„Þetta er birtingarmynd vandans“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Þetta er birtingarmynd vandans og verður ekkert skýrara,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í samtali við mbl.is aðspurður um það að Skinney Þinganes hafi þurft að fjárfesta í olíukatli til að hafa varaafl þegar ekki er til næg raforka.

„Þetta er bara bara raunveruleikinn, þetta er ekki eitthvað sem við höfum áhyggjur af í framtíðinni, við erum bara búin með þetta núna,“ segir Guðlaugur.

Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi þá skorar bæjarráð Hornafjarðar á stjórnvöld að fara í aðgerðir til að tryggja næga raforku til not­enda og koma í veg fyr­ir að keyra þurfi ork­u­nýt­ingu á inn­fluttri og meng­andi orku. Guðlaugur segir fleiri dæmi vera um það að orkan sem við nýtum sé ekki græn vegna skorts á framleiðslu grænnar orku.

„Á Vestfjörðum sjáum við það að dísilrafmagnsverið fór úr 200.000 lítrum af dísilolíu í 2,1 milljón lítra af dísilolíu á milli ára og núna síðustu tvö ár erum við að tala um það að sú dísilrafstöð er að nota meira en tvær milljónir lítra af dísil á ári til að framleiða rafmagn. Þetta er fullkomlega óásættanlegt og við þurfum að vinna okkur eins hratt út úr þessu og mögulegt er,“ segir Guðlaugur Þór.

Frábærar fréttir úr Ölfusi

Mbl.is reindi frá því í gær að Orku­stofn­un hef­ur gefið Veit­um nýt­ing­ar­leyfi á jarðhita á Bakka og Hjallakrók í Ölfusi. Með leyf­inu fá Veit­ur heim­ild til að vinna tæp­lega 67,6% meira af heitu vatni en fyr­ir.

Guðlaugur segir þetta vera miklar gleðifregnir og sé afraksturinn af öflugu samstarfi Elliða Vignissonar, sveitarstjóra Ölfuss, og Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

„Við getum ekki náð árangri nema Ölfus og Orkuveitan vinni saman. Allt það sem er í nýtingarflokki hjá Orkuveitunni er í Ölfusi. Þannig þetta eru frábærar fréttir og gaman að sjá hvernig sveitarfélagið og Orkuveitan eru að vinna saman að því að leysa vanda okkar,“ segir Guðlaugur.

Hitaveitan í Þorlákshöfn og í Ölfusi hefur verið í eigu Veitna frá árinu 2014 og þar á undan í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélags Veitna, frá árinu 2000. Þorlákshafnar- og Ölfusveita starfar á grundvelli sérleyfis til rekstrar hitaveitu í Þorlákshöfn.

mbl.is