Leysa þarf unglingapartý Katrínar upp

„Það þarf að leysa upp þetta unglíngapartý, sko, það þarf að fá einhverja landsmóður eða -föður til að skerast í leikinn.“

Þetta segir Ólöf Skaftadóttir í þættinum Spursmálum þegar umræðan beinist að stöðu ríkisstjórnarinnar og hvernig henni gengur að koma málum í gegnum þingið. Þar ræðir hún ásamt Birni Inga Hrafnssyni, fjölmiðlamanni um pólítíkina.

Í dag verður lögð fram vantrauststillaga á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið lög þegar hún stöðvaði hvalveiðar fyrirvaralaust síðastliðið sumar.

Ráðherrar láta málin dangla

„Tökum sem dæmi, áður en það fór að gjósa um miðjan desember þá voru flugumferðarstjórar komnir í verkfall og voru að valda mjög miklu tjóni gagnvart ferðaþjónustunni og flugfélögunum á versta tíma. En ráðherrarnir sögðu bara, ég krefst þess að menn nái saman. Samtök atvinnulífsins hefðu getað gengið til samninga sama dag en þá hefðu allar hugmyndir um þjóðarsátt verið algjörlega út úr myndinni. Þannig að ríkisstjórnin þarf að tala eins og að hún hafi eitthvað um málið að segja,“ útskýrir Björn Ingi.

Og hann rifjar upp mál af áþekkum toga fyrir rúmum þremur áratugum síðan. Þá var annað hljóð í ráðamönnum.

„Og þá er frægt, held ég að hafi verið árið 1991 þegar flugumferðarstjórar voru í verkfalli og Davíð Oddsson, forsætisráðherra, talaði við þá og sagði að ef þið hættið ekki þessu verkfalli strax þá setjum við lög sem afnema verkfallsréttinn ykkar. Og þar með var fallið frá þessu. En hann gat talað sem forsætisráðherra sem hafði eitthvað vald fyrir aftan sig.“

Viðtali við Björn Inga og Ólöfu má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is