Camelot á sér níu líf

Aðdrag­andi þess­ar­ar helg­ar er at­hygl­is­verður, þegar horft er til frétta. Sum­ar eru gaml­ar, en eru engu að síður frétt­ir enn og ein ein­mitt fyr­ir það hve hún end­ist og nær þó að snerta við mann­skapn­um í heimarík­inu, sem ger­ir mest úr henni, nú sex­tíu árum síðar. Og fyr­ir drjúg­um hluta heims­ins er gamla frétt­in ný. Þeir fara sér hæg­ar en heima­menn, svo sem von er. Það má jafn­vel orða það svo, að John F. Kenn­e­dy hafi með viss­um hætti verið „myrt­ur aft­ur“.

Sprelllif­andi morð

At­b­urðarás­in er í tímaröð og stund­um eins og hafi gerst í gær. Og það vantaði ekki, að ótrú­lega marg­ir höfðu mótaðar skoðanir á því, hver eða hverj­ir myrtu for­set­ann eða hver var hafður fyr­ir rangri sök um morðið. Og þeir voru til sem töldu að ásak­an­irn­ar hefðu verið frá­leit­ar. Þó eru flest­ir þeirra, sem létu mest til sín taka fyr­ir 60 árum, og tóku þá virk­an þátt í umræðunni, horfn­ir af heimi, enda væri meint­ur, en ódæmd­ur morðing­inn, kom­inn vel á níræðis­ald­ur. Sá, Lee Har­vey Oswald, náðist fljótt og var fangi lög­regl­unn­ar í Dallas og var myrt­ur í fangi lög­regl­unn­ar í Dallas, svo skrít­in sem sú at­b­urðarás var.

Lög­regl­an hafði til­kynnt, að hún þyrfti að flytja hinn grunaða í ör­ygg­is­fang­elsi og fór ekki leynt með það, hvenær sá flutn­ing­ur myndi verða. All­ir vestra vissu að þetta yrði stærsta sjón­varps­stund árs­ins fram til þessa. Þrátt fyr­ir það, hversu slysa­lega leik­sýn­ing lög­regl­unn­ar fór, er þessi aðferð lög­reglu kunn við að veifa „hinum grunaða“ fram­an í ljós­mynd­ara við flutn­ing hans á milli húsa í upp­hafi saka­máls, og brenna því inn í næst­um hvern mann, án þess að segja það: „Þetta er ekki sá grunaði, þetta er sá seki.“

Ákæru­valdið tel­ur að sú aðferð hafi mjög mik­il­væg áhrif á fram­göngu „rétt­vís­inn­ar“ og skoðana­mynd­un kviðdóms­ins. Það var ekki síst þess vegna sem lög­regl­an tryggði fréttaþyrst­um ljós­mynd­ur­um og upp­töku­mönn­um miðlanna gott aðgengi að sér í víðum gangi kjall­ara lög­reglu­stöðvar­inn­ar í Dallas, þar sem boðað var að lög­regl­an myndi leiða Lee Har­vey Oswald á milli sín, og í orðsins fyllstu merk­ingu ber­skjaldaðan, enda gættu lög­reglu­menn­irn­ir þess að skyggja ekki á hinn grunaða.

Heims­fræg­ur í hálf­an dag

Svo háttaði að auki til, að á meðal annarra sem lög­regl­an veitti þenn­an eft­ir­sótta aðgang að fræg­asta manni lands­ins þenn­an sól­ar­hring­inn, þótt ekki væri hann sjón­varps- eða blaðamaður, var Jack Ruby. Hann var næt­ur­klúbb­seig­andi, sem lengi hafði verið í góðu sam­bandi við helstu snill­ing­ana í lög­regl­unni í Dallas og þar höfðu menn um hríð klappað hver öðrum á bakið og „á því græddu báðir“, eins og sagt var í slag­ar­an­um forðum.

Sú var ástæðan fyr­ir því, að til­von­andi morðingi meints morðingja for­seta Banda­ríkj­anna, fékk sér­stakt leyfi lög­regl­unn­ar til að vera í hópi út­val­inna sem stóðu nærri í gangi kjall­ara lög­reglu­stöðvar­inn­ar, þegar Oswald var leidd­ur, eins og hinn seki, dag­inn eft­ir morðið, fram hjá þess­um hópi áður en hóp­ur­inn stækkaði með auknu plássi og marg­falt fleiri lög­reglu­mönn­um. Ruby skaust út úr hópn­um og skaut Oswald í kviðinn og lög­reglu­menn­irn­ir tveir, sem leiddu hann, frusu nógu lengi til að Ruby næði mark­miði sínu.

Hann var hand­tek­inn og eft­ir snöf­ur­mann­legt rétt­ar­hald var Ruby dæmd­ur í raf­magns­stól­inn. Áfrýj­un­ar­dóm­ur í Texas ónýtti þann dóm, þar sem aug­ljóst væri að Ruby hefði ekki getað fengið sann­gjarna málsmeðferð af hálfu dóm­stóls­ins í Dallas. Rétt­ar­höld voru boðuð á nýj­an leik og á nýj­um stað. Þetta átti sér stað árið 1966 en í árs­byrj­un 1967 lést Jack Ruby úr krabba­meini.

Hinn 25. nóv­em­ber var Oswald jarðaður. Móðir hans, eig­in­kona og bróðir og tvö ung börn þeirra hjóna, fylgdu hinum látna til graf­ar. Það var allt og sumt. Þar sem ekki var fleir­um til að dreifa voru sex frétta­menn, sem þarna voru stadd­ir, beðnir um að halda und­ir kist­una að gröf­inni, sem þeir gerðu. Sama dag var John F. Kenn­e­dy bor­inn til graf­ar í Washingt­on með mik­illi viðhöfn eins og vænta mátti.

J. Ed­g­ar Hoo­ver til­kynn­ir

Æðstráðandi FBI um ára­tuga­skeið hafði til­kynnt með bréfi, sem birt var op­in­ber­lega eft­ir að Oswald var hand­tek­inn, að hann væri ör­ugg­lega morðingi for­set­ans og varð Oswald þar með hataðasti maður Banda­ríkj­anna. Og vissu­lega voru veiga­mik­il atriði sem bentu í þá átt­ina en aðrar bend­ing­ar voru á þess­um tíma að mestu leyti get­gát­ur.

Lyndon John­son var orðinn for­seti með öllu því valdi sem fylgdi, þegar lækn­ar höfðu lýst því yfir að for­set­inn væri all­ur, þótt ekki næðist að sverja for­seta­eiðinn við at­höfn sem dóm­ari leiddi. Það var gert nokkru síðar, þegar kista for­set­ans hafði verið flutt í for­seta­vél­ina, að kröfu líf­varðarsveita hins látna, en lækn­ar á sjúkra­hús­inu í Dallas and­mæltu og vísuðu til reglna varðandi krufn­ingu við slík­ar aðstæður, sem þarna voru vissu­lega til staðar.

John­son for­seti vildi ekk­ert hik og ekkja Kenn­e­dys vildi kom­ast sem fyrst með sinn látna mann „heim“. Það fór ekki á milli mála að Lyndon John­son taldi þýðing­ar­mikið að fljótt feng­ist op­in­ber niðurstaða og bæri­leg sátt um það hver væri morðingi for­seta Banda­ríkj­anna. En fyrst og síðast væri þýðing­ar­mikið að sem allra fyrst yrði slegið á æs­inga­til­b­urði um að Fidel Castro og þar með sov­ét­óvin­ur­inn sjálf­ur í Moskvu, þá und­ir for­ystu Nikíta Krúst­sjovs, hefðu drepið Kenn­e­dy. Helstu valda­menn Banda­ríkj­anna voru sann­færðir um það, að héldi sá æs­ing­ur áfram að vaxa jafn hratt og gerst hafði fyrstu klukku­stund­irn­ar, þá væri alls ekki víst að hægt yrði að ná stjórn á hon­um og stand­ast kröf­ur um snar­ar og harka­leg­ar árás­ir á rauða óvin­inn í austri og þá glitti í hætt­una miklu: kröfu um að kjarn­orku­vopn­um yrði beitt.

Til­finn­inga­sprengja

Allt hljóm­ar þetta nokkuð ótrú­verðugt nú svo löngu síðar, en mynd­in sem blasti við Banda­ríkja­mönn­um var gríðarlega til­finn­inga­rík og á meðan því væri ekki slegið al­gjör­lega föstu, hver væri morðingi for­set­ans, væri mik­il hætta á því að menn misstu vald á at­b­urðarás­inni. Og það var margt sem ýtti und­ir til­finn­ing­ar af marg­vís­legu tagi. Mynd­irn­ar sem birt­ust þegar leið á morðdag­inn, ekki síst þar sem for­setafrú­in dáða, Jacqu­el­ine Kenn­e­dy, með sín litlu börn, kom við sögu, í rauðu Chanel-dragt­inni sinni frægu með kringl­ótta hatt­in­um sem heyrði til, og hvort tveggja var útatað í blóði manns henn­ar, for­set­ans. Hún skipti ekki um föt þann dag­inn og þegar Lyndon John­son krafðist þess, að dóm­ari myndi taka af hon­um eið og skipa hann form­lega for­seta Banda­ríkj­anna þegar í stað, áður en for­seta­flug­vél­in tæki á loft, og óskaði einnig eft­ir því að ekkja hins myrta for­seta, Jackie, myndi þá standa við hlið hans, þá mætti hún enn í blóðugri dragt­inni og ör­viln­un­in og undr­un­in í senn, náðu inn í merg og bein hvers ein­asta Banda­ríkja­manns og full­yrða má að all­ir sem vett­lingi gátu valdið voru að fylgj­ast með þá stund­ina og eng­inn var ósnort­inn. Stærsti hluti þeirra viknaði.

Við það bætt­ist svo að morðing­inn sem náðist var degi síðar myrt­ur af næt­ur­klúbb­seig­anda á sjálfri lög­reglu­stöðinni. Eng­inn skildi hvernig í ósköp­un­um slíkt og því­líkt gæti gerst í sæmi­lega þróuðu ríki og hvað þá í Banda­ríkj­un­um sjálf­um.

Enn eru nokkr­ar upp­lýs­ing­ar um árás­ina á Kenn­e­dy bundn­ar trúnaði, þótt smám sam­an hafi aðrar verið opnaðar, en fram til þessa hafa ákveðin nöfn verið útmáð af þeim textum sem birt­ir eru og fleira í þeim dúr. Don­ald Trump hef­ur sagt að verði hann for­seti á nýj­an leik þá muni hann gefa fyr­ir­mæli um að allri leynd yfir for­setamorðinu verði létt af. En eins og fyrr sagði eru ekki mikl­ar lík­ur á því að þar sé margs að vænta.

Á þeim skamma tíma sem Oswald lifði eft­ir að lög­regl­an hand­tók hann lýsti hann yfir sak­leysi sínu. En flest benti þó gegn því að það væri rétt. Staðsetn­ing hans á 5. hæð bóka­húss­ins ligg­ur fyr­ir, riff­ill hans og skot­kunn­átta og þjálf­un. Tengsl hans við Sov­ét­rík­in skipta ekki endi­lega öllu en hjálpa ekki. Og eins hitt að þegar lög­reglumaður­inn Tippit stöðvar Oswald eft­ir morðið, þá drep­ur hann lög­reglu­mann­inn með skamm­byssu sinni.

Læsi­leg bók

Strax árið eft­ir að John Kenn­e­dy féll fyr­ir byssu­kúlu í Dallas kom út á Íslandi læsi­leg bók um for­set­ann eft­ir Thorolf Smith frétta­mann. Hún þótti góð jóla­gjöf 1964. Vissu­lega voru Kenn­e­dy og fjöl­skylda máluð þar í rós­rauðum lit­um. Þriggja ára for­setatíð hans einnig. Glæsi­leiki þeirra hjóna og öfl­ugt bak­land kem­ur mjög við sögu.

