Mér vöknaði örlítið um augun þegar ég sá fréttirnar á mánudagsmorguninn: „Milei presidente!“
Lokaumferð forsetakosninganna í Argentínu fór fram um helgina og tókst úfinhærða frjálshyggjumanninum Javier Milei að valta yfir perónistann Sergio Massa með næstum 56% atkvæða. Frá því að herforingjastjórnin steig til hliðar árið 1983 hefur enginn frambjóðandi unnið forsetakosningar í Argentínu með svona mikið fylgi á bak við sig.
Milei tekur formlega við embætti 10. desember og undirbýr hann núna allsherjartiltekt í stjórnkerfi og hagstjórn landsins.
Lengst af höfðu fréttaskýrendur enga trú á að Milei yrði nokkurn tíma forseti. Flestir töldu að hann ætti fylgi sitt fyrst og fremst að þakka gremju kjósenda, sem völdu Milei á kjörseðlum og í skoðanakönnunum til þess eins að lýsa óánægju sinni með tvær stærstu valdablokkir landsins: Perónistana annars vegar og íhaldsmennina hins vegar – en að þegar á hólminn væri komið myndu Argentínubúar kjósa flokk með hefðbundna stefnu frekar en hreinræktaðan anarkó-kapítalista. Andúðin skein líka í gegn hjá fjölmiðlum, sem voru duglegir að stimpla Milei „öfgahægrimann“ og „popúlista“ sem væri af sama sauðahúsi og Trump og Bolsonaro.
Það sem fréttaskýrendur virðast hafa gleymt að taka með í reikninginn er að íbúar Argentínu hafa hreinlega engu að tapa: verðbólga mælist 143%, um 43% landsmanna lifa undir fátæktarmörkum og ástandið svo slæmt að það virðist varla geta versnað. Aðferðir gömlu flokkanna eru fullreyndar.
Svo gat Milei líka minnt Argentínubúa á að þeir eru ekki með öllu ókunnugir frelsinu. Allt fram á þriðja áratug síðustu aldar var hagkerfi Argentínu í hópi þeirra frjálsustu í heimi, og landið á sama tíma í hópi þeirra ríkustu í heimi. Það var ekki fyrr en í kjölfar kreppunnar miklu að stjórnvöld tóku að beita inngripum sem bara versnuðu og versnuðu, svo að hagkerfinu hrakaði jafnt og þétt. Eina undantekningin alla síðustu öldina var umbótatímabil Carlosar Menem á 10. áratugnum, sem fór vel af stað en endaði með ósköpum vegna vanhugsaðrar peningastefnu.
Ég fagnaði sigri Milei með því að elda mér nautasteik að hætti hússins, og skaust út í búð gagngert til að kaupa flösku af argentínsku rauðvíni. Gott ef það verður ekki steik og rauðvín í matinn alla þessa viku, því það virðist svo afskaplega sjaldgæft að frelsið sigri og enn sjaldgæfara að góðar fréttir berist frá Argentínu.
Með kjósendur með sér en þingið á móti sér
En hvað gerist næst? Sigur Milei markar vissulega kaflaskil, en það verður allt annað en létt að koma róttækum stefnumálum hans í gegn og leitun að dæmum úr sögunni sem Milei gæti haft til hliðsjónar – ýmist til að herma eftir eða til að forðast að endurtaka mistök annarra. Það mætti helst líkja verkefni Milei við þær áskoranir sem Margaret Thatcher stóð frammi fyrir á 9. áratugnum, en vandi Argentínu er samt mun alvarlegri og allt annars eðlis en þau vandamál sem Bretland glímdi við þegar Thatcher komst til valda.
Milei getur líka reiknað með miklum mótbyr. Íhaldsmenn og perónistar hafa bæði töglin og hagldirnar á argentínska þinginu og er flokkur Milei þar aðeins með 39 sæti af 257 í neðri deildinni en 7 af 72 í öldungadeildinni. Eitt af allra fyrstu verkefnum ríkisstjórnar Milei verður að útfæra fjárlög næsta árs og leggja fyrir þingið til samþykktar. Þó að löng hefð sé fyrir því í Argentínu að þingið reyni ekki að standa í vegi fyrir fyrstu fjárlögum nýkjörins forseta kæmi varla á óvart ef gömlu flokkarnir verða tregir til að leggja blessun sína yfir fjárlög Milei.
Þá er gulltryggt að argentínska stjórnsýslan mun berjast með kjafti og klóm gegn niðurskurðaraðgerðum Milei, en hann hyggst m.a. fækka ráðuneytunum úr átján í átta, taka upp ávísanakerfi í handónýtu skólakerfinu, minnka ríkisútgjöld um sem nemur 15% af landsframleiðslu og „einkavæða allt sem hægt er að einkavæða“.
