Tveir aðdáendur tónlistarkonnunar Madonnu hafa kært hana fyrir að hafa mætt of seint á tónleika sem hún hélt í New York í síðasta mánuði.
Samkvæmt dómskjölum sem BBC hefur undir höndum fullyrða aðdáendurnir að sýningin hafi átt að hefjast klukkan 20:30 öll þrjú kvöldin en hafi aldrei byrjað fyrr en eftir klukkan 22:30 og hafi því ekki verið búnir fyrr en klukkan 01:00.
Þá segja aðdáendurnir að þeir hefðu ekki borgað fyrir miða hefðu þeir vitað að tónleikarnir myndu klárast svona seint. Í kærunni kemur einnig fram að “margir miðaeigendur sem sóttu tónleikana á virkum degi hafi þurft að fara snemma á fætur til að fara í vinnuna og/eða sjá um fjölskylduna sína daginn eftir.“
„Sakborningar létu miðaeigendur ekki vita af því að tónleikarnir myndu hefjast mun seinna en sú tímasetning sem prentuð var á miðann og eins og auglýst var, sem leiddi til þess að miðaeigendur biðu klukkustundum saman,“ segir í dómskjölunum.
Þar kemur einnig fram að Madonna eigi „langa sögu um að koma og hefja tónleika sína seint, stundum nokkrum klukkustundum of seint“ og eru nefnd sem dæmi Rebel Heart Tour árið 2016, Madame X Tour árin 2019-2020 og fyrri ferðir, en þar hafi Madonna endurtekið byrjað tónleika sína rúmlega tveimur tímum of seint.