Vilja lög til að ýta við virkjunum

„Þetta er orðið þjóðaröryggismál […] það þarf lagasetningu. Þess vegna er kannski líka ákall um að ráðherrann leggi fram mál sem tengjast þessu.“

Orkumálin voru í brennidepli í Spursmálum líkt og víða annarsstaðar …
Orkumálin voru í brennidepli í Spursmálum líkt og víða annarsstaðar í samfélaginu þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

Svofelldum orðum fer Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um þá stöðu sem upp er komin í orkumálum þjóðarinnar. Hún segist bíða eftir frumvörpum frá umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra sem greiða muni götu mála sem tryggt geti að frekari orkuöflun geti átt sér stað.

Ingibjörg er gestur í nýjasta þætti Spursmála ásamt Brynjari Níelssyni, fyrrum alþingismanni og aðstoðarmanni dómsmálaráðherra.

Bendir hún á að langt hafi verið gengið í friðlýsingu stórra vatnasvæða, ekki síst á tímum vinstristjórnarinnar sem sat á árunum 2009-2013, og að ráðherra þurfi að ráðast í að aflétta þeim miklu takmörkunum sem settar voru á orkuöflun á þeim svæðum.

Brynjar segist hafa verið gagnrýninn á ráðherra málaflokksins fyrir að ekki hafi verið nóg að gert. Hann telur þó einsýnt að þingmenn VG muni standa í vegi fyrir því að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir í landinu.

Ingibjörg Isaksen og Brynjar Níelsson mættu í settið til Stefáns …
Ingibjörg Isaksen og Brynjar Níelsson mættu í settið til Stefáns Einars. mbl.is/Árni Sæberg

Kyrrstaðan verði rofin

Á sama tíma segir hann ekki tímabært að tala um stjórnarslit vegna þessa máls eða annarra. Telur hann hæfilegt að veita VG tímafrest fram á vorið til þess að sýna á spilin. Þá þurfi samstarfsflokkarnir að hafa fullvissu fyrir því að kyrrstaða í þessum málaflokki verði rofin, auk þess sem tekist verði á við stór álitamál sem meðal annars tengist útlendingamálum.

Viðtalið við Ingibjörgu og Brynjar má sjá og heyra í heild sinni hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: