Ógleymanlegur afburðamaður

Henry Kissinger lést rúmlega eitt hundrað ára gamall í vikunni sem leið. Það er hár aldur. Víða um heim er gert ráð fyrir því, að menn láti af störfum rétt rúmlega sextugir og annars staðar þegar hallar undir sjötugt. Og þeir sem myndu þiggja slíkt boð gætu því hugsanlega átt 30-40 ár fram undan, sem er venjulegur starfsaldur núorðið, ekki síst ef horft er til þeirra sem ljúka almennu háskólanámi og leggja að auki stund á einhverja sérfræði áður en horfið er alfarið út á vinnumarkaðinn eins og algengt er. Kissinger var raunar störfum hlaðinn áður en hann féll frá á heimili sínu. Fyrir aðeins fáeinum mánuðum brá Kissinger sér til Kína til að eiga viðræður við forsetann þar, og aðra þá ráðamenn sem næstir voru honum. Þegar hann kom heim úr hinu langa ferðalagi, fáeinum vikum áður en hann lést, átti hann viðræður á heimili sínu við Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem staðið hefur í stórræðum heima fyrir, en hafði orðið að bregða sér á fund í aðalstöðvum SÞ, af vígvellinum og fela öðrum að halda sjó á meðan. Það er sennilegt að langflestir geti hugsað sér að lifa bærilega lengi og jafnvel fast að því að jafna afrek Kissingers og slíkra manna, karla sem kvenna, í árum talið, en síðarnefndi hópurinn lifir að meðaltali gjarnan mun lengur en karlarnir. Hvort sem slíkar óskir eru ræddar upphátt eða í hljóði er líklegt að margur setji þó nokkra fyrirvara á slíkar óskir og væntingar. Til að mynda þær, að heilsa viðkomandi sé til þess fallin að ýta undir þokkalega daga á efri árum, svo ekki sé talað um á efstu árum, svo að fólk, sem því marki nær, njóti þess vel og jafnvel til fulls.

Góðar reglur en gilda ekki um alla

Núorðið á almenningur greiðan aðgang að margvíslegum leiðbeiningum um það, hvernig hver og einn getur stuðlað að því sjálfur að verða í góðu formi til að njóta óvænts langlífis. Vissulega er í leiðbeiningum af því tagi sitthvað sem margur er til í að draga að nýta sér, þangað til það verður jafnvel orðið of seint til að koma að gagni.

Mönnum er ósparlega ráðlagt að láta tóbak eiga sig og gæta hófs í neyslu áfengis. Flestir kinka kolli við þessum vinsamlegu leiðbeiningum og eru fúsir til að taka sæmilegt mark á þeim, þótt þeir hvísli í eigið eyra, að auðvitað hafi þeir sjálfir sárasjaldan neytt slíks í einhverju sem flokkaðist undir óhóf, þótt þeir þekki dæmin frá öðrum. Og vilji innra eyrað ekki hlusta á það, sem það telur varla sanngjarnt, þá á margur þann leik eftir ónotaðan að benda á að t.d. afreksmaðurinn og vinnuþjarkurinn Winston Churchill hafi drukkið áfengi meira eða minna allan daginn frá því að hann vaknaði og fram á nótt og reykt vindla svo stíft að það hafi varla nokkru sinni náðst af honum mynd án vindilsins eða í heimatilbúnu vindilsskýi, svo að stórmennið það hafi varla nokkru sinni andað að sér tæru lofti. Og til viðbótar megi svo í leiðinni nefna, að í London, þar sem frelsishetjan hélt sig helst og lengst af, hafi kolareykur verið með þeim ósköpum áratugum saman að hann hafi bæst við vindlareykinn, svo að gulltryggt hafi verið að háls og lungu hafi aldrei, í þeim efnum, litið glaðan dag. Auðvitað hefðu vandlætingarmenn bent á að þetta dæmi sannaði ekki síður að Churchill hefði afar sennilega orðið 100 ára eða jafnvel miklu eldri, ef hann hefði haft styrk til að temja sér, þótt ekki væri nema lítið eitt skárri lífsvenjur.

