Forsetar Kína og Bandaríkjanna hittust í San Francisco í Kaliforníu í vikunni og það þurfti undirbúning, eins og jafnan er þegar stórmenni hittast, en í þessu tilviki var spursmálið ekki síst hvort hreingerningafólki tækist að gera miðborg San Francisco frambærilega til að taka á móti gestum, án þess að það yrði til skammar.
Þessi fræga borg, sem löngum var talin með eftirsóttustu borgum Bandaríkjanna, hrein og dulúðug ævintýraborg, gyllt og glitrandi og áttu margir þann draum að ná að heimsækja þann stað, að minnsta kosti einu sinni á ævinni. En nú er hún Snorrabúð stekkur og hefur borgin breyst stórlega svo minnir stundum helst á ömurlega fátækrahjalla í Suður-Ameríku eða í þeim heimshlutum sem veikastir eru. Í Ríó í Brasilíu er miðborgin þokkalega haldin og ömurleg fátækrahverfi sjást ekki jafn auðveldlega og döpur hverfi San Francisco þar sem ruslað hafði verið upp íverustöðum, sem varla minntu á mannabústaði, og dópistar og hvers kyns bágindafólk af margvíslegu tagi hafði safnast saman í eymd. Búðarþjófar ræna og rupla hverja verslunina á fætur annarri og lögreglan telur það ekki vera í sínum verkahring að skakka leikinn, enda höfðu yfirvöld borgarinnar það sem stefnu sína að veikja bæri lögreglulið hennar jafnt og þétt. Sömu stefnu höfðu yfirvöld í Chicago, sem hefur langmesta tíðni glæpa í landinu, og ekki síst morða, af öllum borgum Bandaríkjanna. Demókratar, sem hafa stjórnað þeirri borg lengi, stæra sig af því að þessi mesta glæpaborg landsins hafi sett hörðustu reglur um að takmarka beri skotvopnaeign allra stórborga Bandaríkjanna, með þessum líka árangri. Það bendir þá óneitanlega til að harkalegar skotvopnareglur virðist ekki vera lausnin, eins og sumir halda ákaft fram. Á móti því er teflt að það séu aðeins sæmilegir borgarar sem skrá vopn sín og borga fyrir það. En hinir, sem eru mjög fjölmennir, sem eiga vopn í algjöru heimildarleysi, þótt tiltölulega auðvelt og ódýrt sé að uppfylla skrásetningarreglur, hafa það fram yfir alla hina að hafi þeir sært eða drepið með sínu ólögmæta vopni þá er ekki léttur leikur að hafa uppi á hinum óskráða eiganda, þótt vopnið finnist.
Mikill fólksflótti hefur á síðustu árum orðið frá Kaliforníu, og frá San Francisco alveg sérstaklega, til annarra ríkja Bandaríkjanna, svo sem Flórída og Texas og reyndar margra annarra. Og það má ljóst vera, að það er ekki sá mikli fjöldi, sem á „lögheimili sitt á götunni“, sem flýr til annarra ríkja. Samt gengur ríkisstjórinn sjálfur í þessu mikla ríki, sem þannig er nú komið fyrir, með þá meinloku að hann geti sem hægast boðið sig fram sem forseta Bandaríkjanna, með þá reynslu helst, að hafa komið öllu í steik, þar sem hann á að vera í fyrirsvari, í mun minni einingu en sjálfum Bandaríkjunum, og þótt Kalifornía sé í gerðinni stórt og fjölmennt ríki. Og hann hefur að auki meðal annars í reynslupoka sínum að hafa áður verið borgarstjóri í San Francisco!
Neyðartiltekt
Ríkisstjórinn hefur ekki sýnt neina viðleitni til að taka rækilega til í hinni frægu borg, fyrr en nú var skyndilega komið með stórvirkar vinnuvélar og tæki til að sópa burtu mesta soranum, drasli og dópi, nálum eiturlyfja og illa þefjandi hrúgum. Það var von á fínu og frægu fólki og það var ekki sjón að sjá borgina, sem gestgjafinn, forsetinn úr Hvíta húsinu og flokksbróðir hans, ríkisstjórinn í Kaliforníu, ætluðu að bjóða upp á sem móttökuborg. En ekki hefur verið upplýst hvað gert var við þær þúsundir eða tugi þúsunda manna sem hafa hafst við síðustu árin í einhvers konar tjöldum og pappakössum, sem hróflað hefur verið upp, jafnt og þétt, á gangstéttum í fyrrum frægri draumaveröld. Sjálfsagt líða ekki mjög margar vikur þar til allt siglir í sama far, þegar þessum sýndaruppslætti er lokið og hinn ógeðfelldi veruleiki bankar upp á á nýjan leik.
