Leggur til friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur birt frumvapsdrög í samráðsgátt er varðar …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur birt frumvapsdrög í samráðsgátt er varðar ný heildarlög um lagareldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í frum­varpi Svandís­ar Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra um lagar­eldi er gert ráð fyr­ir að Eyja­fjörður og Öxar­fjörður verði friðaðir og að eldi lax­fiska verði þar með óheim­ilt í fjörðunum. Sam­hliða þessu er lagt til að ýmis ákvæði er snýr að sjókvía­eldi á Íslandi verði hert.

Lagar­eld­is­fur­m­varpið hef­ur verið birt í sam­ráðsgátt stjórn­valda og er því ætlað er að skapa heildarramma fyr­ir eld­is- og rækt­un­ar­grein­ar. „Mark­mið frum­varps­ins er að skapa lagar­eldi á Íslandi skil­yrði til verðmæta­sköp­un­ar inn­an ramma sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og með vist­kerf­is­nálg­un að leiðarljósi,“ seg­ir í kynn­ingu frum­varps­ins í sam­ráðsgátt.

Gert ráð frá þó nokkr­um breyt­ing­um er varða sjókvía­eldi og má meðal ann­ars finna til­lög­ur um að áhættumat erfðablönd­un­ar verði gefið út í formi fjölda fiska í stað líf­massa, að hlut­verk Haf­rann­sókna­stofn­un­ar verði skýr­ara, að inn­leiðing smit­varn­ar­svæða verði áhættu­stýrt og fyr­ir­komu­lag út­hlut­un­ar rekstr­ar­leyfi verði breytt.

Einnig er lagt til að eft­ir­lit Mat­væla­stofn­un­ar með sjókvía­eldi verði aukið, að leyfi­leg­ur líf­massi í sjó verði minnkaður vegna affalla og lúsa­smits, auk þess sem regl­ur um kynþroska fisk verða hert­ar.

Um 40% allra um­sagna sem bár­ust um fyr­ir­hugaða stefnu stjórn­valda á sviði lagar­eld­is til árs­ins 2040, sem frum­varps­drög­in byggja á, voru áskor­un til stjórn­valda um að banna sjókvía­eldi. Ekki verður séð að orðið hafi verið við þeirri kröfu. 

Rammi um land­eldi og hafeldi

Í frum­varp­inu er í fyrsta sinn fjallað sér­stak­lega um land­eldi. „Viðamesti hluti um­fjöll­un­ar­inn­ar varðar smit­varn­ir,“ að því er seg­ir í kynn­ing­unni. Þá er einnig lagt til að sett­ur verði rammi um starf­rækslu og eft­ir­lit land­eld­is­stöðva sem og út­gáfu rekstr­ar­leyf­is til land­eld­is og aft­ur­köll­un þess.

Fjallað er um hafeldi í tveim­ur köfl­um en bent er á að um er að ræða grein „sem ekki er haf­in á Íslandi en auk­inn áhugi hef­ur verið á starf­sem­inni síðastliðin ár. Til að kom­ast að því hvort og hvar hafeldi sé væn­legt í ís­lenskri lög­sögu þarf að ráðast í fjöl­marg­ar og ít­ar­leg­ar rann­sókn­ir. Sníða þarf ramma utan um þær rann­sókn­ir. Þá verður einnig að skapa ramma utan um leyf­is­veit­inga­ferlið en miklu máli skipt­ir að fyr­ir­sjá­an­leiki og skýr lög­gjöf sé fyr­ir hendi til að styðja við fyrstu skref grein­ar­inn­ar.“

Stjórnað á grund­velli skil­greindra mæli­kv­arða

Í kynn­ing­unni seg­ir að í frum­varp­inu sé lagt til „að inn­leidd­ar verði þær aðgerðir sem fram koma í drög­um að stefnu fyr­ir lagar­eldi sem hafa m.a. það að mark­miði að lagar­eldi verði stjórnað á grund­velli skil­greindra mæli­kv­arða sem stuðla þar með að því að grein­in hafi sem minnst áhrif á um­hverfi sitt, vist­kerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýra­vel­ferð og sjúk­dóm­ar séu með besta hætti á heimsvísu.“

mbl.is