Áfram útlit fyrir loðnubrest

Skip Hafransóknarstofnunar við bryggju. Árni Friðriksson nær og Bjarni Sæmundsson …
Skip Hafransóknarstofnunar við bryggju. Árni Friðriksson nær og Bjarni Sæmundsson aftar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Viðbót­ar­leiðang­ur Haf­rann­sókna­stofn­un­ar mældi ekki nægi­legt magn loðnu til að ráðgjöf­in um að eng­ar loðnu­veiðar verði stundaðar í vet­ur verði breytt.

„Rann­sókna­skip­in eru nú á leið til hafn­ar og verið er að vinna úr gögn­um leiðang­urs­ins. Það er þó ljóst að það magn sem mæld­ist í þess­ari yf­ir­ferð mun ekki breyta fyrri ráðgjöf um eng­ar veiðar. Aðeins lít­ill hluti veiðistofns­ins var kom­inn á yf­ir­ferðasvæðið miðað við mæl­ing­ar fyrr í haust,“ seg­ir í til­kynn­ingu á vef Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Loðnu­af­urður skiluðu á síðasta ári rúm­lega 47 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur og rúm­um 24 millj­örðum árið 2021.

Kostað af út­gerðum

Haf­rann­sókna­stofn­un­ar lagði í októ­ber til að eng­ar loðnu­veiðar yrðu stundaðar fisk­veiðiárið 2023/​2024 eins og upp­hafs­ráðgjöf gerði ráð fyr­ir.

Ráðgjöf­in byggði á niður­stöðum berg­máls­mæl­inga á loðnu­stofn­in­um á rann­sókn­ar­skip­un­um Árna Friðriks­syni og Tarajoq á tíma­bil­inu 23. ág­úst til 23. sept­em­ber, en upp­hafs­ráðgjöf­in byggði á mæl­ing­um á ung­loðnu haustið 2022.

Ákveðið var í kjöl­farið að halda í viðbót­ar­leiðang­ur síðar um árið en leiðang­ur­inn var að frum­kvæði og kostaður af út­gerðum upp­sjáv­ar­veiðiskipa.

Héldu rann­sókna­skip­in Árni Friðriks­son og Bjarni Sæ­munds­son til loðnu­mæl­inga 9. des­em­ber. Yf­ir­ferð Árna var með land­grunns­brún­inni út af Vest­fjörðum og út í Græn­lands­sund eins og haf­ís leyfði en Bjarni fór með land­grunns­brún­inni út af Norður­landi.

Fram kem­ur á í til­kynn­ingu Haf­rann­sókna­stofn­un­ar að „mark­mið leiðang­urs­ins var að meta magn og dreif­ingu loðnu sem gengið hef­ur að ís­lenska land­grunn­inu í des­em­ber. Magnið er metið með berg­máls­mæl­ing­um. Með því fást mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir tíma­setn­ingu og um­fang á mæl­ing­um á stofn­in­um í janú­ar og fe­brú­ar sem munu gefa lokaráðgjöf fyr­ir loðnu­veiðar 2023/​2024. Stofn­mæl­ing í sept­em­ber síðastliðinn leiddi til þess að ekki var mælt með veiðum.“

Kláruðu yf­ir­ferðina í gær

Fram­vinda leiðang­urs­ins er sögð „nokkuð greið enda náðu skip­in sam­an og kláruðu yf­ir­ferðina seinni part­inn í gær“. Útbreiðsla haf­íss hindraði þó yf­ir­ferðina tals­vert til norðurs. Vest­an til á rann­sókna­svæðinu var mest af ung­loðnu. Hún var þó aðeins blönduð kynþroska loðnu sem mynd­ar veiðistofn á yf­ir­stand­andi vertíð.

Þá fannst kynþroska loðna utan við land­grunns­brún­ina út af Stranda­grunni og við Kol­beins­eyj­ar­hrygg. Þar var um lítið magn að ræða.

Veiðiskipið Vil­helm Þor­steins­son hafði, í for­könn­un sinni fyr­ir Norðaust­ur­landi viku fyrr, einnig orðið var við lít­ils­hátt­ar magn loðnu rétt aust­an Kol­beins­eyj­ar­hryggj­ar en ekki séð neitt aust­an við það.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð

mbl.is