Bréf­rit­ari las þessa bók sér til ánægju og al­gjör­lega gagn­rýn­is­laust. Síðar hef­ur nokkuð önn­ur mynd verið dreg­in upp í mergð bóka eins og jafn­an ger­ist. En það breyt­ir ekki því, að þótt Kenn­e­dy hafi verið breysk­ur maður og stór­tæk­ari í þeim efn­um en nokk­urn óraði fyr­ir, þá var hann óneit­an­lega sjarmer­andi maður, sem fjöl­skyldu­auður hafði borið á hönd­um sér og hann kom vel frá deil­unni við Krúst­sjov, sem kallaði flaug­ar sín­ar til baka.

Ekki löngu síðar bolaði Brés­nef aðal­rit­ar­an­um frá, ríkti sem al­vald­ur í næstu 18 árin og dró úr þeim já­kvæðu breyt­ing­um sem fyr­ir­renn­ar­inn hafði þó staðið fyr­ir. Það var mik­ill mun­ur á þeim tveim­ur og glæsi­menn­inu unga í Hvíta hús­inu. En hann stóð stutt við. Fá­ein­um árum síðar reyndi Robert bróðir hans að koma með fjöl­skyldu­keflið í Hvíta húsið á ný, en byssukúl­an stöðvaði líka þau áform.

Öfga­hægri úti um allt

Rík­is­út­varpið hef­ur sam­visku­lega og af nokkr­um ákafa komið ógn­ar­frétt­um til eig­enda sinna, sem vita ekki út á hvað þessi margþvælda eign geng­ur og skán­ar aldrei. En næst­um því einu frétt­irn­ar sem eru eft­ir úr þess­um miðli eru um „öfga­sinnaða hægri­menn“ sem séu að leggja und­ir sig lönd­in, án leyf­is frá „RÚV“. Þetta er auðvitað skelfi­legt, og verra en eld­gos. Og það skrítna er, að hversu oft sem kosið er, um heim­inn þver­an og endi­lang­an, virðist eng­inn öfga­full­ur vinstrimaður kom­ast að. Það er skelfi­legt fyr­ir út­varpið og okk­ur hin.

Ein­hver benti á að „RÚV“ teldi að ekki væru til nein­ir öfga­sinnaðir vinstri­menn. Það er nátt­úr­lega svaka­legt. Þá verða þeir aldrei kosn­ir. Verður ekki að finna þá upp? Það hlýt­ur að vera þess virði. Því að ef þeir væru jafn snjall­ir og elsku­leg­ir og öfga­sinnuðu hægri­menn­irn­ir eru hræðileg­ir (svo að all­ir á frétta­stof­unni gubba, sem von­legt er, og mega ekki vera að því að borga skatt­ana sína), þá skipt­ir engu og hvernig sem kosn­inga­úr­slit fara, aldrei berst frétt um það frá „RÚV“ að kjós­end­ur hafi í óðag­oti kosið yfir sig öfga­sinnaðan vinstrimann og sá hafi strax tekið til spilltra mál­anna, og það verið mis­skilið.

Ástæðan er víst sú að „RÚV“ hef­ur þrátt fyr­ir mikla leit aldrei heyrt af né fundið nokk­urn öfga­sinnaðan vinstrimann, hvað þá nokk­urn slík­an sem kom­ist hef­ur til valda í kosn­ing­um. Núna síðast þá var enn einn öfga­sinnaður hægrimaður kos­inn, eins og slíka hefði vantað. Ekki kom fram af hverju þess­ir bjálf­ar í Arg­entínu með Peronist­ana hjálp­sömu og fjarri því að vera öfga­sinnaða, kusu þá ekki eins og þeir hafa alltaf gert. Þótt verðbólg­an sé að nálg­ast 200 pró­sent þá kem­ur á móti að at­vinnu­leysið er ekki nema 30 pró­sent. Það er veru­leg hætta á því að öfga­sinnuðu hægri­menn­irn­ir muni eyðileggja bæði verðbólg­una og at­vinnu­leysið. Hvað ger­ist þá?

mbl.is