Eina lausnin sem fólkið sér

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Grindvíkingur segir bæjarbúa slegna yfir …
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Grindvíkingur segir bæjarbúa slegna yfir þeirri stöðu sem þeir eru komnir í og eru búnir að vera í og segir tankinn einfaldlega orðinn tóman. Samsett mynd/mbl.is/Kári/Arnþór

Vil­hjálm­ur Árna­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og íbúi í Grinda­vík, seg­ist vongóður um að það verði hægt að vinna þá lausn áfram í rík­is­stjórn að Grind­vík­ing­ar verði keypt­ir út úr fast­eign­um sín­um.

Hann seg­ist enga aðra lausn sjá.

„Þetta er stóra málið sem Grind­vík­ing­ar eru að kalla eft­ir og það mun leysa flest vanda­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þannig að ég er vongóður um að stjórn­völd kom­ist að þeirri niður­stöðu að þetta sé skil­virk­asta og besta leiðin.

Ég skil að það taki tíma fyr­ir stjórn­völd að taka svona stóra ákvörðun en ég trúi að sú ákvörðun verði tek­in þegar stjórn­völd hafa farið vel yfir málið næstu klukku­stund­irn­ar.“

Fjölmenni var á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll í dag. Jón …
Fjöl­menni var á íbúa­fundi Grind­vík­inga í Laug­ar­dals­höll í dag. Jón Gunn­ars­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, Há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra á fremsta bekk. mbl.is/​Arnþór

Bæj­ar­bú­ar á tóm­um tanki

Vil­hjálm­ur seg­ir mikla óvissu og þetta sé eina leiðin til að svara þeirri óvissu.

Seg­ir þingmaður­inn Grind­vík­inga slegna yfir þeirri stöðu sem þeir eru komn­ir í og eru bún­ir að vera í og seg­ir tank­inn ein­fald­lega orðinn tóm­an.

„Það eina sem þeir biðja um er að þeir verði keypt­ir út. Það er eina lausn­in sem fólkið sér og það er lausn­in sem mun leysa öll hin vanda­mál stjórn­valda.

Fólk er að benda á að þó að því fylgi hár kostnaður mun sá kostnaður koma á einn eða ann­an hátt seinna í ferl­inu.“

mbl.is