En talandi um lífsvenjur, þá eru margar slíkar sem sannarlega gætu bætt lífslíkur og það við eftirsóknarverðar aðstæður sem rétt væri að nefna í þessu samhengi. Þar liggur vel við höggi að benda á hvers konar hollustuþætti, svo sem að neyta grænmetis með öðrum mat og sumir myndu segja að gera það eingöngu. Ekki má gleyma að gæta þess að fá rækilegan og nægan svefn og á föstum og reglubundnum tímum og forðast allan æsing og þrúgandi spennu og aðra háskalega lífshætti. En á móti kemur að séu síðastnefndu ábendingarnar eins mikilvægar og lífsvenjusérfræðingar fullyrða og eru allir meira og minna sannfærðir um, þá hefði Churchill mátt þakka fyrir að hafa náð því að verða fertugur og Kissinger 50 ára.

Breyttu heiminum

Henry Kissinger varð öryggisráðgjafi Nixons forseta í janúar 1969. Forsetinn og ráðgjafi hans voru sammála um að utanríkismálin skyldu þaðan í frá ráðin í Hvíta húsinu en ekki í utanríkisráðuneytinu. Og verkefnin voru stór og engu lík. Fyrst þurftu þeir að ljúka Víetnamstríðinu, sem þeir erfðu frá John Kennedy og ekki síst Lyndon Johnson, en stríðið það gerði út af við Johnson pólitískt. Í annan stað var verkefnið að opna Kína fyrir alþjóðasamfélaginu. Ekki nokkrum manni hafði fyrirfram dottið í hug að kommúnistahatarinn Richard Nixon myndi með nánum atbeina Kissingers standa fyrir slíkri gjörð á lokadögum Maós.

Í þriðja lagi var Yom Kippur-stríðið þar sem Ísrael tók fast á móti óvæntum samræmdum innrásum andstæðinganna. Þar féllu úr liði Ísraels 2.656 og tæplega 12 þúsund særðust. En úr liðinu sem Egyptar og Sýrlendingar leiddu er talið að 8.500 hafi fallið og 20-35 þúsund hafi særst. Kissinger bjó þá um hríð í King David-hótelinu og ferðaðist á milli stríðsaðilanna, stundum mörgum sinnum á dag. Kissinger var maður þéttholda, gríðarlega vinnusamur og á hann hlóðust verkefnin, bæði sem öryggisráðgjafa og síðar utanríkisráðherra. Þegar Kissinger varð utanríkisráðherra taldi hann að nú væri full ástæða til að breyta til frá áætlun þeirra Nixons og reka utanríkismálin, frá og með mannabreytingunum, úr utanríkisráðuneytinu en ekki Hvíta húsinu! Það virtist gilda það sama um Churchill og Kissinger að almennar ráðleggingar matvæla- og næringarsérfræðinga ættu ekki endilega vel við þá. Svo bréfritari muni þá sótti Kissinger Ísland aðeins einu sinni heim, en erindi hans var að fylgja Nixon á fund í Reykjavík með Pompidou, forseta Frakklands, sem haldinn var á Kjarvalsstöðum. Nixon bjó í sendiráði Bandaríkjanna við Laufásveg en Pompidou bjó aðeins austar við þá götu á heimili Alberts Guðmundssonar, þekktrar fótboltahetju, ekki síst í Frakklandi, sem var heiðursræðismaður Frakka hér á landi.

Ekki er talið að mikið hafi komið út úr þeim fundi forsetanna. Pompidou bar með sér á fundinum að þar færi fárveikur maður. Hann lést 2. apríl 1974 og Nixon hrökklaðist úr embætti 9. ágúst það sama ár.

