Reykvíkingar andlega innantómir

Ármann botnaði ekkert í því hversu latir Reykvíkingar væru að …
Ármann botnaði ekkert í því hversu latir Reykvíkingar væru að kynna sér öndvegislist Einars Jónssonar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Samfélagsrýni hefur lengi verið þjóðaríþrótt á Íslandi enda margir þess umkomnir eða telja sig vera þess umkomna að gefa meðborgurum sínum holl ráð og draga þá, með góðu eða illu, af villu síns vegar. Í nóvember 1923 ritaði maður að nafni Ármann mikla grein í Morgunblaðið, þar sem hann hafði sitthvað við sjálfa höfuðborgina að athuga og dró satt best að segja upp ískyggilega mynd af menningar- og listalífinu. Ekki var nánari grein gerð fyrir Ármanni, föðurnafn hans fékk ekki einu sinni að fljóta með. Hvað þá ljósmynd enda lítið um þær í Morgunblaðinu á þessum árum.

Morgunblaðið hefur alla tíð lagt mikið upp úr aðsendu efni og opnum skoðanaskiptum á síðum blaðsins og árið 1923 hefur blaðið greinilega þegar verið opið fyrir hinum ýmsu sjónarmiðum. Ekki var þó um uppslátt að ræða í tilviki Ármanns. Greinin byrjaði undir eindálka fyrirsögn, Skrælingarmerki Reykjavíkurmenningarinnar, á blaðsíðu fimm og flæddi áfram í uppsetningarlegu lítillæti sínu yfir á blaðsíðu sex. En höfundi var mikið niðri fyrir. Sumir myndu líklega segja að hann hefði verið að taka Reykvíkinga í karphúsið.

„Hjá flestum þjóðum er höfuðborgin miðstöð menningarlífsins. Þar safnast fyrir það besta sem þjóðin á, vísindastofnanir og lista, þar er úrval mentamanna þjóðarinnar og þangað sækja menn utan af landshornum til þess að njóta andlegra gæða. Þar er sá mælikvarði lagður á þroskastig menningarlífsins, sern þjóðarmenningin er miðuð við,“ byrjaði Ármann.

Gæti verið fyrirmyndarbær

Hann benti réttilega á, að Reykjavík væri höfuðborg Íslands. Þar væri æðsta stjórn landsins, vísindastofnanir þjóðarinnar og þau gögn sem hún ætti til vísindaiðkana. Þar væru líka flestir menntamenn þjóðarinnar samankomnir. „Hjer hefir það safnast saman, sem þjóðin á af listaverkum, og hjer eru listamenn þjóðarinnar flestir saman komnir, utan þeir, sem flúið hafa land.“

Af þessum orsökum ættu, að áliti Ármanns, skilyrði að vera fyrir því, að ýmis menningarmerki mótuðust á Reykjavík og Reykvíkinga, umfram venju annarra kaupstaða hér á landi. „Ef rjett væri á haldið, gæti Rvík verið fyrirmyndar bær, þó lítil sje, og jafnvel í ýmsum greinum tekið fram öðrum höfuðborgum, ef satt væri það, sem ýmsir vilja halda fram, að Íslendingar sjeu mörgum þjóðum fremri í greind og mentun.“

En hver var svo reyndin? „Athugun á ýmsu því, sem dags daglega gerist hjer í bæjarlífinu, gefur órækar sannanir fyrir því, að Reykvíkingar bregðist mjög þeirri skyldu sinni, að vera menningarfrömuðir og gefa fullgilt sýnishorn íslenskrar menningar.“

Ármann rökfærði þetta með nokkrum dæmum og leit fyrst á bæinn sjálfan. „Það mun vera leitun á þeim bæ um víða veröld, sem sje jafngott sýnishorn skipulagsleysis, flaust og fálms, eins og Reykjavík. Á þetta þó einkum við um byggingarnar. Hjer standa stórhýsi og kumbaldar hlið við hlið; tvö hús samfeld, sem bygð sjeu með tilliti hvort til annars sjást ekki. Hvar sem litið er, blasir við hrærigrautur smekkleysisins, og á þeim fáu stöðum, sem tilraun hefir verið gerð til að byggja húsaröð, svo samræmi sje í, hefir oftast orðið eftir lóðarspilda, sem gefið hefir færi á að koma fyrir húsi með alt öðru lagi, svo að alt spillist er fyrir var. Á milli húsa og meðfram óbygðum lóðum, er bærinn prýddur skældum og skektum bárujárnsgirðingum og grottafúnun, hálfföllnum trjegirðingum. — Viðhald margra húsa er afar ljelegt, og veitti síst af, að stjórn bæjarins hefði menn í förum til þess að segja húseigendum til um hvað þeir eigi að lagfæra, ekki síður en hún lætur líta eftir eldfærum. Og þrifnaðurinn á sjer standandi minnisvarða í ruslhrúgum og forarvilpum – að ógleymdum brunarústunum.“

Þá benti hann á það sem sorglegt fyrirbrigði í bæjarbragnum hve mikið kvæði að skemmdum og spellvirkjum á almannafæri. „Hjer er það títt, sem annarstaðar þekkist ekki, að pörupiltar, eldri sem yngri, gera sjer að leik að skemma girðingar, kríta húsveggi, jafnvel stela hurðum úr hliðum og bera þær burtu. Í forstofum og afdrepum við almannafæri hafa menn það fyrir sið, að æfa sig í skrift. Pósthólfaherbergið á pósthúsinu hefir stundum borið glöggar menjar þessa. En góðri menningu lýsir það ekki.“

Lindir þær, er fræðslu gátu veitt um þjóðlega menningu, voru lítið notaðar, að dómi Ármanns. Og sama var að segja um almenna fræðslu í öðrum efnum. „Hversu margir eru þeir ekki, sem aldrei hafa komið á t. d. Náttúrugripasafnið eða Þjóðmenjasafnið? Hversu margir eru þeir, sem sækja fyrirlestra um fræðandi efni, t. d. alþýðufræðslufyrirlestra Stúdentafjelagsins, eða hina opinberu fyrirlestra heimspekiprófessoranna við háskólann? Og hversu margir eru þeir, sem kjósa fremur að lesa fræðandi bók um ýmisk. efni, en útl. reyfara? Það er ómögulegt að nefna neinar tölur; en stingi menn hendinni í eigin barm. Þeir eru fáir, sem sinna þjóðlegum eða hagnýtum bókmentum; fjöldinn kýs fremur að seðja sálarhungur sitt á útlendu rusli, sem aðeins verður til menningarspillis. Hve margir af æskulýð Reykjavíkur skyldu t. d. hafa lesið Íslendingasögurnar, eða þekkja Sturlungu? Reyfaraljettmeti, sem ekkert á skylt við skáldskap, hefir setst í hásæti Snorra, og frásgnir af söguhetjunum eru gerðar að hornrekum fyrir útlendum reyfaraskrifum, mettuðum frásögnum um morð, innbrot og þjófnaði, en gersneiddum öllu bókmentalegu gildi.“

Áhrifin leyndu sér ekki

Áhrifin leyndu sér ekki, að sögn Ármanns. Fólk yrði andlega innantómt af slíkri sálarfæðu og hætti að hugsa eins og menn. Vegur heimskunnar færi vaxandi og það færi jafnvel að þykja „fínt“ að vera heimskur og þykjast af heimsku sinni. „Menn hætta að brjóta heilann um tilveruna eða gera sjer nokkra grein fyrir, hvaða erindi þeir hafi átt í þennan heim, láta hverjum degi nægja sína þjáning, hafa engin áhugamál og drepa tímann með því að tala um einskisnýta hluti, sem engrar hugsunar krefjast.“

Næst sneri Ármann sér að hinum fögru listum en þær áttu að sjálfsögðu ekki upp á háborðið í slíku umhverfi. „Íslendingar eiga sennilega ramþjóðlegasta og jafnframt frumlegasta listasafn heimsins, og það er í Reykjavík. Ef Íslendingur segði okkur frá því, mundi honum ekki vera trúað, en nú eru það útlendingar sem segja það. Fólk, sem hefir farið víða og sjeð menningarfjársjóðina, sem geymdir eru í höfuðborgum stórveldanna. Þess verður ekki langt að bíða, að útlendingar fari að gera sjer ferð hingað til að skoða myndasafn E. Jónssonar. En hve margir eru þeir Íslendingar, sem ekki eru farnir að koma þangað enn, þó þeir eigi ekki nema 5-10 mínútna veg þangað? – Hjer er árlega haldin sýning á því, sem málararnir hafa best að bjóða. – Hve margir nenna að skoða það?“

List og loddaraskapur

Skemmtanalífið var þó máske einna sannastur spegill menningarástandsins, ályktaði Ármann. Skemmtanir voru tvennskonar, eftir því hvort þar var boði list eða loddarskapur. Af fyrrnefndum skemmtunum voru það aðallega hljómleikar, sem í boði voru, og stundum leiksýningar. „Á hljómleikasviðinu eigum við nokkra ágæta listamenn. Einn þeirra er Haraldur Sigurðsson. – Hann er afburða listamaður og sífelt aukast. En eftir því sem frægð hans verður meiri vex fásinni Íslendinga í hans garð. Í sumar sem leið gat varla heitað að hann fengi áheyrn.“

Ármann nefndi einnig Pál Ísólfsson. „Hann hefir átt hjer heima undanfarin ár og haldið hjer kór-hljómleika á vetrum. Er það miklum erfiðleikum bundið að æfa hjer söngsveit og kostar mikla vinnu, margra mánaða undirbúning. Hljómleikar þessir hafa sífelt farið batnandi, en að sama skapi hefir því fólki. fjölgað, sem ekki nennir að hlusta á þá. Þetta er sorgleg saga, en sönn.“

Leikfélag hafði einnig verið til og reynt að auka leiklist. Það átti á hinn bóginn, að sögn Ármanns, við mesta sinnuleysi almennings að búa og barðist við dauðann. „En þegar tjaldið er dregið upp fyrir leik, sem vissa er fyrir, að enga list hafi að bjóða, þá er hver bekkur setinn kvöld eftir kvöld. Þetta er óhrekjanleg reynsla, sem sýnir, að fólk er orðið svo andlega snautt, að það vill ekki horfa eða hlusta á neitt, sem það þarf að hugsa um. Það er letin og innantómið, sem á sökina.“

Sumir vildu, að sögn Ármanns, kenna því um afskiptaleysi almennings af góðum skemmtunum, að peningaráð fólks væru minni þá en áður. „En hvernig stendur þá á því, að fólk hefir peninga til að sækja einskis nýtar skemtanir? Hvernig stendur á því, að tombólurnar, þessi sníkjudýr bæjarlífsins, sem að rjettu lagi ættu að bannast, og hvergi vaða eins mjög uppi og hjer í Reykjavík – geta ávalt ausið þúsundum króna úr vösum almennings?“

Allt bar þetta að sama brunni, að dómi Ármanns. Öll ytri tákn bentu í þá átt, að menningarbragnum færi hrakandi. Og áttu menn að gefa því máli alvarlegar gætur. „Því Reykjavík getur, ef sinnuleysið fær að ráða, á skömmum tíma hrakað svo mjög að hún verði stallsystir erlendra hafnarbæja, verri tegundar. Og það eru engin gífuryrði þó sagt sje, að margt bendi á, að Reykjavík sje á þeirri leið. Höfuðstaður má ekki kafna undir nafni. Hann hefir siðferðilega skyldu til að gera það ekki. Þar safnar þjóðin sínum bestu fjársjóðum og þar eiga þeir að verða; arðberandi. Ef uppvaxandi kynslóð er sjer þessa ekki meðvitandi, verður höfuðstaðurinn höfuðskömm. Þá flýja þeir hjeðan, sem halda uppi listum, hverfa til annara landa og gerast erlendir; því sá staður ættjarðarinnar, sem að þeim átti að hlynna, kunni ekki að meta þá. Vísindamennirnir gerast einsetumenn og hætta að fræða almenning um árangur starfsemi sinnar. Og söfnin verða seld til útlanda upp í afborganir af lánum, eða til þess að koma upp trúðleikahúsi.“

Ef til vill öfgar

Ármann bjóst við gagnrýni á skrif sín. „Öfgar! munu menn segja. Ef til vill eru þetta öfgar. En samt mark, sem alt stefnir að rú, þó vonandi náist aldrei. Enginn óskar þess heldur. En hugsunarleysi fjöldans – og hugsunarleysi er ekki annað en hugsanaleti er jafnvel hættulegri en þó einhver smámenni vildu hefja sókn fyrir! Því að sneiða bæinn allri menning. – Hjer er því hlutverk fyrir þá, sem vilja hugsa. Það er auðgert enn að kippa öllu í rjett horf. En menn verða að hafa hugfast, að það verður erfiðara eftir 10 ár og því best að hefjast handa strax.“

Síðan er liðin heil öld og synd að Ármann sé ekki lengur meðal vor (eða að öllum líkindum ekki) og því ekki fáanlegur til að meta stöðuna að öllum þeim tíma liðnum. Hefur eitthvað breyst til hins betra? Sum af þessum stefjum eru kunnugleg. Hvað segið þið hin? Býr ekki ofurlítill Ármann í okkur öllum?

mbl.is