Gordon Brown er bara þrjótur

00:00
00:00

Gor­don Brown firrt­ist við þegar Ólaf­ur Ragn­ar atyrði hann í frægu viðtali á sjón­varps­söðinni Sky. Fréttamaður stöðvar­inn­ar sagði ekk­ert viðtal hafa kallað fram jafn mik­il viðbrögð og ein­mitt það.

Í viðtal­inu ræddi Ólaf­ur Ragn­ar þá staðreynd að bresk stjórn­völd höfðu þá sett Ísland og nokkr­ar ís­lensk­ar fjár­mála­stofn­an­ir á lista yfir hryðju­verka­menn. Bret­ar höfðu með öðrum orðum beitt lög­um gegn hryðju­verk­um gegn vinaþjóð sinni í norðri.

Þetta rifjar Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, fyrr­um for­seti Íslands upp í hlaðvarps­viðtali við Morg­un­blaðið en það er hið fyrsta í röð tuga viðtala sem birt verða und­ir sömu for­merkj­um í tengsl­um við 110 ára af­mæli blaðsins.

Úti á svöl­um í Dav­os

„Ég átti mjög frægt viðtal líka, sem er kannski ekki mjög frægt hér á Íslandi, en er mjög frægt í sögu Sky. Sem var live við frétta­mann Sky, bresku sjón­varps­stöðvar­inn­ar, í Dav­os. Það fór fram út á svöl­um í svona fjöl­býl­is­húsi vegna þess að Dav­os er bara lít­ill bær og fjöl­miðlamenn­irn­ir verða að taka yfir svona sér­kenni­leg­ar aðstæður til að koma sér fyr­ir og Sky hafði bara komið sér fyr­ir í íbúð í ein­hverri blokk og viðtöl­in fóru fram úti á svöl­um. Og í því viðtali þá fer ég að rekja þetta með Gor­don Brown og hryðju­verka­lög­in þar sem þeir settu okk­ur á lista með Alqaida og Talíbön­um og svona,“ seg­ir Ólaf­ur.

Viðtalið á Sky má sjá með því að smella hér.

Gordon Brown tók við embætti forsætisráðherra af Tony Blair árið …
Gor­don Brown tók við embætti for­sæt­is­ráðherra af Tony Bla­ir árið 2007 og gegndi embætt­inu til árs­ins 2010. Mbl.is/​AFP

Þá beindi hann orðum sín­um að for­sæt­is­ráðherra Breta sem stadd­ur var í Dav­os við sama til­efni.

„Og segi svo [ÓRG] að við Íslend­ing­ar höf­um mjög langt sögu­legt minni. Að við séum enn að tala um vík­inga sem komu hingað fyr­ir 1000 árum eins og þeir séu bara næstu ná­grann­ar og að ég geti full­vissað þá um að löngu eft­ir að Gor­don Brown verði al­gjör­lega gleymd­ur í Bretlandi þá munu menn muna eft­ir hon­um á Íslandi. Og svo næsta dag hitti ég þenn­an frétta­mann á göng­un­um í Dav­os. Og hann sagði við mig: Sky hef­ur bara aldrei fengið eins mik­il viðbrögð við nokkru viðtali eins og þess­ari yf­ir­lýs­ingu þinni um Gor­don Brown. Og öll já­kvæð sagði hann og öll já­kvæð, það er að segja í minn garð,“ seg­ir Ólaf­ur Ragn­ar.

Hætti að heilsa for­seta lýðveld­is­ins

Þessi yf­ir­lýs­ing for­set­ans hafði hins veg­ar af­leiðing­ar.

„En þetta varð svo til þess að Gor­don Brown, sem yf­ir­leitt hafði nú heilsað mér enda þekkt­um við Dor­rit bæði hann og kon­una hans, að hann hætti að heilsa mér. Þannig að á göng­un­um á Dav­os þá gekk hann al­veg mark­visst fram­hjá mér. En það verður hins veg­ar að segja að Peter Mendel­son, sem var líka ráðherra hjá hon­um og Tony Bla­ir, til hróss, því ég hitti hann í há­deg­is­verði í London fyr­ir nokkr­um dög­um síðan, að hann var alltaf mjög vin­sam­leg­ur. Og sagði við mig bara fyr­ir nokkru - já maður á nú kannski ekki að segja frá svona sam­töl­um í há­deg­is­verðum en ég alla vega læt það fjúka hérna - hann sagði þarna við mig um dag­inn í há­deg­is­verðinum í London. Sko Gor­don, he is a thug, he is a thug. Hann er bara þrjót­ur sko.“

Eng­in efn­is­leg rök fyr­ir beit­ingu lag­anna

Er það upp­lif­un þín af Brown?

“Já, sko, það eru eng­in efn­is­leg rök fyr­ir því að setja ein­hverja friðsæl­ustu þjóð í heimi, stofn­ríki í NATO, banda­mann Breta til ára­tuga á op­in­ber­an lista við hliðina á Talíbön­um og Alqaida. Það gera menn ekki nema þeir séu komn­ir svo langt út fyr­ir öll vel­sæmi í op­in­ber­um sam­skipt­um ríkja að þeir hafi al­gjör­lega tapað átt­um.“

Viðtalið við Ólaf Ragn­ar má nálg­ast í heild sinni hér:

Ólafur Ragnar tók harðan slag við Gordon Brown og bresk …
Ólaf­ur Ragn­ar tók harðan slag við Gor­don Brown og bresk stjórn­völd eft­ir að þau settu Ísland og ís­lensk­ar fjár­mála­stofn­an­ir á lista yfir hryðju­verka­menn. Mbl.is/​Golli
mbl.is

Bloggað um frétt­ina