Í dag jafngilda útgjöld hins opinbera í Argentínu í kringum 38% af landsframleiðslu, sem er svipað hlutfall og í Bandaríkjunum og Noregi, en til samanburðar fer hlutfallið upp í næstum 50% í Þýskalandi og 59% í Frakklandi. Myndi niðurskurður Milei setja Argentínu í flokk með ríkjum á borð við Singapúr og Taívan þar sem tekist hefur að halda umsvifum hins opinbera í algjöru lágmarki.
Erfiðast af öllu verður kannski að fleygja argentínska pesóanum í ruslið (þar sem hann á heima) og koma á stöðugleika í hagkerfinu með því að dollaravæða peningakerfið. Hugmyndin er góð og breytingin nauðsynleg, en það er ekki sama hvernig staðið verður að því að gera bandaríkjadalinn að gjaldmiðli heillar þjóðar – hvað þá þegar gjaldeyrisforði ríkisins er uppurinn.
Er heldur ekki eins og Milei taki við góðu búi: hagstjórn fráfarandi ríkisstjórnar hefur fyrst og fremst falist í því að slökkva elda til að reyna að forða landinu frá algjöru hruni. Skuldir ríkissjóðs eru í hæstu hæðum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem hefur verið helsta líflína argentínska hagkerfisins, hefur verið mjög óhress með þróun mála í landinu það sem af er þessu ári.
Í kapphlaupi við tímann
Frjálshyggjumenn um allan heim hljóta að vera með hjartað í buxunum. Í Argentínu hefur forsetinn full yfirráð yfir framkvæmdavaldinu og margt sem Milei ætti að geta gert án þess að þingið geti stoppað hann: ef honum tekst að snúa argentínska hagkerfinu við á næstu fjórum árum yrði það meiri háttar sigur fyrir hugsjónir og kenningar frjálshyggjunnar. Að sama skapi yrði það vatn á myllu vinstrimanna um ókomna tíð ef argentínska frjálshyggjubyltingin mislukkast.
Það fór furðulítið fyrir fréttum af sigri Milei, í ljósi þess hversu merkilegt það er að maður með hans stefnumál skyldi ná kjöri, en því verður alveg örugglega slegið upp á besta stað í heimspressunni, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, ef umbæturnar renna út í sandinn og viðsnúningurinn lætur á sér standa.
Fyrstu merki benda til þess að Milei hafi markaðinn með sér í liði. Kauphöllin í Buenos Aires var lokuð á mánudag en það voru lífleg viðskipti með hlutabréf argentínskra félaga í New York og stór kauphallarsjóður sem sérhæfir sig í argentínskum bréfum hækkaði um 11,5% í viðskiptum dagsins. Þegar markaðir voru opnaðir í Argentínu á þriðjudag rauk MERVAL-hlutabréfavísitalan upp um 20%.
Blessunarlega virðist Milei ekki ætla að tvínóna við hlutina og í sigurræðu sinni sagði hann að það væri ekkert svigrúm fyrir hægfara aðlögun. Hann gerir sér eflaust grein fyrir að umbæturnar munu ekki ganga sársaukalaust fyrir sig og að ástandið mun vafalítið versna áður en það batnar. Umbætur í smáskrefum myndu skila litlu og þvert á móti auðvelda andstæðingum Milei að spyrna við fótunum. Þolinmæði kjósenda eru líka takmörk sett og kjörtímabilið varir bara í fjögur ár.
Endalaus barátta
Milei hefur þegar unnið þrekvirki. Það er ekki lítið afrek að hafa gert þorra 46 milljóna manna þjóðar að róttækum frjálshyggjumönnum og verður kannski fólki í öðrum löndum hvati til að kynna sér betur hvað alvöru frjálshyggja gengur út á.
Ekki veitir af, því alls staðar virðist vinstrið vera að sækja á meðan frelsið hopar smám saman. Í nýlegu viðtali hjá Tucker Carlson undirstrikaði Milei að reynsla Argentínu sýndi hve aðkallandi það er að stöðva þessa þróun og hleypa sósíalismanum ekki að. „En það gerist ekki af sjálfu sér. Við verðum að vera viðbúin því að þurfa að standa í menningarstríði hvern einasta dag, og við þurfum að gæta okkar á því að [andstæðingarnir] hika ekki við að koma sér fyrir innan hins opinbera, og […] fá menningarheiminn og fjölmiðla á sveif með sér og beita menntakerfinu fyrir sig,“ sagði Milei. „Milton Friedman sagði að félagslegt hlutverk fyrirtækja væri einungis að skapa hagnað, en það er ekki nóg: Fyrirtæki verða að fjárfesta í þeim sem halda uppi vörnum fyrir frelsið svo að sósíalistarnir sæki ekki fram. Annars munu [þeir] koma sér fyrir innan hins opinbera og nota ríkisvaldið til að koma til leiðar stefnu sem til lengri tíma litið gerir út af við allt sem hún snertir. Allir þeir sem skapa verðmæti þurfa að taka þátt í baráttunni gegn sósíalismanum og vexti ríkisvaldsins, vitandi sem er að sósíalisminn reynir í sífellu að breiða úr sér.“
Þar hitti Milei naglann á höfuðið.