Segir Svandísi ekki hafa farið gegn ráðleggingum

MAtvælaráðuneytið segir Svandísi Svavarsdóttur ekki hafa farið á svig við …
MAtvælaráðuneytið segir Svandísi Svavarsdóttur ekki hafa farið á svig við ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins þegar tekin var ákvörðun um tímabundið hvalveiðibann. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mat­vælaráðuneytið hafn­ar því að Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra hafi farið gegn ráðlegg­ing­um sér­fræðinga ráðuneyt­is­ins þegar ákveðið var að grípa til tíma­bund­ins banns gegn hval­veiðum síðastliðið sum­ar.

Í til­kynn­ingu sem birt hef­ur verið á vef ráðuneyt­is­ins seg­ir að „ákvörðun mat­vælaráðherra um tíma­bundna frest­un upp­hafs veiða á langreyðum á ár­inu 2023 var í sam­ræmi við mat og ráðgjöf sér­fræðinga ráðuneyt­is­ins. Full­yrðing­ar um annað eru rang­ar.“

Fram kem­ur í um­fjöll­un Morg­un­blaðsins í dag að lesa má úr minn­is­blöðum sem sér­fræðing­ar ráðuneyt­is­ins á skrif­stofu sjálf­bærni sendu ráðherr­an­um í aðdrag­anda þess að hún ákvað að banna veiðarn­ar að Svandís hafi verið ít­rekað vöruð við slíkri ákvörðun.

Var meðal ann­ars bent á að öll reglu­setn­ing þurfi „að upp­fylla kröf­ur um rétt­mæti og meðal­hóf og rann­sókn­ar­skyldu ráðuneyt­is­ins. Í því felst að all­ar ákv­arðanir þurfa að vera hófstillt­ar og byggj­ast á mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum auk þess að vera reist­ar á viðeig­andi og full­nægj­andi upp­lýs­ing­um.“ Jafn­framt hafi verið vak­in at­hygli á því að öll reglu­setn­ing fyr­ir kom­andi vertíð hafi ekki í för með sér óhæfi­lega rösk­un á starf­semi Hvals hf. um­fram það sem eðli­legt sé og óhjá­kvæmi­legt.

Viðbúið að málið færi fyr­ir dóm­stóla

Ráðuneytið full­yrðir að þegar reglu­gerðin tók gildi 20. júní hafði þá nýbirt álit fagráðs um vel­ferð dýra verið rýnt inn­an ráðuneyt­is­ins. „Í minn­is­blaði til ráðherra lögðu sér­fræðing­ar ráðuneyt­is­ins til að sett yrði reglu­gerð til bráðabirgða um frest­un upp­hafs veiða. Stoð reglu­gerðar­inn­ar er í lög um hval­veiðar sem heim­il­ar ráðuneyt­inu að tak­marka veiðar við ákveðinn tíma árs.“

Er bent á að í minn­is­blaðinu segi að „ráðuneytið met­ur það svo að unnt sé að ná þeim mark­miðum sem að er stefnt án þess að kveðið verði á um af­drátt­ar­laust bann við veiðunum, með því að fresta upp­hafi veiðanna um sinn. Í því skyni er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við reglu­gerð nr. 163/​1973, um hval­veiðar, um að freta upp­hafi hval­veiða árið 2023. Áður en veiðar geta haf­ist er ljóst að tryggja þarf að atriði sem lýst er í eft­ir­lits­skýrslu Mat­væla­stofn­un­ar og fjallað er um í áliti fagráðs end­ur­taki sig ekki. Í því ljósi og þar sem skammt er þar til áformað er að hefja veiðar er rétt að fresta upp­hafi vertíðar­inn­ar þannig að ráðrúm gef­ist til þess að kanna hvort unnt sé að setja regl­ur sem tryggt geta að veiðar fari fram í sam­ræmi við lög um vel­ferð dýra. Til þess að gæta meðal­hófs er þó ekki rétt að fresta upp­hafi vertíðar leng­ur en til 31. ág­úst nk. að svo stöddu.“

Vek­ur ráðuneytið at­hygli á því að í minn­is­blaðinu hafi verið lagt til að „á gild­is­tíma reglu­gerðar­inn­ar yrði haft sam­ráð við leyf­is­hafa og hon­um veitt­ur kost­ur á að koma á fram­færi sjón­ar­miðum sín­um um þær ráðstaf­an­ir sem mögu­lega yrði gripið til í kjöl­farið til að veiðarn­ar gætu farið fram í sam­ræmi við lög um vel­ferð dýra og lög um hval­veiðar.“

Kveðst ráðuneytið hafa tekið fram að óháð því hvaða leið yrði far­in „væri viðbúið að málið yrði borið und­ir dóm­stóla og/​eða umboðsmann Alþing­is. Ráðuneytið taldi ekki for­send­ur til að spá fyr­ir um niður­stöðu slíks máls en benti á að eins og í öll­um mál­um af þessu tagi gæti reynt á ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar og eft­ir at­vik­um bóta­ábyrgð rík­is­ins.“

mbl.is