8,6 milljarða hagnaður á 9 mánuðum

Hagnaður Síldarvinnslunnar á þriðja ársfjórðungi var rúmlega 2,7 milljarðar króna.
Hagnaður Síldarvinnslunnar á þriðja ársfjórðungi var rúmlega 2,7 milljarðar króna. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Hagnaður Síld­ar­vinnsl­unn­ar á þriðja árs­fjórðungi nam rúm­lega 20,1 millj­ón­um banda­ríkja­dala sem er jafn­v­irði um 2.800 millj­óna ís­lenskra króna. Hagnaður fé­lags­ins á fyrstu níu mánuðum árs­ins var 62,8 millj­ón­ir banda­ríkja­dala sem eru rúm­lega 8.600 millj­ón­ir ís­lenskra króna.

Þetta má lesa í færslu á vef Síld­ar­vinnlunn­ar þar sem greint er frá upp­gjöri árs­fjórðungs­ins.

Það seg­ir að mak­ríl­veiðin hafi að mestu farið fram inn­an lög­sög­unn­ar og hafi gengið vel. Einnig gengu veiðar á norsk-ís­lenskri síld vel og var stutt að sækja afl­ann. Sala á upp­sjáv­ar­af­urðum hef­ur gengið vel en minni um­svif voru í bol­fisk­veiðum- og vinnslu vegna sum­ar­leyfa og kvót­stöðu. Þá hef­ur orðið þó nokk­ur hækk­un á kostnaðarliðum.

Alls námu rekstr­ar­tekj­ur 106,8 millj­ón­um banda­ríkja­dala á þriðja árs­fjórðungi en tekj­urn­ar voru 317,9 millj­ón­ir dal­ir á fyrstu níu mánuðum.

Heild­ar­eign­ir sam­stæðu Síld­ar­vinnsl­un­anr eru metn­ir á rúm­an millj­arð banda­ríkja­dala eða tæp­lega 150 millj­arða ís­lenskra króna.

Óvissa vegna jarðhrær­inga

„Jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesi hafa stöðvað tíma­bundið bol­fisk­vinnslu fé­lags­ins í Grinda­vík. Starfs­mönn­um hef­ur tek­ist að bjarga öll­um verðmæt­um sem bund­in voru í birgðum og hluta lausa­fjár. Eng­ar sjá­an­leg­ar skemmd­ir hafa komið í ljós á eign­um fé­lags­ins og enn sem komið er hef­ur ekki orðið vart við um­fangs­mikið tjón utan rekstr­ar­stöðvun­ar bol­fisk­vinnsl­unn­ar,“ seg­ir Gunnþór Ingva­son, for­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar í færsl­unni.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingva­son, for­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar. mbl.is

„Mik­il óvissa hef­ur ríkt hjá starfs­fólki Vís­is eins og öll­um íbú­um Grinda­vík­ur frá því að jarðhrær­ing­arn­ar hóf­ust. Því hef­ur verið lögð áhersla á að halda sam­skipt­um við starfs­fólk og styðja það með upp­lýs­inga­gjöf eins og frek­ast er kost­ur.“

Hann seg­ir ekki útséð hvert end­an­legt tjón fé­lags­ins verður þar sem mik­il óvissa er hver fram­vind­an verður, en vís­bend­ing­ar séu um að hætt­an í Grinda­vík sé á und­an­haldi og að hægt verði að hefja und­ir­bún­ing að því að koma vinnslu Vís­is af stað á ný.

„Heilt yfir er upp­gjörið gott og í takt við vænt­ing­ar fé­lags­ins. Aukið vægi bol­fisks­heim­ilda og fjár­fest­ing­ar síðustu ára jafna út sveifl­ur á milli teg­unda. Þrátt fyr­ir ýms­ar áskor­an­ir er fé­lagið með sterk­an efna­hag og fjöl­breytt­an rekst­ur til að tak­ast á við framtíðina. Sem fyrr hef­ur Síld­ar­vinnsl­an lagt áherslu á fjár­fest­ing­ar til að þjóna viðskipta­vin­um sín­um bet­ur en aðeins með fjár­fest­ingu í grein­inni er sjáv­ar­út­veg­ur­inn í stakk bú­inn að verja sam­keppn­is­for­skot sitt á alþjóðleg­um mörkuðum,“ seg­ir Gunnþór.

mbl.is