Hafa augun á áformum Norðmanna

Norska Stórþingið er um þessar mundir með til umfjöllunar skýrslu olíu- og orkumálaráðuneytis Noregs þar sem birt eru áform um vinnslu jarðefna á hafsbotni á tilteknu hafsvæði á landgrunni Noregs. Þar er mörkuð stefna um að heimila leit að jarðefnum á svæðinu með nýtingu í atvinnuskyni að markmiði. Þessi áform geta varðað hagsmuni Íslands, einkum vegna réttinda á Svalbarða á grundvelli Svalbarðasamningsins, sem Ísland varð aðili að árið 1994. Um þriðjungur þess svæðis sem norsk stjórnvöld áforma að heimila leit og nýtingu á er á landgrunni Svalbarða.

Rannsóknaþjónusta nefnda- og greiningarsviðs Alþingis hefur að beiðni umhverfis- og samgöngunefndar þingsins tekið saman greinargerð um áform Norðmanna um vinnslu jarðefna á hafsbotni á landgrunni Noregs. Þar kemur fram að skýrslan er til meðferðar í orku- og umhverfisnefnd Stórþingsins og til umsagnar til 19. desember.

„Verði hún samþykkt geta norsk stjórnvöld veitt heimild til leitar og síðar vinnslu á jarðefnum á hafsbotni á landgrunni Noregs,“ segir í greinargerðinni. „Fallist Stórþingið á áform um að opna fyrir leit að jarðefnum á landgrunni Noregs og leyfi í framhaldinu vinnslu þeirra, eins og allar líkur eru á, hefst nýr kafli í nýtingu náttúruauðlinda á norðurslóðum,“ segir þar ennfremur.

Svæðið sem norsk stjórnvöld hafa afmarkað sem hugsanlegt leitar- og vinnslusvæði vegna jarðefnavinnslu er að langstærstum hluta á Íshafshluta Mið-Atlantshafshryggjarins, á landgrunni Jan Mayen og Svalbarða. „Syðsti hluti þess teygir sig þó suður undir efnahagslögsögu Íslands og að svonefndu Drekasvæði […]. Svæðið minnkaði nokkuð til suðurs og austurs eftir umsagnarferlið sökum þess að fjölmargir aðilar urðu til að benda á þá miklu óvissu sem fylgdi vinnslu jarðefna á miklu hafdýpi í námunda við mikilvæg fiskimið,“ segir í greinargerðinni til umhverfis- og samgöngunefndar.

Það er einkum Svalbarði og Svalbarðasamningurinn sem varðar hagsmuni Íslands. Samningurinn veitir Noregi fullveldisrétt á Svalbarða en setur honum þó ákveðnar skorður. Ágreiningur hefur sem kunnugt er verið um túlkun á gildissviði samningsins. Jafnréttisákvæði hans kveður á um að ríkisborgarar og lögaðilar aðildarríkja samningsins (44 ríki) skuli njóta jafnræðis til nýtingar tiltekinna náttúruauðlina á Svalbarða og hafa íslensk stjórnvöld haldið því fram að landgrunnið í kring tilheyri eyjaklasanum en ekki eingöngu Noregi og þar af leiðandi sé nýting auðlinda landgrunnsins háð Svalbarðasamningnum. Var þetta sjónarmið ítrekað í bréfi sem utanríkisráðuneytið sendi norskum stjórnvöldum í janúar sl. Samningurinn sé eini grundvöllur réttinda Noregs á hafsvæðinu umhverfis Svalbarða.

Fleiri aðildarríki samningsins hafa lýst sig andsnúin túlkunum Norðmanna, sem halda því á hinn bóginn fram að landgrunnið umhverfis Svalbarða sé hluti af landgrunni Noregs, m.a. skv. Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Svalbarðasamningurinn eigi einungis við innan 12 mílna landhelgi Noregs á Svalbarða, allt landgrunnið tilheyri Noregi, sé norskt yfirráðasvæði og Noregi sé einungis skylt að hlíta ákvæðum Svalbarðasamningsins innan 12 mílna landhelgislínunnar.

Í umfjöllun um hafréttarmál á vef íslenska utanríkisráðuneytisins segir aftur á móti um Svalbarðamálið að takmarkanir sem fullveldisrétti Noregs séu settar í Svalbarðasamningnum gildi jafnt á Svalbarða sjálfum, innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða. Ísland hafi jafnan rétt á við önnur aðildarríki til fiskveiða í lögsögu Svalbarða og til nýtingar auðlinda á landgrunni hans.

Í greinargerð nefnda- og greiningarsviðs Alþingis kemur fram að 200 sjómílna fiskverndarsvæðinu við Svalbarða hafi verið komið á „samkvæmt þeirri túlkun Norðmanna að landgrunn Svalbarða tilheyri Noregi og það er þessi skilningur á Svalbarðasamningnum og Hafréttarsamningnum sem býr að baki þegar ákvarðanir voru teknar um að afmarka svæði á landgrunni Noregs vegna leitar að jarðefnum á hafsbotni og mögulegrar nýtingar þeirra.“

Ætlunin er að skýrslan verði til lokaumfjöllunar á Stórþinginu 4. apríl 2024. „Mun þá koma fram hvaða hug þingmenn bera til efnis skýrslunnar og hvort þingið ályktar um hana í heild eða einhverja þætti hennar. Verði hún samþykkt geta norsk stjórnvöld veitt heimild til leitar og síðar vinnslu á jarðefnum af hafsbotni á landgrunni Noregs.“

mbl.is