Gordon Brown er bara þrjótur

Gordon Brown firrtist við þegar Ólafur Ragnar atyrði hann í frægu viðtali á sjónvarpssöðinni Sky. Fréttamaður stöðvarinnar sagði ekkert viðtal hafa kallað fram jafn mikil viðbrögð og einmitt það.

Í viðtalinu ræddi Ólafur Ragnar þá staðreynd að bresk stjórnvöld höfðu þá sett Ísland og nokkrar íslenskar fjármálastofnanir á lista yfir hryðjuverkamenn. Bretar höfðu með öðrum orðum beitt lögum gegn hryðjuverkum gegn vinaþjóð sinni í norðri.

Þetta rifjar Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands upp í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið en það er hið fyrsta í röð tuga viðtala sem birt verða undir sömu formerkjum í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins.

Úti á svölum í Davos

„Ég átti mjög frægt viðtal líka, sem er kannski ekki mjög frægt hér á Íslandi, en er mjög frægt í sögu Sky. Sem var live við fréttamann Sky, bresku sjónvarpsstöðvarinnar, í Davos. Það fór fram út á svölum í svona fjölbýlishúsi vegna þess að Davos er bara lítill bær og fjölmiðlamennirnir verða að taka yfir svona sérkennilegar aðstæður til að koma sér fyrir og Sky hafði bara komið sér fyrir í íbúð í einhverri blokk og viðtölin fóru fram úti á svölum. Og í því viðtali þá fer ég að rekja þetta með Gordon Brown og hryðjuverkalögin þar sem þeir settu okkur á lista með Alqaida og Talíbönum og svona,“ segir Ólafur.

Viðtalið á Sky má sjá með því að smella hér.

Gordon Brown tók við embætti forsætisráðherra af Tony Blair árið …
Gordon Brown tók við embætti forsætisráðherra af Tony Blair árið 2007 og gegndi embættinu til ársins 2010. Mbl.is/AFP

Þá beindi hann orðum sínum að forsætisráðherra Breta sem staddur var í Davos við sama tilefni.

„Og segi svo [ÓRG] að við Íslendingar höfum mjög langt sögulegt minni. Að við séum enn að tala um víkinga sem komu hingað fyrir 1000 árum eins og þeir séu bara næstu nágrannar og að ég geti fullvissað þá um að löngu eftir að Gordon Brown verði algjörlega gleymdur í Bretlandi þá munu menn muna eftir honum á Íslandi. Og svo næsta dag hitti ég þennan fréttamann á göngunum í Davos. Og hann sagði við mig: Sky hefur bara aldrei fengið eins mikil viðbrögð við nokkru viðtali eins og þessari yfirlýsingu þinni um Gordon Brown. Og öll jákvæð sagði hann og öll jákvæð, það er að segja í minn garð,“ segir Ólafur Ragnar.

Hætti að heilsa forseta lýðveldisins

Þessi yfirlýsing forsetans hafði hins vegar afleiðingar.

„En þetta varð svo til þess að Gordon Brown, sem yfirleitt hafði nú heilsað mér enda þekktum við Dorrit bæði hann og konuna hans, að hann hætti að heilsa mér. Þannig að á göngunum á Davos þá gekk hann alveg markvisst framhjá mér. En það verður hins vegar að segja að Peter Mendelson, sem var líka ráðherra hjá honum og Tony Blair, til hróss, því ég hitti hann í hádegisverði í London fyrir nokkrum dögum síðan, að hann var alltaf mjög vinsamlegur. Og sagði við mig bara fyrir nokkru - já maður á nú kannski ekki að segja frá svona samtölum í hádegisverðum en ég alla vega læt það fjúka hérna - hann sagði þarna við mig um daginn í hádegisverðinum í London. Sko Gordon, he is a thug, he is a thug. Hann er bara þrjótur sko.“

Engin efnisleg rök fyrir beitingu laganna

Er það upplifun þín af Brown?

“Já, sko, það eru engin efnisleg rök fyrir því að setja einhverja friðsælustu þjóð í heimi, stofnríki í NATO, bandamann Breta til áratuga á opinberan lista við hliðina á Talíbönum og Alqaida. Það gera menn ekki nema þeir séu komnir svo langt út fyrir öll velsæmi í opinberum samskiptum ríkja að þeir hafi algjörlega tapað áttum.“

Viðtalið við Ólaf Ragnar má nálgast í heild sinni hér:

Ólafur Ragnar tók harðan slag við Gordon Brown og bresk …
Ólafur Ragnar tók harðan slag við Gordon Brown og bresk stjórnvöld eftir að þau settu Ísland og íslenskar fjármálastofnanir á lista yfir hryðjuverkamenn. Mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina