Drukkinn maður skoraði á Runólf

Ónefndur maður á Flateyri kom að máli við Runólf Ágústsson og sagðist vilja sjá hann á Bessastöðum. Hann segist þó frekar myndu kjósa sér hlutverk maka forsetans, þyrfti hann að velja.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála. Þar aftekur Runólfur með öllu að hann sækist eftir embætti forseta.

Hann segir Katrínu Jakobsdóttur álitlegan kost í embættið, ekki síst vegna reynslu hennar, m.a. á alþjóðlegum vettvangi þar sem hún njóti mikillar virðingar.

Spursmál í dag snerust að hluta um forsetakjörið sem fram …
Spursmál í dag snerust að hluta um forsetakjörið sem fram fer 1. júní næstkomandi. Erna Mist og Runólfur Ágústsson spáðu þar í spilin ásamt Stefáni Einari. mbl.is/Árni Sæberg

Erna Mist, listakona, sem einnig er gestur þáttarins spyr þá hvaða reynsla það sé.

„Á alþjóðlegum ráðstefnum og í samskiptum við erlenda þjóðhöfðingja og á þessum samstarfsvettvöngum sem við eigum, hvort sem það er í Evrópusambandinu eða Nato eða annarsstaðar. Hennar staða í NATO hefur meira að segja verið nokkuð þröng þar sem hún er forsætisráðherra VG sem er á móti aðild að NATO. Hún hefur gert þetta mjög vel.“

Hefur hún ekki aðallega talað um jafnréttismál á vettvangi NATO?

„Jú og umhverfismál, norðurslóðamál, allskonarmál og verið mjög öflugur málsvari þannig að ég held að hún væri mjög góður kostur.“

Er það ekki eins og að tala um tannheilsu í stjórn Nóa Síríusar?

„Ha, ha. Ég veit það ekki,“ svarar Runólfur.

Þá segist hann einnig sjá Sigríði Hagalín Björnsdóttur, sjónvarpskonu og rithöfund fyrir sér á Bessastöðum en hann þekkir mjög vel til hennar. Erna Mist vill það hins vegar alls ekki.

„Ég vil ekki missa hana úr fjölmiðlum. Mér líður eins og við þurfum að fá einhvern í þetta embætti sem er orðinn svolítið tilgangslaus annarsstaðar,“ segir Erna.

Skemmtileg umræða spannst um forsetaembættið, tilgang þess og jafnvel tilgangsleysi í Spursmálum en þáttinn má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is