„Manns saknað í Keflavík“

Upphaf rannsóknar. Valtýr Sigurðsson, aðalfulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, lengst til …
Upphaf rannsóknar. Valtýr Sigurðsson, aðalfulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, lengst til vinstri og lögreglumennirnir John Hill og Haukur Guðmundsson. Í bakgrunni má sjá leirstyttuna Leirfinn. Myndin er tekin í nóvember 1974. Morgunblaðið/Árni Johnsen

Hún er ekki áber­andi eindálka frétt­in sem birt­ist á blaðsíðu 2 í Morg­un­blaðinu föstu­dag­inn 22. nóv­em­ber 1974. Fyr­ir­sögn­in var „Manns saknað í Kefla­vík“. Þar aug­lýsti lög­regl­an eft­ir vitn­um um ferðir Geirfinns Ein­ars­son­ar, sem hafði horfið af heim­ili sínu 19. nóv­em­ber og ekk­ert spurst til hans. Eng­an grunaði þá að þetta væri upp­hafið að þekkt­asta saka­máli Íslands­sög­unn­ar.

Á af­mælis­ári Morg­un­blaðsins er ástæða til að rifja upp þessa frétt, sem var fyrsta blaðaf­rétt­in sem birt­ist um málið. Leiða má lík­ur að því að þetta verði stysta frétt­in sem rifjuð verður upp í til­efni af­mæl­is­ins. Frétt­irn­ar verða alls 110, jafn marg­ar og árin sem Morg­un­blaðið hef­ur lifað.

Of­an­ritaður blaðamaður var til­tölu­lega ný­byrjaður á Morg­un­blaðinu þegar hon­um var falið að sjá um að skrifa lög­reglu­frétt­ir í blaðið. Ég hafði aðeins verið nokkr­ar vik­ur í því starfi þegar lög­regl­an í Kefla­vík hringdi fimmtu­dag­inn 21. nóv­em­ber 1974 og bað um að aug­lýst væri eft­ir vitn­um að ferðum Geirfinns. Hvarf hans þótti afar dul­ar­fullt og var fjallað um málið í frétt­um næstu daga. Reynd­ar næstu vik­ur, mánuði, ár og ára­tugi. Og Geirfinns­málið, síðar nefnt Guðmund­ar- og Geirfinns­mál, er ennþá frétta­efni, þótt næsta sunnu­dag séu liðin 49 ár frá hvarfi Geirfinns.

Eng­in vís­bend­ing

Frétt­in hljóðaði svona:

„Saknað er í Kefla­vík ungs manns, Geirfinns Ein­ars­son­ar, 32 ára gam­als, en hann sást síðast er hann fór frá heim­ili sínu sl. þriðju­dags­kvöld kl. 22.30. Ætlaði hann þá að skreppa eitt­hvað en hef­ur ekki sézt síðan. Geirfinn­ur er kvænt­ur og tveggja barna faðir. Hann fór frá heim­ili sínu á bíl sín­um, en bíll­inn fannst við verzl­un ná­lægt heim­ili hans.

Eindálka fréttin á blaðsíðu 2.
Eindálka frétt­in á blaðsíðu 2.

Leitar­flokk­ar og spor­hund­ar hafa leitað Geirfinns, en eng­in vís­bend­ing hef­ur feng­izt um það hvað orðið hef­ur af hon­um. Leit verður haldið áfram að sögn lög­regl­unn­ar í Kefla­vík, en ef ein­hverj­ir skyldu hafa orðið var­ir við Geirfinn eft­ir kl. 22.30 á þriðju­dags­kvöld eru þeir beðnir að láta lög­regl­una vita.“

