Tónlistarkonan Sylvía Erla Melsted kemst í jólastuð þegar nóvember nálgast. Þá byrjar hún að setja upp jólaljósin, hlusta á jólalög og skreyta. Sylvía er skipulögð og kláraði að kaupa allar gjafir áður en nóvember gekk í garð.
Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?
„Uppáhaldsjólalagið mitt eru eiginlega öll jólalögin á jólaplötunni hans Michaels Bublé, en jólalagið sem mér þykir vænst um er lagið sem ég gaf út í fyrra, Jólaminning, sem ég samdi með Ásgeiri Orra. Lagið er um að hugsa hlýtt til þeirra sem eru fallnir frá og rifja upp jólaminningar með þeim. Lagið er samið um afa minn, sem var stór partur af lífi mínu og jólunum.“
En uppáhaldsjólamyndin?
„Ég á ekki eina uppháhaldsjólamynd. Ég elska allar þessar týpisku jólamyndir; Elf, Christmas Vaction, Love Actually, Santa Clause, Home Alone, The Holiday og fleiri.“
Hvað ætlar þú að gera um jólin?
„Ég ætla að upplifa jólastemningu, búa hana til með fjölskyldu minni. Ég ætla að fara á tónleika, skemmta sjálf á tónleikum og fara út að borða. Þetta eru fyrstu jólin mín síðan ég veit ekki hvenær sem ég er ekki að vinna á Þorláksmessu og á aðfangadag. Þannig að ég ætla að njóta í botn og gera eitthvað skemmtilegt og skapa minningar með fjölskyldunni. Jólin eru svo töfrandi tími.“
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Besta jólagjöf sem ég hef fengið er hundurinn minn hann Oreo. Ég fékk hann í tvöfalda jólagjöf og tvöfalda afmælisgjöf.“
Hvað er í matinn á jólunum?
„Einu sinni vorum við með hamborgarhrygg en erum hætt því. Núna erum við að vinna með nauta-wellington og mikið meðlæti. Við erum með waldorf-salat, sætkartöflumús, brúnaðar kartöflur og síðan mömmusósu, en mamma býr til bestu sveppasósu í heiminum.“
Hvenær byrjar þú að kaupa jólagjafir?
„Ég byrja eldsnemma, ég var búin að öllu í ár fyrir nóvember. Í byrjun nóvember fór ég að pakka inn. Mér finnst fínt að klára þessa hluti þar sem það er mikið að gera í desember hjá mér. Ég þarf að vera skipulögð til að tíminn renni hreinlega ekki út – ég er alltaf að keppa við tímann. Ég er bæði að vinna á fullu og að skemmta þar sem nýr jólaþáttur af Bestu lögum barnanna er að koma út í byrjun desember. Ég er einnig að hjálpa kærasta mínum, Róbert Frey Samaniego, sem var að gefa út nýjan prótíndrykk sem heitir Done. Það er nóg um að vera, en svoleiðis á það að vera, þannig líður mér best. Ég er extra spennt fyrir nýju ári; nýtt ár, ný tækifæri.“
Eru einhver jól sem eru eftirminnilegri en önnur?
„Já, ferðin mín í fyrra til Marrakesh gleymist seint. Þetta var himinn og haf frá því sem ég er vönÞað tók svolítið á jólahjartað. Annars eru bestu og eftirminnilegustu jólin þegar afi minn var á lífi og þegar fjölskylduvinur okkar var líka með okkur. Jólin voru skemmtileg þegar ég var yngri.“
Ertu með einhverjar hefðir um jólin?
„Við erum með eina hefð sem við höldum í öll jól og gerir jólin svo miklu skemmtilegri. Með öllum pökkum skrifa allir gátur á kortin og allir eiga síðan að giska á hvað er í pakkanum. Stundum erum við langt fram á kvöld að taka upp pakka út af þessu, en þetta er svo skemmtilegt. Síðan fær sá sem náði flestum svörum verðlaun. Ég mæli með þessu.“
Hvað langar þig í í jólagjöf?
„Mig vantar ekki neitt og langar ekki í neitt eins og er. En ef ég ætti að nefna eitthvað þá elska ég að fá persónulegar gjafir eða góðan ilm, til dæmis frá Le Labo.“