Svona er dagur í lífi Íslendinga samkvæmt gervigreind

Lítur hefðbundinn dagur í þínu lífi svona út?
Lítur hefðbundinn dagur í þínu lífi svona út? Samsett mynd

Myndir teiknaðar af gervigreind nutu mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum árið 2023, en það er ýmislegt sem gervigreindin getur teiknað upp. Á dögunum birtist myndband á TikTok-reikningnum AItrasket þar sem gervigreind hafði verið notuð til að teikna upp hefðbundinn dag á Íslandi. 

Dagurinn byrjar í svefnherbergi þar sem ungur maður, sem á að vera „hefðbundinn“ Íslendingur, sefur. Hann virðist vera í timburhúsi og það er snjór fyrir utan, en hann sefur undir flísteppi með íslenska fánanum og hefur einnig strengt borða með íslenskum fánum fyrir ofan rúmið. Svo er sýnt frá morgunmatnum, en hann fékk sér egg, brauð, fisk, bláber og jógúrt í morgunmat.

Er þetta hefðbundin morgunrútína Íslendinga?
Er þetta hefðbundin morgunrútína Íslendinga? Samsett mynd

Maðurinn heldur svo út í fjallgöngu og skellir sér í náttúrulaug með hundinn sinn sem virðist vera íslenskur fjárhundur. Félagarnir virðast vera að eiga afar góðan dag þar til það byrjar allt í einu að gjósa.

Félagarnir fara í fjallgöngu og skella sér í náttúrulaug eins …
Félagarnir fara í fjallgöngu og skella sér í náttúrulaug eins og vinsælt er að gera á Íslandi. Samsett mynd

Því næst er maðurinn kominn á hest og flýr eldgosið ásamt öðrum hestum og dýrum, en svo fara hlutirnir að breytast mjög mikið. Á næstu mynd siglir maðurinn ásamt hundinum sínum frá eldgosinu í miklu óveðri, en nú er maðurinn kominn með grátt skegg og virðist hafa elst heilmikið.

Hlutirnir byrja að breytast mikið eftir að það byrjar að …
Hlutirnir byrja að breytast mikið eftir að það byrjar að gjósa. Samsett mynd

Frá eldgosi yfir á gríðarstórt víkingaskip

Hlutirnir eru greinilega fljótir að breytast hér á klakanum, en á næstu mynd er maðurinn staddur fyrir framan gríðarstórt víkingaskip á bátnum sem hann flúði eldgosið í. Hann fer um borð í víkingaskipið og hittir þar skeggprúða víkinga. Því næst virðist maðurinn hafa tekið stjórn á skipinu og stendur þar fremst, en nú er hann kominn með hund af tegundinni Husky.

Á tíma hans með víkingunum breytist útlit mannsins heilmikið, en hann flakkar á milli þess að vera nánast hvíthærður yfir í að vera með brúnt hár og grátt hár. 

Hér má sjá að útlit mannsins og hundsins breytast þó …
Hér má sjá að útlit mannsins og hundsins breytast þó nokkuð. Samsett mynd

Dansandi norðurljós og hvítt skegg

Maðurinn kveður víkingana undir lok dags og heldur heim á leið, en þegar hann kemur heim taka á móti honum dansandi norðurljós á himninum. Á ferðalagi hans heim breytti hundurinn hans einnig um lit og er nú orðinn eins og hann var í byrjun, ljósbrúnn og hvítur íslenskur fjárhundur.

Dagurinn endar svo á sama stað og hann byrjaði, í svefnherberginu, en nú er maðurinn hins vegar orðinn hvíthærður með sítt hvítt skegg. Hann virðist hafa ákveðið breyta herberginu sínu aðeins áður en hann fór að sofa, eða hreinlega farið að sofa í öðru herbergi í húsinu, en nú er stór íslenskur fáni fyrir ofan rúmið og út um gluggann má sjá rauð hús.

Enda ekki allir Íslendingar daginn sinn svona?
Enda ekki allir Íslendingar daginn sinn svona? Samsett mynd

Myndbandið hefur vakið þó nokkra athygli, en þegar hafa yfir 657 þúsund notendur horft á það. Það var eitt og annað sem vakti upp spurningar meðal áhorfenda, en einn spurði: „Þannig að á Íslandi eldist þú um 60 ár á hverjum degi???“ á meðan annar skrifaði: „Sem Íslendingur get ég staðfest að þetta er mitt daglega líf.“

mbl.is