Strax dag­inn eft­ir, 23. nóv­em­ber, var frétt um málið í Morg­un­blaðinu und­ir fyr­ir­sögn­inni „Dul­ar­fullt manns­hvarf“. Mánu­dag­inn 25. nóv­em­ber heim­sóttu Ingvi Hrafn Jóns­son blaðamaður og Friðþjóf­ur Helga­son ljós­mynd­ari lög­regl­una í Kefla­vík. Fyr­ir­sögn grein­ar Ingva var: „Við finn­um mann­inn sem hringdi“ og var þar vísað til manns sem á að hafa hringt í Geirfinn úr Hafn­ar­búðinni kvöldið sem hann hvarf. Lög­regl­an í Kefla­vík lagði allt kapp á að finna þenn­an mann og leitaði hún sér­fræðiaðstoðar hjá Saka­dómi Reykja­vík­ur. Saka­dóm­ur, sem var rann­sókn­ar­lög­regla þessa tíma, tók síðar al­farið við rann­sókn máls­ins.

Viku eft­ir hvarf Geirfinns var Morg­un­blaðið boðað til fund­ar í lög­reglu­stöðinni í Reykja­vík. Þetta var þriðju­dag­inn 26. nóv­em­ber. Ég sótti fund­inn ásamt þeim merka og eft­ir­minni­lega ljós­mynd­ara Ólafi K. Magnús­syni. Þar var í fyrsta skipti sýnd leir­stytta sem Ríkey Ingi­mund­ar­dótt­ir mynd­list­ar­kona í Kefla­vík hafði gert að beiðni lög­regl­unn­ar. Hún átti að líkj­ast manni sem hringt hafði úr Hafn­ar­búðinni í Kefla­vík kvöldið sem Geirfinn­ur hvarf. Fékk stytt­an nafnið Leirfinn­ur í dag­legu tali.

Geirfinnur Einarsson
Geirfinn­ur Ein­ars­son

Blaðamenn Morg­un­blaðsins fylgd­ust með hverju skrefi lög­regl­unn­ar næstu daga. Strax eft­ir að leir­mynd­in hafði verið sýnd byrjuðu sím­arn­ir að hringja á lög­reglu­stöðvum lands­ins og þeir hringdu linnu­lítið næstu daga. Alls bár­ust yfir 100 sím­töl og fyrr en varði var lög­regl­an í Kefla­vík kom­in með nöfn 70 manna, en á suma var bent oft­ar en einu sinni. Er skemmst frá því að segja að birt­ing Leirfinns bar ekki þann ár­ang­ur sem menn vonuðust eft­ir.

Sam­band haft við sjá­anda

Lög­regl­an lýsti eft­ir nokkr­um mönn­um í sam­bandi við rann­sókn­ina. Má þar nefna bíla­stjóra á rauðum Fiat með G-núm­eri, sem sést hafði á Ak­ur­eyri og síðar var tal­inn hafa sést á Raufar­höfn. Einnig var aug­lýst eft­ir manni sem sást á tali við Geirfinn í stiga upp á 3. hæð í veit­inga­hús­inu Klúbbn­um í Borg­ar­túni. En ekki skilaði þetta ár­angri frek­ar en aðrir þætt­ir rann­sókn­ar­inn­ar, því eng­inn gaf sig fram.

Í des­em­ber greip lög­regl­an til þess ráðs að hafa sam­band við heimsþekkt­an hol­lensk­an sjá­anda, Ger­ard Croi­set. Hann hafði kom­ist í heims­frétt­irn­ar fyr­ir að leysa dul­ar­full manns­hvörf. Morg­un­blaðið hringdi í Croi­set, sem taldi Geirfinn ekki leng­ur í tölu lif­enda. Lík hans lægi í „tré­verki“ í sjó eða vatni 800-1.000 metra frá heim­ili hans. Um var að ræða hús eða skips­flak. Leitað var á sjó og í öll­um höfn­um í Kefla­vík og ná­grenni en án ár­ang­urs. Ekk­ert spurðist til Geirfinns.

