Jólin draga fram það besta í fólki

Leifur Ragnar Jónsson er sóknarprestur í Guðríðarkirkju.
Leifur Ragnar Jónsson er sóknarprestur í Guðríðarkirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leif­ur Ragn­ar Jóns­son, sókn­ar­prest­ur í Guðríðar­kirkju, er bú­inn að vera prest­ur í tæp­an ald­ar­fjórðung. Það er hans reynsla að fólk sýn­ir sín­ar allra bestu hliðar um jól­in og vill gefa af sér. Í grunn­inn snú­ast jól­in um að sýna kær­leika og sam­hygð.

„Ég hafði lengi vel haft áhuga á guðfræði en fannst það ekki fyr­ir mig á þeim tíma sem ég út­skrifaðist með stúd­ents­próf tví­tug­ur,“ seg­ir Leif­ur um af hverju guðfræði og síðan prests­starfið varð fyr­ir val­inu. Eft­ir nám í sagn­fræði og með viðkomu á vinnu­markaði ákvað hann að drífa sig í guðfræðina og með mik­illi hvatn­ingu frá eig­in­konu sinni, Elsu Reimars­dótt­ur.

Leif­ur ólst að stór­um hluta upp á Vopnafirði. „Ég var al­inn upp við venju­lega heim­iliskristni, lærði bæn­ir og sálma­vers. Ég ólst upp í húsi þar sem afi og amma bjuggu á efri hæðinni. Amma mín var mjög trúuð og fór oft í kirkju og ég fór oft með sem barn. Húsið sem ég ólst upp í var og er við hliðina á kirkj­unni. Ég man eft­ir því sem barn að prest­arn­ir fengu stund­um að skrýðast heima hjá mér. Mamma mín söng í kirkju­kórn­um.“

Get­ur breytt myrkri í ljós

Hvaða merk­ingu hafa jól­in í þínum huga?

„Þetta er ynd­is­leg­ur tími hjá okk­ur flest­um þar sem ég held að við sýn­um það allra besta sem í okk­ur býr. Mín reynsla sem prest­ur er að fólk dreg­ur fram það allra besta í sér á aðvent­unni og í kring­um jól­in. Nú þegar ég hef verið prest­ur í tæp­an ald­ar­fjórðung þá styrk­ist ég í þeirri skoðun minni. Það er til dæm­is ólýs­an­lega ánægju­legt að fá til sín þrjá pilta, sem all­ir hafa fermst hjá manni, að gefa Bónu­skort til bág­staddra. Eða ein­hver sem er að þakka fyr­ir lífslán og kem­ur með Bónu­skort og gjaf­ir til bág­staddra. Þá koma ýms­ir aðilar, Kiw­anis­klúbb­ar o.fl. með fram­lög. Það er mikið leitað til okk­ar presta á aðvent­unni. Reynd­ar allt árið en mest á aðvent­unni og sem bet­ur fer get­um við hjálpað mörg­um. Ég held að við drög­um það besta fram sem við sýn­um varðandi ná­ungakær­leika og sam­hygð.“

Leif­ur seg­ir jól­in lýsa upp heim­inn. „Mér finnst þetta vera ákveðinn trú­ar­vitn­is­b­urður. Jól­in minna mig á að Jesús vill fylgja okk­ur og vill fá að vera með okk­ur. Hann get­ur breytt myrkri í ljós þar sem ljós hans fær að lýsa. Kannski á það ekki síst vel við núna, ég er t.d. að hugsa um fólkið í Grinda­vík sem við erum öll búin að hugsa vel og mikið til. Mér finnst það fal­legt og gott hvað marg­ir er boðnir og bún­ir til að hjálpa. Jól­in boða nefni­lega frið, kær­leika og sam­hygð og draga oft fram það besta í okk­ur og sam­fé­lagi okk­ar. “

Ynd­is­legt að kveðja fólkið eft­ir jólaguðsþjón­ustu

Hver er hápunkt­ur­inn í jólaguðsþjón­ust­unni?

„Mér finnst óskap­lega fal­legt og hátíðlegt þegar Heims um ból er sungið. Það er líka ynd­is­legt fyr­ir prest að standa í kirkju­dyr­um að lok­inni guðsþjón­ustu og fá að kveðja fólkið allt, þakka fyr­ir sam­ver­una og óska því gleðilegr­ar jóla­hátíðar. Maður finn­ur að fólkið fer glatt og ánægt heim til sín að eiga ynd­is­lega stund með sínu nán­asta fólki og aug­ljóst að fólk hlakk­ar til að njóta þeirra stund­ar.“

Hvernig er að vera prest­ur á jól­un­um?

