„Þau eru fyndin og skrítin“

Allur ágóði af sölunni rennur til Konukots.
Allur ágóði af sölunni rennur til Konukots. Ljósmynd/Margrét Erla Maack

Ein­stök, ljót og skrít­in jóla­tré eru nú til sölu á pall­in­um fyr­ir fram­an veit­inga­húsið Kram­ber og mun all­ur ágóði renna til Konu­kots.

Lísa Kristjáns­dótt­ir, eig­andi staðar­ins, seg­ir gesti og gang­andi hafa mik­inn áhuga á trján­um, sem sum eru með þrjá toppa og önn­ur enga. 

Fengu hug­mynd­ina í fyrra

Hug­mynd­in að söl­unni kom upp í fyrra. Kram­ber hafði þá ný­lega verið opnað en ekki gafst tími til að fram­kvæma hug­mynd­ina þá. 

„Okk­ur langaði til að gera eitt­hvað skemmti­legt í miðbæn­um, við selj­um jólag­lögg og lang­ar að vera með í stemn­ing­unni.“

Höfðu eig­end­ur Kram­bers sam­band við skóg­rækt­ar­menn í ár til að fá tré sem eru felld við grisj­un.

„Og við báðum þá um að kíkja sér­stak­lega eft­ir ein­stök­um trjám. Við tók­um nokk­ur jóla­tré í fóst­ur sem eru ein­stök og eng­inn ann­ar vill og þau munu ef­laust gleðja mörg miðbæj­ar­heim­ili því þau eru fynd­in og skrít­in. Þau eru ekki góð endi­lega báðum meg­in, þau eru stund­um ljót öðrum meg­in en góð hinum meg­in,“ seg­ir Lísa.

„Ef fólk er að leita að ein­stöku jóla­tré, og þá meina ég ein­stöku með upp­hafs­stöf­um, þá er hægt að fá þau hjá okk­ur á pall­in­um fyr­ir litl­ar fimm þúsund krón­ur.“

mbl.is