Endaði með sýknu

Ekki er rými til að tí­unda hér hvað síðan hef­ur gerst í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu. Slík frá­sögn myndi fylla heilt Morg­un­blað. Fjór­ir menn sátu sak­laus­ir í gæslu­v­arðahaldi í 90-105 daga frá hausti 1975. Sex ung­menni voru hand­tek­in og hlutu þunga dóma, fyrst í Saka­dómi Reykja­vík­ur 1977 og síðan í Hæsta­rétti 1980. Hinir dóm­felldu fengu mál sín end­urupp­tek­in fyr­ir Hæsta­rétti sem með dómi 27. sept­em­ber 2018 kvað upp sýknu­dóm yfir fimm mönn­um. Var það 38 árum eft­ir að fyrri dóm­ur­inn hafði fallið í Hæsta­rétti.

Morg­un­blaðið hef­ur allt frá upp­hafi lagt mikla áherslu á lög­reglu­frétt­ir. Ákveðnum blaðamönn­um á rit­stjórn­inni var falið þetta ábyrgðarstarf og marg­ir gegndu því lengi. Það var mik­il­vægt svo tengsl mynduðust við lög­reglu­menn og trúnaður ríkti.

Ég var í löggu­frétt­un­um frá hausti 1974 fram í fe­brú­ar 1981, þegar ég tók við starfi frétta­stjóra. Mér hafði verið falið það hlut­verk af Matth­íasi Johann­essen rit­stjóra. Ég hringdi dag­lega í helstu lög­reglu­embætt­in og fór í heim­sókn­ir þangað viku­lega. Var málkunn­ug­ur öll­um helstu lög­reglu­mönn­um lands­ins. Frétt­irn­ar voru ít­ar­leg­ar og lög­regl­an lá ekki á upp­lýs­ing­um sem máli skiptu. Þetta má sann­reyna með því að skoða gaml­ar frétt­ir á tima­rit.is.

Hafnarbúðin. Allt kapp var lagt á það í upphafi rannsóknarinnar …
Hafn­ar­búðin. Allt kapp var lagt á það í upp­hafi rann­sókn­ar­inn­ar að hafa uppi á mann­in­um sem talið var að hringt hefði í Geirfinn úr Hafn­ar­búðinni.

Aft­ur­för

Í dag er allt breytt enda þjóðfé­lagið miklu fjöl­menn­ara. Og ít­ar­leg lög um per­sónu­vernd hafa tekið gildi. Nú er það lög­regl­an sem skammt­ar fjöl­miðlum og þar með al­menn­ingi upp­lýs­ing­ar. Þær eru oft tak­markaðri en eðli­legt get­ur tal­ist. Lög­reglu­for­ingj­ar koma í bein­ar út­send­ing­ar og svara alltof mörg­um spurn­ing­um á þann veg að þeir geti ekki svarað þeim. Þetta er aft­ur­för. Blaðamenn eru sagna­rit­ar­ar sam­tím­ans og það sem þeir birta er sag­an.

Eins og fram kom í upp­hafi frétt­ar­inn­ar hafði ég aðeins verið skamma hríð í löggu­frétt­um þegar sím­talið af­drifa­ríka barst frá lög­regl­unni í Kefla­vík. Ekki man ég leng­ur hver hringdi en lík­lega hef­ur það verið Hauk­ur Guðmunds­son, sem stjórnaði rann­sókn­inni í Kefla­vík. Næstu rúm­lega sjö árin var ég í löggu­frétt­um og skrifaði gríðarmarg­ar frétt­ir um Guðmund­ar- og Geirfinns­mál sem og end­ur­sögn úr rétt­ar­söl­um. Þegar litið yfir lang­an blaðamanns­fer­il er þetta að mínu mati „stóra málið“.

Guðmund­ur Ein­ars­son, 18 ára, sást síðast á lífi aðfaranótt 29. janú­ar. Hann var þá fót­gang­andi frá Hafnar­f­irði í Blesu­gróf. Hvarf Guðmund­ar og Geirfinns er ennþá óupp­lýst.

mbl.is