„Það get­ur verið ansi anna­samt og snúið. Það er oft mjög mikið að gera á jól­un­um. Fólk vill skíra og gift­ast í kring­um jól og það get­ur verið mikið að gera varðandi það. Svo var ég prest­ur lengi úti á landi, vest­ur á Pat­reks­firði, og þjónaði í nokkr­um kirkj­um þar. Ég fór upp í að messa fjór­um sinn­um á aðfanga­dag og jafn­vel þris­var á jóla­dag.

Við hjón­in eig­um fjög­ur börn. Þegar þau voru yngri náði maður kannski rétt að borða með þeim og taka upp pakk­ana og svo sást maður lítið fyrr en seinni part­inn á jóla­dag aft­ur. Ég veit að það mæddi oft mikið á eig­in­konu minni. En nú er þetta orðið öðru­vísi hjá okk­ur.“

Það er mikið að gera hjá prestum um jólin.
Það er mikið að gera hjá prest­um um jól­in. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Hef­ur eitt­hvað eft­ir­minni­legt gerst í starf­inu í kring­um jól­in?

„Það er ým­is­legt sem get­ur komið upp á á jól­um og hátíðum. Eitt sinn varð raf­magns­laust, bæði heima og í kirkj­unni fyr­ir vest­an. Það var messað við kerta­ljós minn­ir mig. Eitt sinn ætlaði ég að spara papp­ír og hafði ekki prentað út jólaræðuna og hugðist nota ný­feng­inn Ipad. Þegar til átti að taka, mess­an haf­in, var hann hins veg­ar raf­magns­laus svo ég fór með ræðuna eft­ir minni og gekk sæmi­lega. En stressið var mikið!“

Höf­um það gott á Íslandi

Leif­ur bend­ir á að lífið haldi áfram á jól­un­um, fólk fæðist og deyr. „Stund­um hef­ur maður verið kallaður til vegna sorg­legs dauðsfalls á jól­um og þá get­ur það verið mjög erfitt. Auðvitað hugs­ar maður alltaf til þeirra sem glíma við jól­in í sorg, ein­mana­leika, kvíða og veik­ind­um. Maður veit að það er ekki sjálf­gefið að hafa alla sína nán­ustu hjá sér alltaf, stund­um vant­ar ein­hvern við hátíðar­borðið. Það eru ekki all­ir sem geta notið jól­anna, því miður. Lífið er svo mis­mun­andi hjá okk­ur og glím­an við sorg og missi er mörgu fólki erfið um jól. Fólk verður að glíma við sorg­ina og það sem henni fylg­ir á sín­um for­send­um,“ seg­ir Leif­ur.

Erum við að leggja of mikla áherslu á að hafa skemmti­legt í kring­um jól­in?

„Lífið má al­veg vera skemmti­legt en við gleym­um því stund­um að við erum ekki öll á sama stað í líf­inu. Það er stund­um mik­il áhersla á fjörið og stuðið á meðan við gleym­um hinum, en við meg­um líka leyfa okk­ur að vera glöð og kát. En muna eft­ir hinum af því að við get­um öll verið í þeim spor­um næstu jól.“

Um jól­in er Leifi hug­leikið ófriðarástand í heim­in­um og hvað Íslend­ing­ar mega vera þakk­lát­ir fyr­ir hlut­skipti sitt.

„Það er hræðilegt ástandið á fæðing­ar­slóðum Jesú. Það er skelfi­legt að hugsa til þess­ara drápa sem þar standa yfir. Grimmd­in sem þar rík­ir á báða bóga er ofar okk­ar skiln­ingi. Auðvitað hugs­ar maður til þess hvað við erum hepp­in hér á Íslandi og að við búum í landi þar sem ekki rign­ir yfir okk­ur sprengj­um. Sá er því miður veru­leiki millj­óna manna. Auðvitað er þetta eitt­hvað sem maður get­ur ekki ímyndað sér,“ seg­ir Leif­ur. Sjálf­ur er hann þakk­lát­ur fyr­ir sitt, fólkið sitt, sam­starfs­fólkið, sam­starf­sprest, org­an­ista, kór, kirkju­vörð og meðhjálp­ara. Allt hið besta fólk sem svo sann­ar­lega ger­ir jól­in helg í Guðríðar­kirkju þar sem verður mikið líf um jól og ára­mót. Aðventu­hátíð fer fram þar sem kór­ar kirkj­unn­ar syngja og syng­ur Katrín Hall­dóra Sig­urðardótt­ir meðal ann­ars ein­söng svo eitt­hvað sé nefnt.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: