„Ég er alveg þessi týpa sem hefur sent bréf upp úr þurru á vini mína“

Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg

Júlíanna Ósk Hafberg myndlistarkona elskar að gefa gjafir og skrifa kort til þeirra sem henni þykir vænt um. Júlíanna segir að það sé ákveðin upplifun að fá bréf sem hún reynir að skapa fyrir vini og fjölskyldu við hátíðleg tilefni á borð við jól, en líka hversdagsleg tilefni.

„Ég sýni ást mína og væntumþykju með því að gefa fólkinu sem ég ann vandaðar og úthugsaðar gjafir, sem oftast fylgir einhverskonar kort sem verður frekar oft að löngu bréfi. Og það er kannski það sem ég elska mest við jólin,“ segir Júlíanna.

„Það veitir mér mjög mikla gleði að hugsa, plana og kaupa eða gera gjafir handa fólkinu mínu. Ég er alveg þannig ennþá að ég gef nánast öllum nánustu vinum mínum gjafir – en þá alveg sérstaklega þeim sem ég hef eytt miklum tíma með það árið, þannig að það hverjum ég gef gjafir getur verið breytilegt eftir árum. Og svo sum árin sendi ég líka jólakort, og þá eru það fleiri sem fá þau heldur en gjafirnar. Mér finnst þetta eitthvað svo falleg leið til þess að staldra við og þakka fyrir liðna tíma og setja orð á samband mans við fólkið sem man hefur eytt árinu með, og t.d. hvað það hefur kennt eða gefið frá sér það árið sem situr eftir.“

Mikil ást er lögð í hvert kort.
Mikil ást er lögð í hvert kort. Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg

Hefur sent bréf upp úr þurru

Ertu svona rómantísk og gamaldags týpa?

„Ég er algjör rómantíker og hefði elskað að vera uppi á tímum þegar fólk átti í samskiptum í gegnum bréfsendingar. Ég er alveg þessi týpa sem hefur sent bréf upp úr þurru á vini mína eða fjölskyldu, oft löng handskrifuð bréf, jafnvel mörg mismunandi með allskyns umslögum og teikningum og lituðum pappír.

Ég hitti gamlan vin um daginn og hann átti einmitt afmæli svo ég gaf honum afmælisgjöf og með því var lítið handskrifað kort. Hann gladdist mjög yfir því og sagði mér að hann ætti möppu heima þar sem hann geymdi öll bréfin og kortin sem hann hafði nokkurn tímann fengið frá mér, sem mér fannst ótrúlega sætt og fallegt að heyra. Við bjuggum saman um tíma og þá átti ég það til dæmis til að skilja eftir litlar teikningar og bréf til hans þegar hann var að ganga í gegnum sambandsslit.“

Það kostar ekki mikið að tjá væntumþykju um jólin.
Það kostar ekki mikið að tjá væntumþykju um jólin. Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg

Júlíanna hefur sent mörg eftirminnileg bréf og hugsar um þau sem hluta af heildarupplifun.

„Það er eitthvað svo ótrúlega heillandi við tilhugsunina að fá og senda bréf, það er svo mikil upplifun. Einu sinni sendi ég ástarbréf sem var í mörgum hlutum, þar sem í bréfinu voru leiðbeiningar um hvernig ætti að búa til þessa stund til að lesa það; sækja sér te, setja á ákveðna tónlist, kveikja á kerti, koma sér vel fyrir og svo framvegis. Í annað skipti sendi ég annað ástarbréf sem varð svo í raun að stórum kassa sem innihélt alla þessa litlu hluti með; kertið og te, mörg mismunandi bréf sem lesa átti í ákveðinni röð, ilmpappír og allskonar. Þessi bréf voru í raun tilraun til að búa til augnablik og upplifanir fyrir einstaklinga án þess að vera þar með þeim, sem endaði svo t.d. á að vera rannsóknarspurning sem ég velti fyrir mér í lokaverkefni mínu í skapandi leiðtoga- og verkefnastjórnunarskólanum Kaospilot.“

Júlíanna segir að hún hafi hálfpartinn þurft að stoppa sig af í að pakka inn og skrifa kort. „Ég hef verið að gera eyrnalokka sem heita Tears in My Ears, og þegar ég byrjaði fyrst og var að senda fólki lokkana í pósti þá lagði ég mikla vinnu í að gera pakkann fallegan og með honum fylgdu gjarnan handskrifuð bréf og teikningar. Ég auðvitað þurfti svo á einhverjum tímapunkti að hætta því – en mér finnst það sýna svo vel hvað ég elska að gefa af mér á þennan hátt, það fylgja þessu ákveðin orkuskipti og umhyggja. “

Útkoman er falleg en óhefðbundin.
Útkoman er falleg en óhefðbundin. Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg
Allt í vinnslu hjá Júlíönnu.
Allt í vinnslu hjá Júlíönnu. Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg

Brúnt og bleikt áberandi

Hvað ætlar þú að gera á aðventunni?

„Í ár er ég að gera eins konar jóladagatal með vinkonu minni sem veitir mér mjög mikla gleði í aðdraganda jólanna. Við erum að gera smá tvist á þessi klassísku jóladagatöl og að gefa í skóinn. Við gáfum hvor annarri ákveðna fjárhæð og erum að setja saman litlar gjafir til að gleðja hvor aðra í skammdeginu og ætlum að hittast í byrjun desember til að skiptast á þessu, sem ég er mjög spennt fyrir. Ég er að fá svo mikið út úr því að setja saman gjafir handa henni, skrifa lítil kort sem fylgja með – að ég gleymi því gjarnan að ég mun fá eitthvað frá henni líka,“ segir Júlíanna.

Öll kort eru heimagerð.
Öll kort eru heimagerð. Ljósmynd/Júlíanna Ósk Hafberg

Rauði og græni liturinn eru oft áberandi þegar kemur að jólakortum og pökkum en ekki hjá Júlíönnu.

„Í myndlistinni er ég er oft að pakka inn verkum og prentum og hef ég undanfarin ár komið mér upp svona ákveðnu lúkki sem ég vinn mikið með – en það er þessi brúni kraftpappír og skærbleika gaffer tape. Síðustu tvenn jól hefur því ekki annað komið til greina en að nota þetta lúkk áfram þegar ég pakka inn jólagjöfum og hefur það sett svona skemmtilegan blæ á þetta allt, án þess að vera of svona klisjulega jólalegt.

Í desember ætla ég einmitt að vera með svona fullorðins jólakortaföndur og skrifkvöld á veitingastaðnum Önnu Jónu, þar sem ég mun vera á staðnum með allskonar efnivið í jólakort, merkimiða eða jólabréf og geta allir sem vilja komið, sest niður með drykk og átt fallega stund með sjálfum sér eða vinum og skrifað eða föndrað kort til þeirra sem standa þeim næst,“ segir Júlíanna sem verður líka með Jóla Pop-Up í Núllinu 7. til 10. desember þar sem listin hennar verður í aðalhlutverki.

Er betra að gefa en að þiggja?

„Það er alveg klárt mál að mér finnst betra að gefa en að þiggja, enda fæ ég svo rosalega mikið út úr því að setja saman þetta fallega augnablik sem það er að opna gjöf eða jafnvel bréf fyrir þann sem það fær,“ segir Júlíanna að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: