Í vikunni mældist mesta rafmagnsnotkun í dreifikerfi Veitna frá upphafi.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veitna, sem dreifa rafmagni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að afltoppurinn hafi náð 215,3 megavöttum. Þá er miðað við meðalálag einnar klukkustundar.
Fyrra met upp á 212,9 megavött hafði staðið óhaggað frá desembermánuði 2008.
Rafmagnsnotkun dróst saman eftir bankahrunið 2008 og aftur eftir kórónuveirufaraldurinn. Hún nær almennt hámarki þegar saman fara mikil umsvif í samfélaginu, skammdegi og kuldi, segir í tilkynningunni.
Annað skeið samdráttar í raforkunotkun hófst í nóvember 2018 og í gegnum byrjun heimsfaraldurs allt þar til á vormánuðum 2021 þegar varð verulegur viðsnúningur og raforkunotkun tók að aukast hratt fram til dagsins í dag.
Stór hluti skýringarinnar á aukinni rafmagnsdreifingu eru orkuskiptin en einnig fólksfjölgun, meiri umsvif í samfélaginu og mikill ferðamannastraumur.