réttarsölum. Þegar litið yfir langan blaðamannsferil er þetta að mínu mati „stóra málið“.
Guðmundur Einarsson, 18 ára, sást síðast á lífi aðfaranótt 29. janúar. Hann var þá fótgangandi frá Hafnarfirði í Blesugróf. Hvarf Guðmundar og Geirfinns er ennþá óupplýst.