Ógleymanlegur afburðamaður

Henry Kissin­ger lést rúm­lega eitt hundrað ára gam­all í vik­unni sem leið. Það er hár ald­ur. Víða um heim er gert ráð fyr­ir því, að menn láti af störf­um rétt rúm­lega sex­tug­ir og ann­ars staðar þegar hall­ar und­ir sjö­tugt. Og þeir sem myndu þiggja slíkt boð gætu því hugs­an­lega átt 30-40 ár fram und­an, sem er venju­leg­ur starfs­ald­ur núorðið, ekki síst ef horft er til þeirra sem ljúka al­mennu há­skóla­námi og leggja að auki stund á ein­hverja sér­fræði áður en horfið er al­farið út á vinnu­markaðinn eins og al­gengt er. Kissin­ger var raun­ar störf­um hlaðinn áður en hann féll frá á heim­ili sínu. Fyr­ir aðeins fá­ein­um mánuðum brá Kissin­ger sér til Kína til að eiga viðræður við for­set­ann þar, og aðra þá ráðamenn sem næst­ir voru hon­um. Þegar hann kom heim úr hinu langa ferðalagi, fá­ein­um vik­um áður en hann lést, átti hann viðræður á heim­ili sínu við Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, sem staðið hef­ur í stór­ræðum heima fyr­ir, en hafði orðið að bregða sér á fund í aðal­stöðvum SÞ, af víg­vell­in­um og fela öðrum að halda sjó á meðan. Það er senni­legt að lang­flest­ir geti hugsað sér að lifa bæri­lega lengi og jafn­vel fast að því að jafna af­rek Kissin­gers og slíkra manna, karla sem kvenna, í árum talið, en síðar­nefndi hóp­ur­inn lif­ir að meðaltali gjarn­an mun leng­ur en karl­arn­ir. Hvort sem slík­ar ósk­ir eru rædd­ar upp­hátt eða í hljóði er lík­legt að marg­ur setji þó nokkra fyr­ir­vara á slík­ar ósk­ir og vænt­ing­ar. Til að mynda þær, að heilsa viðkom­andi sé til þess fall­in að ýta und­ir þokka­lega daga á efri árum, svo ekki sé talað um á efstu árum, svo að fólk, sem því marki nær, njóti þess vel og jafn­vel til fulls.

Góðar regl­ur en gilda ekki um alla

Núorðið á al­menn­ing­ur greiðan aðgang að marg­vís­leg­um leiðbein­ing­um um það, hvernig hver og einn get­ur stuðlað að því sjálf­ur að verða í góðu formi til að njóta óvænts lang­líf­is. Vissu­lega er í leiðbein­ing­um af því tagi sitt­hvað sem marg­ur er til í að draga að nýta sér, þangað til það verður jafn­vel orðið of seint til að koma að gagni.

Mönn­um er óspar­lega ráðlagt að láta tób­ak eiga sig og gæta hófs í neyslu áfeng­is. Flest­ir kinka kolli við þess­um vin­sam­legu leiðbein­ing­um og eru fús­ir til að taka sæmi­legt mark á þeim, þótt þeir hvísli í eigið eyra, að auðvitað hafi þeir sjálf­ir sára­sjald­an neytt slíks í ein­hverju sem flokkaðist und­ir óhóf, þótt þeir þekki dæm­in frá öðrum. Og vilji innra eyrað ekki hlusta á það, sem það tel­ur varla sann­gjarnt, þá á marg­ur þann leik eft­ir ónotaðan að benda á að t.d. af­reksmaður­inn og vinnuþjark­ur­inn Winst­on Churchill hafi drukkið áfengi meira eða minna all­an dag­inn frá því að hann vaknaði og fram á nótt og reykt vindla svo stíft að það hafi varla nokkru sinni náðst af hon­um mynd án vindils­ins eða í heima­til­búnu vindils­skýi, svo að stór­mennið það hafi varla nokkru sinni andað að sér tæru lofti. Og til viðbót­ar megi svo í leiðinni nefna, að í London, þar sem frels­is­hetj­an hélt sig helst og lengst af, hafi kolareyk­ur verið með þeim ósköp­um ára­tug­um sam­an að hann hafi bæst við vindlareyk­inn, svo að gull­tryggt hafi verið að háls og lungu hafi aldrei, í þeim efn­um, litið glaðan dag. Auðvitað hefðu vand­læt­ing­ar­menn bent á að þetta dæmi sannaði ekki síður að Churchill hefði afar senni­lega orðið 100 ára eða jafn­vel miklu eldri, ef hann hefði haft styrk til að temja sér, þótt ekki væri nema lítið eitt skárri lífs­venj­ur.

En talandi um lífs­venj­ur, þá eru marg­ar slík­ar sem sann­ar­lega gætu bætt lífs­lík­ur og það við eft­ir­sókn­ar­verðar aðstæður sem rétt væri að nefna í þessu sam­hengi. Þar ligg­ur vel við höggi að benda á hvers kon­ar holl­ustuþætti, svo sem að neyta græn­met­is með öðrum mat og sum­ir myndu segja að gera það ein­göngu. Ekki má gleyma að gæta þess að fá ræki­leg­an og næg­an svefn og á föst­um og reglu­bundn­um tím­um og forðast all­an æs­ing og þrúg­andi spennu og aðra háska­lega lífs­hætti. En á móti kem­ur að séu síðast­nefndu ábend­ing­arn­ar eins mik­il­væg­ar og lífs­venju­sér­fræðing­ar full­yrða og eru all­ir meira og minna sann­færðir um, þá hefði Churchill mátt þakka fyr­ir að hafa náð því að verða fer­tug­ur og Kissin­ger 50 ára.

Breyttu heim­in­um

Henry Kissin­ger varð ör­ygg­is­ráðgjafi Nixons for­seta í janú­ar 1969. For­set­inn og ráðgjafi hans voru sam­mála um að ut­an­rík­is­mál­in skyldu þaðan í frá ráðin í Hvíta hús­inu en ekki í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu. Og verk­efn­in voru stór og engu lík. Fyrst þurftu þeir að ljúka Víet­nam­stríðinu, sem þeir erfðu frá John Kenn­e­dy og ekki síst Lyndon John­son, en stríðið það gerði út af við John­son póli­tískt. Í ann­an stað var verk­efnið að opna Kína fyr­ir alþjóðasam­fé­lag­inu. Ekki nokkr­um manni hafði fyr­ir­fram dottið í hug að komm­ún­ista­hat­ar­inn Rich­ard Nixon myndi með nán­um at­beina Kissin­gers standa fyr­ir slíkri gjörð á loka­dög­um Maós.

Í þriðja lagi var Yom Kipp­ur-stríðið þar sem Ísra­el tók fast á móti óvænt­um sam­ræmd­um inn­rás­um and­stæðing­anna. Þar féllu úr liði Ísra­els 2.656 og tæp­lega 12 þúsund særðust. En úr liðinu sem Egypt­ar og Sýr­lend­ing­ar leiddu er talið að 8.500 hafi fallið og 20-35 þúsund hafi særst. Kissin­ger bjó þá um hríð í King Dav­id-hót­el­inu og ferðaðist á milli stríðsaðil­anna, stund­um mörg­um sinn­um á dag. Kissin­ger var maður þétt­holda, gríðarlega vinnu­sam­ur og á hann hlóðust verk­efn­in, bæði sem ör­ygg­is­ráðgjafa og síðar ut­an­rík­is­ráðherra. Þegar Kissin­ger varð ut­an­rík­is­ráðherra taldi hann að nú væri full ástæða til að breyta til frá áætl­un þeirra Nixons og reka ut­an­rík­is­mál­in, frá og með manna­breyt­ing­un­um, úr ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu en ekki Hvíta hús­inu! Það virt­ist gilda það sama um Churchill og Kissin­ger að al­menn­ar ráðlegg­ing­ar mat­væla- og nær­ing­ar­sér­fræðinga ættu ekki endi­lega vel við þá. Svo bréf­rit­ari muni þá sótti Kissin­ger Ísland aðeins einu sinni heim, en er­indi hans var að fylgja Nixon á fund í Reykja­vík með Pomp­idou, for­seta Frakk­lands, sem hald­inn var á Kjar­vals­stöðum. Nixon bjó í sendi­ráði Banda­ríkj­anna við Lauf­ás­veg en Pomp­idou bjó aðeins aust­ar við þá götu á heim­ili Al­berts Guðmunds­son­ar, þekktr­ar fót­bolta­hetju, ekki síst í Frakklandi, sem var heiðurs­ræðismaður Frakka hér á landi.

Ekki er talið að mikið hafi komið út úr þeim fundi for­set­anna. Pomp­idou bar með sér á fund­in­um að þar færi fár­veik­ur maður. Hann lést 2. apríl 1974 og Nixon hrökklaðist úr embætti 9. ág­úst það sama ár.

Bilder­bergs­fund­ir

Bilder­bergs­fund­irn­ir voru iðulega sagðir fræg­ast­ir fyr­ir það að frá þeim fund­um bær­ist aldrei neitt út. Og þeir voru auðvitað til sem full­yrtu snar­lega að það væri ein­ung­is vegna þess að þar gerðist aldrei neitt sem væri frétt­næmt. Bréf­rit­ari var einn af þeim til­tölu­lega fáu Íslend­ing­um sem sóttu slíka fundi nokkr­um sinn­um. Hann get­ur því borið án þess að ljóstra upp nokkru sem leynt á að fara, að þar gerðist margt sem var mjög eft­ir­tekt­ar­vert og merki­legt. Það var ekki gefið upp á hverj­um tíma hverj­ir sóttu þá fundi en það var ekk­ert gert með það þótt það bær­ist út. Blaðamenn leituðust sum­ir við að fylgj­ast með hverj­ir sóttu fund­arstaðinn sem það sinnið var notaður og gátu menn í þeim hópi gert sér all­góða mynd af því hverj­ir sóttu þessa fundi. Sum­ir komu sem gest­ir og þá aðeins einu sinni en ganga mátti út frá að sum­ir myndu mæta á nán­ast hvern árs­fund. Einn af þeim sem voru hvað minn­is­stæðast­ir á þeim fund­um sem bréf­rit­ari sótti var Henry Kissin­ger. Og menn lögðu mest kapp á að missa ekki af neinu sem frá hon­um kom. Bréf­rit­ari kom þarna í fyrstu skipt­in með Geir Hall­gríms­syni, sem þá var stjórn­ar­maður þar. Síðar kom bréf­rit­ari þar nokkr­um sinn­um einn frá Íslandi. Það vakti at­hygli hve hrein­skil­inn Kissin­ger var á þess­um fund­um, þó er ekki verið að halda því fram að hann hafi upp­lýst eitt­hvað sem leynt ætti að fara. En munn­leg­ar álits­gerðir hans um það sem efst var á baugi eða ætti að vera það voru mjög eft­ir­minni­leg­ar. Og þegar Kissin­ger sat í panel með nokkr­um heimsþekkt­um mönn­um hikaði hann ekki við að segja álit sitt, og það þótt hans sjón­ar­mið stönguðust á við viðhorf hinna og rök­studdi það í senn af þunga og kurt­eisi og í lang­flest­um til­vik­um má full­yrða að mik­ill meiri­hluti fund­ar­manna féll fyr­ir rök­stuðningi hans. Hann var sjald­gæf­ur af­burðamaður.

Sér­fræðing­ur tek­inn í nefið

Maður, sem virðist telja sig sér­fræðing í spill­ingu, sem vera má að hann hafi tamið sér, seg­ist hafa skrifað bók um Eim­reiðar­hóp­inn. Ekki veit bréf­rit­ari hvar sá maður hef­ur aflað sér heim­ilda og er al­gjör­lega ókunn­ugt um hvar hann hafi leitað til aðila til að sann­reyna þær. Af þessu til­efni hef­ur Jón Óttar Ragn­ars­son skrifað: „Ég þakka nokkr­um öfga­full­um sósí­al­ist­um fyr­ir að minna Íslend­inga á EIM­REIÐINA sem ég ekki aðeins var tengd­ur held­ur STOFNAÐI (það besta sem ég hef áorkað í líf­inu!), ásamt góðvini mín­um Magnúsi Gunn­ars­syni, þegar ég tók mér þriggja ára frí frá námi í byrj­un átt­unda ára­tug­ar­ins.

Þetta voru bylt­ing­ar­tím­ar. Viðbjóður Víet­nam­stríðsins var í há­marki. Meira að segja hinir dag­far­sprúðu verk­fræðinem­ar MIT, þar á meðal of­an­ritaður, gengu um göt­ur Cambridge­borg­ar með rauða borða á upp­hand­leggn­um. Þegar heim kom hitti ég fyr­ir hóp snill­inga sem voru jafn­reiðir og ég, ekki síst fyr­ir þá sök að EFNA­HAGSUND­UR Viðreisn­ar­inn­ar voru um það bil að renna út í sand­inn. Tókst okk­ur Magnúsi að sann­færa hóp­inn um að hitt­ast viku­lega í turn­her­bergi Hót­el Borg­ar og „brain­storma“ um hvernig mætti rétta þjóðarskút­una við. Feng­um við til liðs við okk­ur tvo af mest brillj­ant hag­fræðing­um Íslands­sög­unn­ar, þá Gunn­ar Tóm­as­son og Jón­as Haralz, auk laga­spek­ings­ins Sig­urðar Lín­dal o.fl. sem lögðu lín­urn­ar. All­ar göt­ur frá því að ég hélt aft­ur utan í doktors­nám árið 1974 hef ég fylgst með af­rek­um Eim­reiðar­hóps­ins með vax­andi stolti úr fjar­lægð. Ekki aðeins hef­ur hann af­rekað ALLT sem okk­ur dreymdi um að gera (auk óskyldra af­reka ein­stak­linga inn­an hóps­ins) held­ur átti hann mest­an þátt í að breyta litla Íslandi í það efnahgs­lega stór­veldi og magnaða vel­ferðarríki sem það er í dag!“

mbl.is