Fjórir fulltrúar Íslands í útrás í Evrópu

Gugusar er ein þeirra sem koma fram á Eurosonic.
Gugusar er ein þeirra sem koma fram á Eurosonic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir fulltrúar Íslands taka þátt í tónlistarhátíðinni Eurosonic í Gorningen í Hollandi sem hefst í dag. Eurosonic er tónlistarhátíð, ráðstefna og einn mikilvægasti vettvangur Evrópu fyrir útvarpsstöðvar og tónlistarhátíðir til að uppgötva upprennandi tónlistarfólk.

Fulltrúarnir Íslands í ár eru gugusar, Árný Margrét, LÓN, og Vévaki en Árný Margrét er jafnframt ein af 15 tilnefndum til Music Moves Europe verðlaunanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útón. 

Ný hljómsveit með Valdimar 

Hljómsveitin LÓN er samsett af þjóðþekktu listamönnunum Valdimar Guðmundssyni, Ásgeiri Aðalsteinssyni og Ómari Guðjónssyni, en þeir eru sagðir kafa þar ofan í þjóðlagarætur sínar.

Valdimar Guðmundsson, Ásgeir Aðalsteinsson (ekki á mynd) og Ómar Guðjónsson …
Valdimar Guðmundsson, Ásgeir Aðalsteinsson (ekki á mynd) og Ómar Guðjónsson mynda hljómsveitina Lón. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hljómsveitin Vévaki er norræn þjóðlagahljómsveit „innblásinn af heiðinni nútímahefð, og setur nútímablæ á okkar merku arfleið ljóða og sagna“. 

Hin tvítuga gugusar kemur einnig fram á Eurosonic-hátíðinni. „Hún hefur nú þegar tryggt sér tilnefningar fyrir söngkonu og plötu ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum, og setur nú stefnuna út í heim,“ segir Útón.

Dua Lipa, Rosalia og Hozier áður verið tilnefnd

Fjórði fulltrúi Íslands, Árný Margrét, hefur „á undraskömmum tíma farið frá heimabæ sínum Ísafirði á alþjóðasviðið,“ eins og segir í tilkynningunni. Hún hefur nú þegar komið fram á stórviðburðum á borð við SXSW, The Great Escape, og spilað á tónleikaferðalögum í Evrópu, Ameríku, og Bretlandi.

Árný Margrét er, eins og áður sagði, tilnefnd til Music Moves Europe verðlaunanna, en það er viðurkenning veitt mest spennandi tónlistarfólki álfunnar hverju sinni. Fyrrum sigurvegarar telja til að mynda Dua Lipa, Rosalia, Hozier, og Christine and the Queens. Áður hafa bæði Reykjavíkurdætur (2019) og Ásgeir Trausti (2014) veitt verðlaununum viðtöku frá Íslandi.

Árný Margrét er tilnefnd til Music Moves Europe verðlaunanna.
Árný Margrét er tilnefnd til Music Moves Europe verðlaunanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tónlistarfólk sækir hátíð eins og Eurosonic í ósk um að styrkja sitt erlenda tengslanet og finna ný tækifæri til útflutnings fyrir sína tónlist. Þessi hátíð hefur í gegnum tíðina reynst íslensku tónlistarfólki vel en áður hafa komið fram á hátíðinni Kaleo, Daði Freyr, Ásgeir, Vök, Júníus Meyvant, Sóley, Mammút, Skálmöld og mörg fleiri atriði sem hafa átt farsælan feril í útflutningi síðan. 

mbl.is