Bilderbergsfundir

Bilderbergsfundirnir voru iðulega sagðir frægastir fyrir það að frá þeim fundum bærist aldrei neitt út. Og þeir voru auðvitað til sem fullyrtu snarlega að það væri einungis vegna þess að þar gerðist aldrei neitt sem væri fréttnæmt. Bréfritari var einn af þeim tiltölulega fáu Íslendingum sem sóttu slíka fundi nokkrum sinnum. Hann getur því borið án þess að ljóstra upp nokkru sem leynt á að fara, að þar gerðist margt sem var mjög eftirtektarvert og merkilegt. Það var ekki gefið upp á hverjum tíma hverjir sóttu þá fundi en það var ekkert gert með það þótt það bærist út. Blaðamenn leituðust sumir við að fylgjast með hverjir sóttu fundarstaðinn sem það sinnið var notaður og gátu menn í þeim hópi gert sér allgóða mynd af því hverjir sóttu þessa fundi. Sumir komu sem gestir og þá aðeins einu sinni en ganga mátti út frá að sumir myndu mæta á nánast hvern ársfund. Einn af þeim sem voru hvað minnisstæðastir á þeim fundum sem bréfritari sótti var Henry Kissinger. Og menn lögðu mest kapp á að missa ekki af neinu sem frá honum kom. Bréfritari kom þarna í fyrstu skiptin með Geir Hallgrímssyni, sem þá var stjórnarmaður þar. Síðar kom bréfritari þar nokkrum sinnum einn frá Íslandi. Það vakti athygli hve hreinskilinn Kissinger var á þessum fundum, þó er ekki verið að halda því fram að hann hafi upplýst eitthvað sem leynt ætti að fara. En munnlegar álitsgerðir hans um það sem efst var á baugi eða ætti að vera það voru mjög eftirminnilegar. Og þegar Kissinger sat í panel með nokkrum heimsþekktum mönnum hikaði hann ekki við að segja álit sitt, og það þótt hans sjónarmið stönguðust á við viðhorf hinna og rökstuddi það í senn af þunga og kurteisi og í langflestum tilvikum má fullyrða að mikill meirihluti fundarmanna féll fyrir rökstuðningi hans. Hann var sjaldgæfur afburðamaður.

Sérfræðingur tekinn í nefið

Maður, sem virðist telja sig sérfræðing í spillingu, sem vera má að hann hafi tamið sér, segist hafa skrifað bók um Eimreiðarhópinn. Ekki veit bréfritari hvar sá maður hefur aflað sér heimilda og er algjörlega ókunnugt um hvar hann hafi leitað til aðila til að sannreyna þær. Af þessu tilefni hefur Jón Óttar Ragnarsson skrifað: „Ég þakka nokkrum öfgafullum sósíalistum fyrir að minna Íslendinga á EIMREIÐINA sem ég ekki aðeins var tengdur heldur STOFNAÐI (það besta sem ég hef áorkað í lífinu!), ásamt góðvini mínum Magnúsi Gunnarssyni, þegar ég tók mér þriggja ára frí frá námi í byrjun áttunda áratugarins.

Þetta voru byltingartímar. Viðbjóður Víetnamstríðsins var í hámarki. Meira að segja hinir dagfarsprúðu verkfræðinemar MIT, þar á meðal ofanritaður, gengu um götur Cambridgeborgar með rauða borða á upphandleggnum. Þegar heim kom hitti ég fyrir hóp snillinga sem voru jafnreiðir og ég, ekki síst fyrir þá sök að EFNAHAGSUNDUR Viðreisnarinnar voru um það bil að renna út í sandinn. Tókst okkur Magnúsi að sannfæra hópinn um að hittast vikulega í turnherbergi Hótel Borgar og „brainstorma“ um hvernig mætti rétta þjóðarskútuna við. Fengum við til liðs við okkur tvo af mest brilljant hagfræðingum Íslandssögunnar, þá Gunnar Tómasson og Jónas Haralz, auk lagaspekingsins Sigurðar Líndal o.fl. sem lögðu línurnar. Allar götur frá því að ég hélt aftur utan í doktorsnám árið 1974 hef ég fylgst með afrekum Eimreiðarhópsins með vaxandi stolti úr fjarlægð. Ekki aðeins hefur hann afrekað ALLT sem okkur dreymdi um að gera (auk óskyldra afreka einstaklinga innan hópsins) heldur átti hann mestan þátt í að breyta litla Íslandi í það efnahgslega stórveldi og magnaða velferðarríki sem það er í dag!“

mbl.is