Ríki án landamæra er varla ríki
En að öðru en þó skyldum hlutum. Eitt það fyrsta sem Joe Biden ákvað í tíð sinni í Hvíta húsinu var að stöðva þegar í stað ákvarðanir fyrirrennara síns, Donalds Trumps, um að treysta suðurlandamæri Bandaríkjanna. Frá þeim tíma hefur ólögmætur straumur manna eftirlitslítið streymt inn í Bandaríkin um þau landamæraleysi, og hefur fólksfjöldinn margfaldast frá því sem áður var og mun sennilega farinn að nálgast 10 milljónir manna þegar embættistíð Bidens lýkur í janúar 2005, eða 25 sinnum íbúafjöldi Íslands. Hvort þá hefjist ný tíð, með nýjum forseta, eða að Joe Biden fái framlengingu á sinni tíð, vita ekki bestu spákonur með neinni vissu enn. Enginn veit heldur með vissu hvaða fólk þetta er, né hvaðan það kemur upprunalega og hversu margir tugir þúsunda af skipulögðu glæpagengi eru á meðal þeirra! FBI, sem nýtur reyndar ekki lengur þess álits og trausts eins og áður var, vegna margra vafasama tilþrifa alríkislögreglunnar, segir þó, að stofnunin telji augljóst að í hópi þessara milljóna séu að minnsta kosti yfir eitt hundrað sem eru á skrá alríkislögreglunnar, og FBI líti á sem hættulega hryðjuverkamenn. Þar á meðal eru Hamas-liðar, og stofnunin kemst ekki hjá að viðurkenna að þeir viti ekki hvar innan Bandaríkjanna þessa hættulegustu í hópi óleyfilegra „gesta“ sé að finna. Líklegast er þó að þeir gæti þess að dreifa sér þar til „kallið kemur“ um aðgerðir. Af hvaða tagi það verður, eða í hvað stærð eða mæli, verður ekkert sagt um, en fjandsamlegar og óvæntar verða þær, komi þessir kumpánar skyndilega út úr fylgsni sínu og láti til skarar skríða. En það eru ekki aðeins hryðjuverkamenn eða aðrir af því tagi sem hafa í milljónatali farið ólöglega inn fyrir landamærin. Þar er mikill fjöldi annarra óþurftarmanna í annars konar erindum og fjarri því góðum. Það sést á börnunum sem þeir flytja með sér og eru ekki þeirra börn og öllum er ljóst að þeirra bíða ömurleg örlög og munu tapa æsku sinni í ógn og skelfingu og horfa í angist eftir áratug eða fáeina slíka framan í glataða tilveru sem þau báru enga sök á. Og svo eru það smyglararnir sem flytja inn fentanýl-eitrið sem er 50 sinnum sterkara en heróín og 100 sinnum sterkara en morfín. Þetta efni er aðallega framleitt í tveimur löndum, Kína og Mexíkó, en meginefnin í þetta bráðdrepandi „lyf“ eru sögð koma frá Kína. Það er auðvitað handan við öll mörk ef þjóðarleiðtogar þurfa á persónulegum fundi að taka upp erindi við annan þeirra, um að slíkri framleiðslu verði hætt, að dreifingu þess yfir hafið verði hætt og þar fram eftir götunum. Margoft hefur verið upplýst að þrátt fyrir mjög slappa landamæravörslu á suðurlandamærum Bandaríkjanna í tíð Bidens, og hann gekkst beinlínis upp í á fyrri hluta tíðar sinnar í embætti, þá hafi margoft verið upplýst að tollverðir hafi náð að grípa mikið magn af fyrrnefndu eitri. Og stundum hafa þær upplýsingar fylgt að það efnismagn af fentanýli sem gert hafi verið upptækt hefði dugað til að drepa hundrað milljónir Bandaríkjamanna! Ekki hefur heyrst að forseti Kína hafi kannast við að honum hafi verið kunnugt um nokkuð þvílíkt, en sjálfsagt hefur hann lofast til að spyrja heimamenn sína hvort þeir hafi heyrt á þetta minnst.
Fyrrverandi forseti
Donald Trump hefur sagt, að verði hann forseti, þá muni hann nota herstyrk Bandaríkjanna til að fara yfir þau landamæri sem hafi verið einskis virt eftir að hann fór úr forsetastóli og eyðileggja þessa eiturframleiðslu í Mexíkó þannig að Kína sæti eitt uppi með Svarta-Pétur. Donald Trump segir jú sitthvað og sjálfsagt eru það eðlileg varfærnissjónarmið að taka eitthvað af þeim fullyrðingum með ákveðnum fyrirvara. En hitt er jafnrétt að það var mun friðvænlegra í veröldinni þegar hann hrökk upp úr draumasvefni sínum algjörlega útsofinn upp úr klukkan fjögur og tók að senda umheiminum skilaboð í óyfirlesnum skeytum þegar ritskoðarar Hvita hússins sváfu enn fjarri og gátu, að eigin sögn, ekki „bjargað“ neinu.
„Bráðum koma …“
Nú styttist í þann tíma þegar ungir og gamlir setja sig í þann gír að fara að bíða eftir jólunum. Enda er það svo, að þegar ljóst er að blessuð jólin munu koma bráðum, þá hlakka fleiri til en börnin. Þeim gömlu þykir eiginlega nægilega gaman þegar ungviðið sér um þennan tilhlökkunarþátt, því þá fer að lokum að næstum allir hrífast með.
En í augnablikinu er staðan pínulítið sú, að við erum öll að bíða eftir gosinu. Það er auðvitað fulllangt gengið að segja að einhver hlakki raunverulega til. En við höfum ekki, um okkar lífsins stutta skeið, séð að gos sem við „höfum beðið eftir“, gos sem við vitum að er ókomið en kemur, hafi sprengt í sundur megingatnakerfi í allstórri byggð og eyðilagt eða skemmt stórlega allmörg hús án þess að mæta með gosið. Við erum ekki að halda því fram að nokkurt náttúruafl eigi að vekja íbúana með fyrirvaralausri stórárás, eins og í Vestmanneyjum fyrir hálfri öld, þannig að íbúarnir þurftu nokkur kraftaverk í sömu svifum til að bjarga sér.
Okkar prýðilegu sérfræðingar, sem við erum heppin að njóta, hafa fengið fyrirboða með fyrri gosum en leikmanni finnst einhvern veginn, að nú sé komið allt öðruvísi að okkur en áður. Sérfræðingarnir benda á, að nú sé jafnvel hafin eldgosatíð í og á Reykjanesi og út á sjó, sem geti þess vegna staðið í 800 ár. Gamlir karlar og hin kynin, sem munu vera orðin 17, taka þessu öllu karlmannlega, sem þeir einir geta, en ekki hin 16 kynin, og segja að það sé óþarfi að gera veður út af því. En þeir bæta því ekki við, að þeir ætla sér hvort sem er aðeins að lifa örfáa áratugi af þessum 800 og munu fara létt með þetta allt.
Í vikunni var Jónasar dagur Hallgrímssonar og ekki af því að hann hafi verið okkar fyrsti jarðfræðingur heldur hitt, að hann orti svo blessunarlega vel. Og svo orti hann um Skjaldbreið og kannski var það hann sem gaf honum karlmannsnafn, öndvert Herðubreið. Og hann eignaði Guði sjálfum ekki síst tignarmyndina miklu á Þingvöllum, ásamt eldinum: „… gat ei nema guð og eldur/ gjört svo dýrðlegt furðuverk.“
Þetta stendur auðvitað um allar aldir. En við sem vorum í menntaskóla 1968 fengum bæði að sjá steinasafn Jónasar og við fengum Jarðsögu Þorleifs Einarssonar, sem var mikið þing. Hann dró upp nokkuð aðra mynd um afrek Skjaldbreiðs og fleiri fjöll komu þar að, en eftir stendur að hlutur guðs og elds stendur enn, enda þeir ekki í keppni við einn eða neinn. Nokkru áður en bók Þorleifs kom út gengum við tveir skólabræður á Skjaldbreið og getum vitnað um að það þurfti enga sérlega garpa til, og Fjallið Skjaldbreiður tók okkur vel og eftirminnilega.