Camelot á sér níu líf

Aðdragandi þessarar helgar er athyglisverður, þegar horft er til frétta. Sumar eru gamlar, en eru engu að síður fréttir enn og ein einmitt fyrir það hve hún endist og nær þó að snerta við mannskapnum í heimaríkinu, sem gerir mest úr henni, nú sextíu árum síðar. Og fyrir drjúgum hluta heimsins er gamla fréttin ný. Þeir fara sér hægar en heimamenn, svo sem von er. Það má jafnvel orða það svo, að John F. Kennedy hafi með vissum hætti verið „myrtur aftur“.

Sprelllifandi morð

Atburðarásin er í tímaröð og stundum eins og hafi gerst í gær. Og það vantaði ekki, að ótrúlega margir höfðu mótaðar skoðanir á því, hver eða hverjir myrtu forsetann eða hver var hafður fyrir rangri sök um morðið. Og þeir voru til sem töldu að ásakanirnar hefðu verið fráleitar. Þó eru flestir þeirra, sem létu mest til sín taka fyrir 60 árum, og tóku þá virkan þátt í umræðunni, horfnir af heimi, enda væri meintur, en ódæmdur morðinginn, kominn vel á níræðisaldur. Sá, Lee Harvey Oswald, náðist fljótt og var fangi lögreglunnar í Dallas og var myrtur í fangi lögreglunnar í Dallas, svo skrítin sem sú atburðarás var.

Lögreglan hafði tilkynnt, að hún þyrfti að flytja hinn grunaða í öryggisfangelsi og fór ekki leynt með það, hvenær sá flutningur myndi verða. Allir vestra vissu að þetta yrði stærsta sjónvarpsstund ársins fram til þessa. Þrátt fyrir það, hversu slysalega leiksýning lögreglunnar fór, er þessi aðferð lögreglu kunn við að veifa „hinum grunaða“ framan í ljósmyndara við flutning hans á milli húsa í upphafi sakamáls, og brenna því inn í næstum hvern mann, án þess að segja það: „Þetta er ekki sá grunaði, þetta er sá seki.“

Ákæruvaldið telur að sú aðferð hafi mjög mikilvæg áhrif á framgöngu „réttvísinnar“ og skoðanamyndun kviðdómsins. Það var ekki síst þess vegna sem lögreglan tryggði fréttaþyrstum ljósmyndurum og upptökumönnum miðlanna gott aðgengi að sér í víðum gangi kjallara lögreglustöðvarinnar í Dallas, þar sem boðað var að lögreglan myndi leiða Lee Harvey Oswald á milli sín, og í orðsins fyllstu merkingu berskjaldaðan, enda gættu lögreglumennirnir þess að skyggja ekki á hinn grunaða.

Heimsfrægur í hálfan dag

Svo háttaði að auki til, að á meðal annarra sem lögreglan veitti þennan eftirsótta aðgang að frægasta manni landsins þennan sólarhringinn, þótt ekki væri hann sjónvarps- eða blaðamaður, var Jack Ruby. Hann var næturklúbbseigandi, sem lengi hafði verið í góðu sambandi við helstu snillingana í lögreglunni í Dallas og þar höfðu menn um hríð klappað hver öðrum á bakið og „á því græddu báðir“, eins og sagt var í slagaranum forðum.

Sú var ástæðan fyrir því, að tilvonandi morðingi meints morðingja forseta Bandaríkjanna, fékk sérstakt leyfi lögreglunnar til að vera í hópi útvalinna sem stóðu nærri í gangi kjallara lögreglustöðvarinnar, þegar Oswald var leiddur, eins og hinn seki, daginn eftir morðið, fram hjá þessum hópi áður en hópurinn stækkaði með auknu plássi og margfalt fleiri lögreglumönnum. Ruby skaust út úr hópnum og skaut Oswald í kviðinn og lögreglumennirnir tveir, sem leiddu hann, frusu nógu lengi til að Ruby næði markmiði sínu.

Hann var handtekinn og eftir snöfurmannlegt réttarhald var Ruby dæmdur í rafmagnsstólinn. Áfrýjunardómur í Texas ónýtti þann dóm, þar sem augljóst væri að Ruby hefði ekki getað fengið sanngjarna málsmeðferð af hálfu dómstólsins í Dallas. Réttarhöld voru boðuð á nýjan leik og á nýjum stað. Þetta átti sér stað árið 1966 en í ársbyrjun 1967 lést Jack Ruby úr krabbameini.

Hinn 25. nóvember var Oswald jarðaður. Móðir hans, eiginkona og bróðir og tvö ung börn þeirra hjóna, fylgdu hinum látna til grafar. Það var allt og sumt. Þar sem ekki var fleirum til að dreifa voru sex fréttamenn, sem þarna voru staddir, beðnir um að halda undir kistuna að gröfinni, sem þeir gerðu. Sama dag var John F. Kennedy borinn til grafar í Washington með mikilli viðhöfn eins og vænta mátti.

J. Edgar Hoover tilkynnir

Æðstráðandi FBI um áratugaskeið hafði tilkynnt með bréfi, sem birt var opinberlega eftir að Oswald var handtekinn, að hann væri örugglega morðingi forsetans og varð Oswald þar með hataðasti maður Bandaríkjanna. Og vissulega voru veigamikil atriði sem bentu í þá áttina en aðrar bendingar voru á þessum tíma að mestu leyti getgátur.

Lyndon Johnson var orðinn forseti með öllu því valdi sem fylgdi, þegar læknar höfðu lýst því yfir að forsetinn væri allur, þótt ekki næðist að sverja forsetaeiðinn við athöfn sem dómari leiddi. Það var gert nokkru síðar, þegar kista forsetans hafði verið flutt í forsetavélina, að kröfu lífvarðarsveita hins látna, en læknar á sjúkrahúsinu í Dallas andmæltu og vísuðu til reglna varðandi krufningu við slíkar aðstæður, sem þarna voru vissulega til staðar.

Johnson forseti vildi ekkert hik og ekkja Kennedys vildi komast sem fyrst með sinn látna mann „heim“. Það fór ekki á milli mála að Lyndon Johnson taldi þýðingarmikið að fljótt fengist opinber niðurstaða og bærileg sátt um það hver væri morðingi forseta Bandaríkjanna. En fyrst og síðast væri þýðingarmikið að sem allra fyrst yrði slegið á æsingatilburði um að Fidel Castro og þar með sovétóvinurinn sjálfur í Moskvu, þá undir forystu Nikíta Krústsjovs, hefðu drepið Kennedy. Helstu valdamenn Bandaríkjanna voru sannfærðir um það, að héldi sá æsingur áfram að vaxa jafn hratt og gerst hafði fyrstu klukkustundirnar, þá væri alls ekki víst að hægt yrði að ná stjórn á honum og standast kröfur um snarar og harkalegar árásir á rauða óvininn í austri og þá glitti í hættuna miklu: kröfu um að kjarnorkuvopnum yrði beitt.

Tilfinningasprengja

Allt hljómar þetta nokkuð ótrúverðugt nú svo löngu síðar, en myndin sem blasti við Bandaríkjamönnum var gríðarlega tilfinningarík og á meðan því væri ekki slegið algjörlega föstu, hver væri morðingi forsetans, væri mikil hætta á því að menn misstu vald á atburðarásinni. Og það var margt sem ýtti undir tilfinningar af margvíslegu tagi. Myndirnar sem birtust þegar leið á morðdaginn, ekki síst þar sem forsetafrúin dáða, Jacqueline Kennedy, með sín litlu börn, kom við sögu, í rauðu Chanel-dragtinni sinni frægu með kringlótta hattinum sem heyrði til, og hvort tveggja var útatað í blóði manns hennar, forsetans. Hún skipti ekki um föt þann daginn og þegar Lyndon Johnson krafðist þess, að dómari myndi taka af honum eið og skipa hann formlega forseta Bandaríkjanna þegar í stað, áður en forsetaflugvélin tæki á loft, og óskaði einnig eftir því að ekkja hins myrta forseta, Jackie, myndi þá standa við hlið hans, þá mætti hún enn í blóðugri dragtinni og örvilnunin og undrunin í senn, náðu inn í merg og bein hvers einasta Bandaríkjamanns og fullyrða má að allir sem vettlingi gátu valdið voru að fylgjast með þá stundina og enginn var ósnortinn. Stærsti hluti þeirra viknaði.

Við það bættist svo að morðinginn sem náðist var degi síðar myrtur af næturklúbbseiganda á sjálfri lögreglustöðinni. Enginn skildi hvernig í ósköpunum slíkt og þvílíkt gæti gerst í sæmilega þróuðu ríki og hvað þá í Bandaríkjunum sjálfum.

Enn eru nokkrar upplýsingar um árásina á Kennedy bundnar trúnaði, þótt smám saman hafi aðrar verið opnaðar, en fram til þessa hafa ákveðin nöfn verið útmáð af þeim textum sem birtir eru og fleira í þeim dúr. Donald Trump hefur sagt að verði hann forseti á nýjan leik þá muni hann gefa fyrirmæli um að allri leynd yfir forsetamorðinu verði létt af. En eins og fyrr sagði eru ekki miklar líkur á því að þar sé margs að vænta.

Á þeim skamma tíma sem Oswald lifði eftir að lögreglan handtók hann lýsti hann yfir sakleysi sínu. En flest benti þó gegn því að það væri rétt. Staðsetning hans á 5. hæð bókahússins liggur fyrir, riffill hans og skotkunnátta og þjálfun. Tengsl hans við Sovétríkin skipta ekki endilega öllu en hjálpa ekki. Og eins hitt að þegar lögreglumaðurinn Tippit stöðvar Oswald eftir morðið, þá drepur hann lögreglumanninn með skammbyssu sinni.

Læsileg bók

Strax árið eftir að John Kennedy féll fyrir byssukúlu í Dallas kom út á Íslandi læsileg bók um forsetann eftir Thorolf Smith fréttamann. Hún þótti góð jólagjöf 1964. Vissulega voru Kennedy og fjölskylda máluð þar í rósrauðum litum. Þriggja ára forsetatíð hans einnig. Glæsileiki þeirra hjóna og öflugt bakland kemur mjög við sögu.

Bréfritari las þessa bók sér til ánægju og algjörlega gagnrýnislaust. Síðar hefur nokkuð önnur mynd verið dregin upp í mergð bóka eins og jafnan gerist. En það breytir ekki því, að þótt Kennedy hafi verið breyskur maður og stórtækari í þeim efnum en nokkurn óraði fyrir, þá var hann óneitanlega sjarmerandi maður, sem fjölskylduauður hafði borið á höndum sér og hann kom vel frá deilunni við Krústsjov, sem kallaði flaugar sínar til baka.

Ekki löngu síðar bolaði Brésnef aðalritaranum frá, ríkti sem alvaldur í næstu 18 árin og dró úr þeim jákvæðu breytingum sem fyrirrennarinn hafði þó staðið fyrir. Það var mikill munur á þeim tveimur og glæsimenninu unga í Hvíta húsinu. En hann stóð stutt við. Fáeinum árum síðar reyndi Robert bróðir hans að koma með fjölskyldukeflið í Hvíta húsið á ný, en byssukúlan stöðvaði líka þau áform.

Öfgahægri úti um allt

Ríkisútvarpið hefur samviskulega og af nokkrum ákafa komið ógnarfréttum til eigenda sinna, sem vita ekki út á hvað þessi margþvælda eign gengur og skánar aldrei. En næstum því einu fréttirnar sem eru eftir úr þessum miðli eru um „öfgasinnaða hægrimenn“ sem séu að leggja undir sig löndin, án leyfis frá „RÚV“. Þetta er auðvitað skelfilegt, og verra en eldgos. Og það skrítna er, að hversu oft sem kosið er, um heiminn þveran og endilangan, virðist enginn öfgafullur vinstrimaður komast að. Það er skelfilegt fyrir útvarpið og okkur hin.

Einhver benti á að „RÚV“ teldi að ekki væru til neinir öfgasinnaðir vinstrimenn. Það er náttúrlega svakalegt. Þá verða þeir aldrei kosnir. Verður ekki að finna þá upp? Það hlýtur að vera þess virði. Því að ef þeir væru jafn snjallir og elskulegir og öfgasinnuðu hægrimennirnir eru hræðilegir (svo að allir á fréttastofunni gubba, sem vonlegt er, og mega ekki vera að því að borga skattana sína), þá skiptir engu og hvernig sem kosningaúrslit fara, aldrei berst frétt um það frá „RÚV“ að kjósendur hafi í óðagoti kosið yfir sig öfgasinnaðan vinstrimann og sá hafi strax tekið til spilltra málanna, og það verið misskilið.

Ástæðan er víst sú að „RÚV“ hefur þrátt fyrir mikla leit aldrei heyrt af né fundið nokkurn öfgasinnaðan vinstrimann, hvað þá nokkurn slíkan sem komist hefur til valda í kosningum. Núna síðast þá var enn einn öfgasinnaður hægrimaður kosinn, eins og slíka hefði vantað. Ekki kom fram af hverju þessir bjálfar í Argentínu með Peronistana hjálpsömu og fjarri því að vera öfgasinnaða, kusu þá ekki eins og þeir hafa alltaf gert. Þótt verðbólgan sé að nálgast 200 prósent þá kemur á móti að atvinnuleysið er ekki nema 30 prósent. Það er veruleg hætta á því að öfgasinnuðu hægrimennirnir muni eyðileggja bæði verðbólguna og atvinnuleysið. Hvað gerist þá?

mbl.is