Þetta verður ekki létt hjá Milei

Í kosningabaráttunni átti Milei það til að munda táknræna keðjusög. …
Í kosningabaráttunni átti Milei það til að munda táknræna keðjusög. Í Argentínu er báknið nefnilega orðið svo útþanið og regluverkið orðið að slíkum frumskógi að það dugar ekki að beita á það skurðhníf eða sveðju. AFP/Marcos Gomez

Mér vöknaði ör­lítið um aug­un þegar ég sá frétt­irn­ar á mánu­dags­morg­un­inn: „Milei presi­dente!“

Lokaum­ferð for­seta­kosn­ing­anna í Arg­entínu fór fram um helg­ina og tókst úf­in­hærða frjáls­hyggju­mann­in­um Javier Milei að valta yfir perón­ist­ann Sergio Massa með næst­um 56% at­kvæða. Frá því að her­for­ingja­stjórn­in steig til hliðar árið 1983 hef­ur eng­inn fram­bjóðandi unnið for­seta­kosn­ing­ar í Arg­entínu með svona mikið fylgi á bak við sig.

Milei tek­ur form­lega við embætti 10. des­em­ber og und­ir­býr hann núna alls­herj­ar­til­tekt í stjórn­kerfi og hag­stjórn lands­ins.

Lengst af höfðu frétta­skýrend­ur enga trú á að Milei yrði nokk­urn tíma for­seti. Flest­ir töldu að hann ætti fylgi sitt fyrst og fremst að þakka gremju kjós­enda, sem völdu Milei á kjör­seðlum og í skoðana­könn­un­um til þess eins að lýsa óánægju sinni með tvær stærstu valda­blokk­ir lands­ins: Perón­ist­ana ann­ars veg­ar og íhalds­menn­ina hins veg­ar – en að þegar á hólm­inn væri komið myndu Arg­entínu­bú­ar kjósa flokk með hefðbundna stefnu frek­ar en hrein­ræktaðan an­arkó-kapí­tal­ista. Andúðin skein líka í gegn hjá fjöl­miðlum, sem voru dug­leg­ir að stimpla Milei „öfga­hægrimann“ og „po­púl­ista“ sem væri af sama sauðahúsi og Trump og Bol­son­aro.

Það sem frétta­skýrend­ur virðast hafa gleymt að taka með í reikn­ing­inn er að íbú­ar Arg­entínu hafa hrein­lega engu að tapa: verðbólga mæl­ist 143%, um 43% lands­manna lifa und­ir fá­tækt­ar­mörk­um og ástandið svo slæmt að það virðist varla geta versnað. Aðferðir gömlu flokk­anna eru full­reynd­ar.

Svo gat Milei líka minnt Arg­entínu­búa á að þeir eru ekki með öllu ókunn­ug­ir frels­inu. Allt fram á þriðja ára­tug síðustu ald­ar var hag­kerfi Arg­entínu í hópi þeirra frjáls­ustu í heimi, og landið á sama tíma í hópi þeirra rík­ustu í heimi. Það var ekki fyrr en í kjöl­far krepp­unn­ar miklu að stjórn­völd tóku að beita inn­grip­um sem bara versnuðu og versnuðu, svo að hag­kerf­inu hrakaði jafnt og þétt. Eina und­an­tekn­ing­in alla síðustu öld­ina var um­bóta­tíma­bil Car­los­ar Menem á 10. ára­tugn­um, sem fór vel af stað en endaði með ósköp­um vegna van­hugsaðrar pen­inga­stefnu.

Ég fagnaði sigri Milei með því að elda mér nauta­steik að hætti húss­ins, og skaust út í búð gagn­gert til að kaupa flösku af arg­entínsku rauðvíni. Gott ef það verður ekki steik og rauðvín í mat­inn alla þessa viku, því það virðist svo af­skap­lega sjald­gæft að frelsið sigri og enn sjald­gæfara að góðar frétt­ir ber­ist frá Arg­entínu.

Með kjós­end­ur með sér en þingið á móti sér

En hvað ger­ist næst? Sig­ur Milei mark­ar vissu­lega kafla­skil, en það verður allt annað en létt að koma rót­tæk­um stefnu­mál­um hans í gegn og leit­un að dæm­um úr sög­unni sem Milei gæti haft til hliðsjón­ar – ým­ist til að herma eft­ir eða til að forðast að end­ur­taka mis­tök annarra. Það mætti helst líkja verk­efni Milei við þær áskor­an­ir sem Marga­ret Thatcher stóð frammi fyr­ir á 9. ára­tugn­um, en vandi Arg­entínu er samt mun al­var­legri og allt ann­ars eðlis en þau vanda­mál sem Bret­land glímdi við þegar Thatcher komst til valda.

Milei get­ur líka reiknað með mikl­um mót­byr. Íhalds­menn og perón­ist­ar hafa bæði tögl­in og hagld­irn­ar á arg­entínska þing­inu og er flokk­ur Milei þar aðeins með 39 sæti af 257 í neðri deild­inni en 7 af 72 í öld­unga­deild­inni. Eitt af allra fyrstu verk­efn­um rík­is­stjórn­ar Milei verður að út­færa fjár­lög næsta árs og leggja fyr­ir þingið til samþykkt­ar. Þó að löng hefð sé fyr­ir því í Arg­entínu að þingið reyni ekki að standa í vegi fyr­ir fyrstu fjár­lög­um ný­kjör­ins for­seta kæmi varla á óvart ef gömlu flokk­arn­ir verða treg­ir til að leggja bless­un sína yfir fjár­lög Milei.

Þá er gull­tryggt að arg­entínska stjórn­sýsl­an mun berj­ast með kjafti og klóm gegn niður­skurðaraðgerðum Milei, en hann hyggst m.a. fækka ráðuneyt­un­um úr átján í átta, taka upp ávís­ana­kerfi í handónýtu skóla­kerf­inu, minnka rík­is­út­gjöld um sem nem­ur 15% af lands­fram­leiðslu og „einka­væða allt sem hægt er að einka­væða“.

Í dag jafn­gilda út­gjöld hins op­in­bera í Arg­entínu í kring­um 38% af lands­fram­leiðslu, sem er svipað hlut­fall og í Banda­ríkj­un­um og Nor­egi, en til sam­an­b­urðar fer hlut­fallið upp í næst­um 50% í Þýskalandi og 59% í Frakklandi. Myndi niður­skurður Milei setja Arg­entínu í flokk með ríkj­um á borð við Singa­púr og Taív­an þar sem tek­ist hef­ur að halda um­svif­um hins op­in­bera í al­gjöru lág­marki.

Erfiðast af öllu verður kannski að fleygja arg­entínska pesó­an­um í ruslið (þar sem hann á heima) og koma á stöðug­leika í hag­kerf­inu með því að doll­ara­væða pen­inga­kerfið. Hug­mynd­in er góð og breyt­ing­in nauðsyn­leg, en það er ekki sama hvernig staðið verður að því að gera banda­ríkja­dal­inn að gjald­miðli heill­ar þjóðar – hvað þá þegar gjald­eyr­is­forði rík­is­ins er upp­ur­inn.

Er held­ur ekki eins og Milei taki við góðu búi: hag­stjórn frá­far­andi rík­is­stjórn­ar hef­ur fyrst og fremst fal­ist í því að slökkva elda til að reyna að forða land­inu frá al­gjöru hruni. Skuld­ir rík­is­sjóðs eru í hæstu hæðum og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn, sem hef­ur verið helsta líflína arg­entínska hag­kerf­is­ins, hef­ur verið mjög óhress með þróun mála í land­inu það sem af er þessu ári.

Í kapp­hlaupi við tím­ann

Frjáls­hyggju­menn um all­an heim hljóta að vera með hjartað í bux­un­um. Í Arg­entínu hef­ur for­set­inn full yf­ir­ráð yfir fram­kvæmda­vald­inu og margt sem Milei ætti að geta gert án þess að þingið geti stoppað hann: ef hon­um tekst að snúa arg­entínska hag­kerf­inu við á næstu fjór­um árum yrði það meiri hátt­ar sig­ur fyr­ir hug­sjón­ir og kenn­ing­ar frjáls­hyggj­unn­ar. Að sama skapi yrði það vatn á myllu vinstrimanna um ókomna tíð ef arg­entínska frjáls­hyggju­bylt­ing­in mis­lukk­ast.

Það fór furðulítið fyr­ir frétt­um af sigri Milei, í ljósi þess hversu merki­legt það er að maður með hans stefnu­mál skyldi ná kjöri, en því verður al­veg ör­ugg­lega slegið upp á besta stað í heim­spress­unni, viku eft­ir viku og mánuð eft­ir mánuð, ef um­bæt­urn­ar renna út í sand­inn og viðsnún­ing­ur­inn læt­ur á sér standa.

Fyrstu merki benda til þess að Milei hafi markaðinn með sér í liði. Kaup­höll­in í Bu­enos Aires var lokuð á mánu­dag en það voru líf­leg viðskipti með hluta­bréf arg­entínskra fé­laga í New York og stór kaup­hall­ar­sjóður sem sér­hæf­ir sig í arg­entínsk­um bréf­um hækkaði um 11,5% í viðskipt­um dags­ins. Þegar markaðir voru opnaðir í Arg­entínu á þriðju­dag rauk MERVAL-hluta­bréfa­vísi­tal­an upp um 20%.

Bless­un­ar­lega virðist Milei ekki ætla að tvínóna við hlut­ina og í sig­ur­ræðu sinni sagði hann að það væri ekk­ert svig­rúm fyr­ir hæg­fara aðlög­un. Hann ger­ir sér ef­laust grein fyr­ir að um­bæt­urn­ar munu ekki ganga sárs­auka­laust fyr­ir sig og að ástandið mun vafa­lítið versna áður en það batn­ar. Um­bæt­ur í smá­skref­um myndu skila litlu og þvert á móti auðvelda and­stæðing­um Milei að spyrna við fót­un­um. Þol­in­mæði kjós­enda eru líka tak­mörk sett og kjör­tíma­bilið var­ir bara í fjög­ur ár.

Enda­laus bar­átta

Milei hef­ur þegar unnið þrek­virki. Það er ekki lítið af­rek að hafa gert þorra 46 millj­óna manna þjóðar að rót­tæk­um frjáls­hyggju­mönn­um og verður kannski fólki í öðrum lönd­um hvati til að kynna sér bet­ur hvað al­vöru frjáls­hyggja geng­ur út á.

Ekki veit­ir af, því alls staðar virðist vinstrið vera að sækja á meðan frelsið hop­ar smám sam­an. Í ný­legu viðtali hjá Tucker Carl­son und­ir­strikaði Milei að reynsla Arg­entínu sýndi hve aðkallandi það er að stöðva þessa þróun og hleypa sósí­al­ism­an­um ekki að. „En það ger­ist ekki af sjálfu sér. Við verðum að vera viðbúin því að þurfa að standa í menn­ing­ar­stríði hvern ein­asta dag, og við þurf­um að gæta okk­ar á því að [and­stæðing­arn­ir] hika ekki við að koma sér fyr­ir inn­an hins op­in­bera, og […] fá menn­ing­ar­heim­inn og fjöl­miðla á sveif með sér og beita mennta­kerf­inu fyr­ir sig,“ sagði Milei. „Milt­on Friedm­an sagði að fé­lags­legt hlut­verk fyr­ir­tækja væri ein­ung­is að skapa hagnað, en það er ekki nóg: Fyr­ir­tæki verða að fjár­festa í þeim sem halda uppi vörn­um fyr­ir frelsið svo að sósí­al­ist­arn­ir sæki ekki fram. Ann­ars munu [þeir] koma sér fyr­ir inn­an hins op­in­bera og nota rík­is­valdið til að koma til leiðar stefnu sem til lengri tíma litið ger­ir út af við allt sem hún snert­ir. All­ir þeir sem skapa verðmæti þurfa að taka þátt í bar­átt­unni gegn sósí­al­ism­an­um og vexti rík­is­valds­ins, vit­andi sem er að sósí­al­ism­inn reyn­ir í sí­fellu að breiða úr sér.“

Þar hitti Milei nagl­ann á höfuðið.

mbl.is