Framsókn gerir ekki kröfu um afsögn ráðherra

Frá vinstri: Svandís Svavarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Halla Signý Kristjánsdóttir.
Frá vinstri: Svandís Svavarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Halla Signý Kristjánsdóttir. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Aðsend/Kristrún Ásta

„Það voru all­ir ró­leg­ir yfir þessu, en við svo sem vöruðum við þessu í sum­ar,“ seg­ir Halla Signý Kristjáns­dótt­ir, vara­formaður þing­flokks Fram­sókn­ar. 

Í sam­tali við mbl.is staðfestu Ingi­björg Isak­sen og Halla Signý Kristjáns­dótt­ir, formaður og vara­formaður þing­flokks Fram­sókn­ar­flokks­ins, að flokk­ur­inn hafi haldið óform­leg­an fund í morg­un til að fara yfir ýmis mál.

Ekki ástæða til að kalla þing fyrr sam­an

Var álykt­un umboðsmanns Alþing­is um ákvörðun Svandís­ar Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra um tíma­bundið hval­veiðibann meðal fund­ar­efna en hún hafi ekki komið flokks­mönn­um sér­stak­lega á óvart, þó þeim þyki það vissu­lega miður að sögn Ingi­bjarg­ar, enda séu þetta mik­il von­brigði fyr­ir stjórn­sýsl­una.

Aðspurðar segja þær báðar að flokk­ur­inn telji ekki til­efni til að kalla þing sam­an, né fari hann fram á að ráðherra segi af sér í kjöl­far niður­stöðunn­ar.

„Þetta er ekki ástæða til að kalla þing fyrr sam­an,“ seg­ir Ingi­björg.

Verði að taka sam­talið við flokk­inn og við sjálfa sig

Svandís sagði í sam­tali við mbl.is í gær að hún teldi mál sitt og Bjarna Bene­dikts­son­ar, ut­an­rík­is­ráðherra og fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra, ólíkt vax­inn en Bjarni sagði af sér sem fjár­málaráðherra í kjöl­far niður­stöðu umboðsmanns Alþing­is um aðild hans að söl­unni á Íslands­banka. 

„Hún verður nátt­úru­lega bara að taka sam­talið inn­an síns flokks og við sig sjálfa,“ seg­ir Halla Signý. „En það er eng­in krafa frá okk­ur.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina