Skjaldbreiður og önnur stórmenni

Forsetar Kína og Bandaríkjanna hittust í San Francisco í Kaliforníu í vikunni og það þurfti undirbúning, eins og jafnan er þegar stórmenni hittast, en í þessu tilviki var spursmálið ekki síst hvort hreingerningafólki tækist að gera miðborg San Francisco frambærilega til að taka á móti gestum, án þess að það yrði til skammar.

Draugaborg?

Þessi fræga borg, sem löngum var talin með eftirsóttustu borgum Bandaríkjanna, hrein og dulúðug ævintýraborg, gyllt og glitrandi og áttu margir þann draum að ná að heimsækja þann stað, að minnsta kosti einu sinni á ævinni. En nú er hún Snorrabúð stekkur og hefur borgin breyst stórlega svo minnir stundum helst á ömurlega fátækrahjalla í Suður-Ameríku eða í þeim heimshlutum sem veikastir eru. Í Ríó í Brasilíu er miðborgin þokkalega haldin og ömurleg fátækrahverfi sjást ekki jafn auðveldlega og döpur hverfi San Francisco þar sem ruslað hafði verið upp íverustöðum, sem varla minntu á mannabústaði, og dópistar og hvers kyns bágindafólk af margvíslegu tagi hafði safnast saman í eymd. Búðarþjófar ræna og rupla hverja verslunina á fætur annarri og lögreglan telur það ekki vera í sínum verkahring að skakka leikinn, enda höfðu yfirvöld borgarinnar það sem stefnu sína að veikja bæri lögreglulið hennar jafnt og þétt. Sömu stefnu höfðu yfirvöld í Chicago, sem hefur langmesta tíðni glæpa í landinu, og ekki síst morða, af öllum borgum Bandaríkjanna. Demókratar, sem hafa stjórnað þeirri borg lengi, stæra sig af því að þessi mesta glæpaborg landsins hafi sett hörðustu reglur um að takmarka beri skotvopnaeign allra stórborga Bandaríkjanna, með þessum líka árangri. Það bendir þá óneitanlega til að harkalegar skotvopnareglur virðist ekki vera lausnin, eins og sumir halda ákaft fram. Á móti því er teflt að það séu aðeins sæmilegir borgarar sem skrá vopn sín og borga fyrir það. En hinir, sem eru mjög fjölmennir, sem eiga vopn í algjöru heimildarleysi, þótt tiltölulega auðvelt og ódýrt sé að uppfylla skrásetningarreglur, hafa það fram yfir alla hina að hafi þeir sært eða drepið með sínu ólögmæta vopni þá er ekki léttur leikur að hafa uppi á hinum óskráða eiganda, þótt vopnið finnist.

mbl.is