Sessunauturinn kom heldur betur á óvart

Mæðgurnar að sýna nýju húfuna.
Mæðgurnar að sýna nýju húfuna. Ljósmynd/Instagram

Fallegt og óvænt augnablik átti sér stað í flugi frá Mexíkó til New Jersey nú á dögunum þegar foreldrar hinnar fimm mánaða gömlu Romey fengu óvænta gjöf frá sessunaut sínum. TikTok-myndskeið náðist af atvikinu og hefur það hlotið mikla athygli og voru ferðalangarnir boðaðir í viðtal á sjónvarpsstöðinni ABC til þess að ræða það.

Foreldrar stúlkunnar, Jake og Kelly Levine, voru að ferðast með unga dóttur sína í fyrsta sinn frá fæðingu hennar og voru því talsvert stressuð fyrir flugferðinni, en eins og flestir foreldrar vita þá getur verið vandasamt að ferðast með ungabörn.

Góðverk breytti flugferðinni

Á heimleiðinni hitti litla fjölskyldan konu, þeim algjörlega ókunn, en sú breytti flugferðinni til muna. „Romey heillaðist að konu sem sat við hlið okkar og fylgdist hún með henni í lengri tíma. Sú var að hekla og alveg á fullri ferð, Romey tók vart augun af henni,” sagði móðir stúlkunnar í viðtali við morgunþáttinn Good Morning America.

Kona að nafni Meegan Rubin var sú sem sat og heklaði og sjálf sagðist hún hafa tekið eftir áhuga ungu stúlkunnar. „Ég sat við ganginn og tók fljótt eftir því að hún starði á mig, en ég var að vinna í að klára að setja saman peysu,” sagði Rubin. „Stúlkan var bókstaflega dáleidd af því sem ég var að gera.”

Rubin sagði hrifningu Romey hafa veitt sér innblástur til að hekla húfu handa henni og ákvað hún því að leggja peysuna til hliðar og hófst fljótt handa við að hekla húfu með aðeins eina klukkustund til stefnu.

Þar sem Rubin er þaulvanur heklari þá tókst ætlunarverkið innan þessara 60 mínútna og við lendingu afhenti Rubin fjölskyldunni gullfallega húfu og dýrmæta minningu.

View this post on Instagram

A post shared by Meegan Rubin (@crochetobey)

View this post on Instagram

A post shared by Meegan Rubin (@crochetobey)




mbl.is