Stjórnin í verra ásigkomulagi en heilbrigðiskerfið

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina muni standa af sér storminn í kringum matvælaráðherra. Hann viðurkennir að mjög hafi reynt á samstarfið að undanförnu.

Þetta kemur fram í lok ítarlegs viðtals við ráðherrann í Spursmálum.

Willum Þór Þórsson er gestur Spursmála að þessu sinni.
Willum Þór Þórsson er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is/Kristófer Liljar

Þar segist hann bjartsýnn á stöðuna í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þegar hann er spurður út í það hvort hann sé eins bjartsýnn á ríkisstjórnarsamstarfið segir hann einfaldlega:

„Ég myndi kannski ekki vera eins bjartsýnn. Þetta er alveg búið að vera erfitt.“

Lifir stjórnin þetta af með matvælaráðherra sem segist ekki þurfa að fara að lögum því þau séu orðin gömul?

„Já, já. Við lifum þetta af. Við erum búin að einsetja okkur það að það sem vegur þyngst núna fyrir land og þjóð er að það sé ekki meiri óstöðugleiki en raun er. Til þess að klára kjarasamninga, ná niður verðbólgu og ná niður vöxtum. Þetta er stærsta verkefnið hér og nú.“

Ef ráðherra brýtur lög vísvitandi og viðurkennir það, hefur það ekki áhrif á stöðu ráðherrans? Myndi það ekki hafa áhrif á þína stöðu?

 

 

„Jú það hefur þegar gert það. Og ég veit að ráðherrann tekur álit umboðsmanns alvarlega eins og við gerum öll og er að íhuga það þessa dagana og við gefum henni það rými.“

Hvernig hefur það áhrif? Því þú segir að það hafi nú þegar haft áhrif.

„Já þú sérð nú bara alla umfjöllunina um það.“

Það er nú eins og að skvetta vatni á gæs.

„Já, já en þetta er álit og það ber að taka alvarlega.“

Viðtalið við Willum má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is