Hallgerður sagði já því hún var örmagna eftir fæðingu Ásthildar

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og sveitastjóri í Stykkishólmi, sagði frá því hvernig það kom til að hann fluttist í Stykkishólm 1974 til þess að taka þar við stöðu sveitastjóra. Eiginkona hans, Hallgerður Gunnardóttir lögfræðingur, var stödd á fæðingardeildinni og var svo örmagna að hún gat ekki sagt annað en já við eiginmann sinn. Frá þessu greinir Sturla í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins. 

„Þegar ég hafði lokið námi var ég í Reykjavík og vann á verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen við að hanna burðarvirki í hús, lagnir og götur og annað þvíumlíkt. Svo einn daginn, eftir að búið var að kjósa til sveitastjórna 1974, þá kemur gamall vinur minn, Ellert Kristinsson, sem hafði spilað fótbolta í liði Snæfellinga með mér allt í einu á verkfræðistofuna: „Viltu gjöra svo vel að gera mér þann greiða að sækja um stöðu sveitastjóra. Hún verður auglýst á næstunni.“

Með honum var Einar Sigfússon sem vann við Búnaðarbankann. Hallgerður konan mín var hinsvegar á fæðingardeildinni en ég fór upp á fæðingardeild. Fékk mér frí í vinnunni og sagði henni frá þessu tilboði. Hún sagði síðar að hún hafi verið svo örmagna eftir að hafa fætt Ásthildi Sturludóttur núverandi bæjarstjóra á Akureyri að hún hafi sagt já,“ segir Sturla og bætir við: 

„Við tókum ákvörðun um að flytja í Hólminn og ég varð sveitastjóri hér.“

Sturla segir frá því að á þessum tíma hafi þau hjónin átt þrjú börn, Gunnar, Elínborgu og Ásthildi. 

„Eftir að við fluttumst hingað fæddust tvö stykki til viðbótar, Böðvar og Sigríður Erla. Þannig að þetta er aðdragandinn. Ég hafði alltaf ætlað mér að flytjast til Ólafsvíkur en það gekk ekki,“ segir hann og bætir við: 

„Ég er Snæfellingur í húð og hár, fæddur Ólsari en er Hólmari eftir að hafa búið hér síðan 1974.“

mbl.is