Í þessu tilviki séu færri hús sem eru skemmd en mörg þeirra séu mjög mikið skemmd. Þau séu um tuttugu talsins.
„Það eru matsmenn á okkar vegum og oftast burðarþolssérfræðingar sem eru að meta ástand þessara húsa,“ segir Hulda. „Það eru flest hús með einhverjar skemmdir, sem við höfum skoðað, en óverulegar skemmdir á talsvert mörgum húsanna.“ Hún segir skemmdirnar ráðast mikið af því hvar húsin eru staðsett í bænum.
„Þetta eru nokkur sprungusvæði í bænum, en ekki bara þessi eina sprunga sem liggur í gegnum bæinn.“ Húsin sem standa næst sprungusvæðunum séu verst farin.
Tryggja endurreisn
„Almenna reglan er sú að tjónabótum er ráðstafað til að gera við eign á núverandi stað, en þar sem ekki er heimilt eða talið ráðlagt að endurbyggja á sama stað er tjónið greitt út þannig að eigandi ákveður hvernig hann ráðstafar þeim bótum,“ segir Hulda. Alltaf verði að skoða hvert tilvik fyrir sig.
„Það er mjög óvenjulegt að við séum með tuttugu altjónshús í einum litlum bæ. Við höfum ekki staðið frammi fyrir því áður.“
Aðspurð segir Hulda skilyrði fyrir bótum vera byggð á lögum og reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Tryggingin sé almennt hugsuð til þess að hægt sé að tryggja endurreisn samfélaga og þess vegna sé ætlunin að ráðstafa bótunum til viðgerða.
Hulda segir einstaklinga sem ekki una niðurstöðu Náttúruhamfaratryggingar geta borið hana undir úrskurðarnefnd. „Það er sérstök úrskurðarnefnd fyrir Náttúruhamfaratryggingu Íslands sem er skipuð samkvæmt lögum af ráðherra og er óháð stofnuninni.“
Allir geti vísað máli til nefndarinnar án aðkomu lögmanns, segir Hulda. Uni einstaklingar ekki niðurstöðu nefndarinnar geta þeir vísað henni til dómstóla.
„Fólk fær alltaf tækifæri til að fara yfir og koma með athugasemdir við tjónamat áður en við tökum ákvörðun. Það er aldrei tekin ákvörðun í máli nema að aðilar hafi fengið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum.“
Hulda segir mikla umræðu hafa átt sér stað um sérstakt förgunargjald. „Almennt í öllum tjónabótum er miðað við að þú getir þurft að farga og byggja og þú færð bætur til að farga og byggja.“ Það sé alltaf hluti af tjónabótum. „Ef þú færð tjónabætur fyrir allt húsið þá taka þær líka mið af því að ákveðinn hluti þeirra er til að farga húsinu.“
Hún segir þetta ekki einskorðast við náttúruhamfaratryggingar. „Þetta er líka þegar um er að ræða brunatjón til dæmis. Þetta er alltaf hluti af þeim kostnaði sem er við að rífa eitthvað og byggja eitthvað. Ef við værum að endurreisa helming af húsi, þá væri líka hluti af tjónabótunum sem væri greiddur til að farga þeim byggingarefnum sem þyrfti að farga.“
Upphæð gjaldsins er hlutfall af kostnaði við endurbyggingu og er almenna viðmiðið um 12%.
Gat til staðar í kerfinu
Hulda segir stofnunina hafa fengið nærri tvö hundruð tilkynningar. „Við teljum að það eigi eftir að koma mjög mikið af tilkynningum inn.“
„Almennt förum við ekki að skoða hús þar sem ekki er búið að tilkynna, en þegar við höfum verið alveg viss um að hafi orðið tjón og við teljum ástæðu til þess að skoða öryggisins vegna, höfum við átt frumkvæði að því í einhverjum tilvikum að heyra í fólki og spyrja hvort við megum koma og skoða tjón.“
Hulda segir ákveðið gat vera til staðar í kerfinu, þar sem einungis sé til staðar sjóður sem er ætlaður til uppkaupa á húseignum sem eru á ofanflóðahættusvæði.
„Við höfum ekki áður verið í þeirri stöðu að þurfa að losa fólk undan því að búa í eignum á hættusvæðum sem ekki eru ofanflóðahættusvæði,“ bendir hún á.
„Í næstu viku munum við fara í það að hafa samband við þá sem eiga hús sem er altjón á og það verður farið núna í vinnu með sveitarfélaginu og húseigendum að finna lausnir á þeirra málum.“ Hún segir að nú þegar hafi verið farið í tvær heimsóknir í langflestar af þeim fasteignum.
„Ég vona að í næstu viku fari að draga til tíðinda í þeirra málum.“
Hulda segist hafa fengið fyrirspurnir um hvort fólk beri sjálft ábyrgð á því að sjá um niðurrif á húsi sínu. Hún segir það heilmikla framkvæmd og nefnir sem dæmi að það þurfi að sækja um byggingarleyfi eða niðurrifsleyfi hjá sveitarfélagi og ráða verktaka.
„Það er verkefni sem þarf að vinna í samvinnu við eigendur, hvort við reynum ekki að ná stærðarhagkvæmni, eigendunum til hagsbóta.“