Var 22 ára og ólétt af elstu dótturinni þegar hún söng lagið

Ellen á fjögur börn, tengdabörn og barnabörn og því er …
Ellen á fjögur börn, tengdabörn og barnabörn og því er aðfangadagskvöld fjörugt. Í ár ætla þau að prófa að borða ekki öll saman en hittast síðan öll í eftirmat. mbl.is/Eyþór Árnason

Söngkonuna Ellen Kristjánsdóttur grunaði ekki að lagið Minn eini jólasveinn yrði svona vinsælt þegar hún söng það inn á plötu 22 ára, þá ófrísk að elstu dóttur sinni. Desember hefur oft verið annasamasti mánuður ársins hjá henni og í ár er engin undantekning.

„Við erum stór fjölskylda, ég á fjögur börn, tengdabörn og mörg barnabörn. Í ár verðum við í fyrsta sinn ekki öll saman að borða heldur miðjustelpan mín og hennar fjölskylda og svo yngsti sonur minn og hans fjölskylda. Hinar tvær dætur mínar mæta svo með sínar fjölskyldur í eftirréttinn. Við ætlum að prófa þetta í ár! Ástæðan? Já, í fyrra var verið að opna pakka í þrjá klukkutíma! Það er kannski helsta breytingin með öllum barnabörnunum,“ segir Ellen, aðspurð hvernig jólin verða hjá henni í ár.

Ellen hefur haldið í sömu jólahefðir síðan hún var lítil stúlka en þær ganga út á það að byrja að borða jólamat um leið og kirkjuklukkurnar hringja inn jólin. „Jólahefðin er helst sú að við náum að setjast til borðs um það leyti sem jólin eru hringd inn klukkan 18. Við borðum í rólegheitum og síðan er gengið frá „öllu“, borið fram kaffi með rjóma, konfekt í skál og einhver fær það hlutverk að útbýta pökkum. Þetta var alltaf gert þegar ég var lítil, eftir að við komum heim frá Bandaríkjunum þegar ég var 7 ára gömul og ég hef haldið í þá hefð. Meðan við bjuggum úti fylgdum við amerísku hefðinni og opnuðum pakka á jóladagsmorgun,“ segir hún.

Hvað borðar þú til dæmis á aðfangadag?

„Í fjölskyldunni er blanda af grænmetisætum og kjötætum. Við höfum síðustu ár verið með einhverskonar kjöt og hnetusteik á aðfangadag en einstaka sinnum haft kalkún því ég er fædd í Kaliforníu og svolítið amerísk í mér. Það eru alltaf sykraðar/brúnaðar kartöflur með og allt meðlæti sem passar hverju sinni. Eftirréttur ris a la mande. Við erum ekki búin að ákveða matseðilinn í ár nema að hnetusteikin verður væntanlega á sínum stað,“ segir hún.

Er eitthvert jólagott í uppáhaldi hjá þér sem þú borðar bara yfir hátíðirnar?

„Röndóttir brjóstsykursstafir eru nauðsynlegir. Þeir hanga hér og þar til skrauts um húsið yfir hátíðarnar og hverfa svo smátt og smátt,“ segir hún.

Í hátíðarskapi kom út 1980. Þar var Ellen 22 ára …
Í hátíðarskapi kom út 1980. Þar var Ellen 22 ára og söng inn á plötuna.

Söng lagið 22 ára og ólétt

Minn eini jólasveinn kom út 1980 í flutningi Ellenar Kristjánsdóttur sem þá var 22 ára gömul og ólétt að sínu fyrsta barni. Lagið hefur lifað með þjóðinni æ síðan og er eitt af þeim jólalögum sem eru í uppáhaldi hjá mörgum. Þegar Ellen er spurð út í lagið segir hún að Gunnar Þórðarson tónlistarmaður hafi hringt í hana og beðið hana um að syngja lagið.

„Kærastinn minn, Eyþór Gunnarsson, spilaði á plötunni og Gunnar var í miklu uppáhaldi. Ég var 22 ára og ófrísk að fyrsta barninu mínu. Ég var ekkert að spá í hvort lagið myndi verða vinsælt. Var bara með metnað fyrir að skila því vel frá mér, held ég. En auðvitað var gaman að það skyldi heppnast vel og platan öll. Ég hef aðeins sungið þetta lag tvisvar opinberlega en nú í ár verður það á prógramminu hjá mér vegna fjölda áskorana,“ segir Ellen.

Desember er annasamur mánuður hjá henni en í gegnum tíðina hefur hún verið að spila á 15-20 tónleikum í jólamánuðinum.

„Þegar ég lít til baka skil ég ekki alveg hvernig ég fór að þessu þegar mest var. Síðustu 15-20 árin hef ég verið að spila 15-20 tónleika í desember. Borgardætur, KK og Ellen og ég sem gestur hér og þar. Meira að segja miðnæturmessusöngur á aðfangadagskvöld nokkrum sinnum. En þetta er búið að vera partur af jólunum mínum lengi og Eyþórs mannsins míns líka. Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að gera þetta með öllu þessu frábæra fólki í öll þessi ár og þakklát öllum gestunum sem hafa komið að hlusta,“ segir hún.

Hvað hefur þú gert til þess að sigla í gegnum desember án þess að enda í Virk?

„Það hafa komið afangadagskvöld þar sem ég hef rétt svo getað haldið haus fram eftir kvöldi. Galdurinn er að undirbúa allt vel áður en törnin byrjar. En svo hjálpumst við fjölskyldan alltaf öll að og allt smellur saman á síðustu stundu og hátíðarstemningin er yndisleg.“

Brjóstsykursstafir eru í miklu uppáhaldi hjá Ellen.
Brjóstsykursstafir eru í miklu uppáhaldi hjá Ellen.

Hvernig verður tónleikahaldi háttað hjá þér í ár?

„Í ár er ég meira að spila fyrir fyrirtæki og í einkaveislum en verð þó með tvenna jólatónleika, eina í Fríkirkjunni 14. desember klukkan 20 þar sem ég og Eyþór, börnin okkar (Systur og mister sister) og leynigestur verðum með ótrúlega kósí dagskrá og ég get svo sannarlega dásamað þau öll þó ég sé auðvitað ekki alveg hlutlaus. Síðan erum við fjórar söngkonur, ég, Guðrún Gunnars, Kristjana Stefáns og Ragga Gröndal ásamt frábærri hljómsveit með tónleika í Hörpu 20. desember klukkan 21. Okkur tókst mjög vel til í fyrra og því ákváðum við að endurtaka leikinn. Það gerist eitthvað þegar fjórar svona ólíkar konur taka sig til og setja allt sitt í svona viðburð. Þá verður einhver galdur til. Fjölbreytt tónlist og skemmtileg stemning, bæði hátíðleg og létt.“

Svona rétt í blálokin, hvað langar þig í í jólagjöf?

„Ég væri til í hest og svo auðvitað hamingju fyrir allt mannkynið,“ segir hún og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: