Svandís upplýsti Katrínu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra seg­ir í sam­tali við mbl.is að Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra hafi upp­lýst sig um veik­indi sín áður en hún greindi frá þeim á Face­book í dag.

Svandís greindi þá frá því í færslu að hún væri kom­in í veik­inda­leyfi að lækn­is­ráði eft­ir að hún greind­ist með krabba­mein í brjósti.

„Svandís fékk þessi tíðindi í morg­un. Hún upp­lýsti mig um þau og bað mig um að geyma þau þar til hún væri búin að upp­lýsa sína fjöl­skyldu. Hún greindi svo frá þessu í færsl­unni á Face­book eft­ir það,“ seg­ir Katrín.

Katrín tek­ur við störf­um Svandís­ar

Hún seg­ir það hafa verið erfitt að fá þessi tíðindi enda hafi Svandís verið sam­starfsmaður henn­ar til margra ára.

„Þetta eru auðvitað vond tíðindi en við von­um að sjálf­sögðu hið besta. Nú fer hún í þetta verk­efni og við von­um öll að henni gangi vel,“ seg­ir Katrín.

Hver tek­ur við henn­ar skyld­um?

„Ég mun leggja fram þá til­lögu að ég leysi hana af næstu vik­urn­ar. Ég held að það sé ein­fald­ast þó svo að það sé nóg á minni könnu. Hún á það inni hjá mér eft­ir að hafa leyst mig af þegar ég fór í fæðing­ar­or­lof vegna yngsta son­ar míns árið 2011. Það er með gleði sem ég legg aðeins meira á mig til að end­ur­gjalda það,“ seg­ir Katrín.

Svandís komi til með að vera frá störf­um næstu vik­urn­ar og í fram­hald­inu verði staðan end­ur­met­in þegar lín­urn­ar skýrist.

Hug­ur allra hjá Svandísi

Hlut­irn­ir gerðust hratt í dag.

Flokk­ur fólks­ins lagði fram van­traust­stil­lögu á Svandísi við upp­haf þing­fund­ar en hún var skömmu síðar dreg­in til baka þegar frétt­ist af veik­ind­um henn­ar.

Spurð hvort ekki sé lík­legt að van­traust­stil­lag­an verði end­ur­flutt þegar Svandís snýr til baka seg­ir Katrín:

„Ætli það verði ekki bara að koma í ljós. Við tök­um bara einn dag í einu þegar staðan er svona. Það er heils­an sem skipt­ir öllu og þrátt fyr­ir allt argaþrasið hjá okk­ur í póli­tík­inni þá fann maður það í þing­inu í dag að hug­ur allra er hjá Svandísi.“

Vafa­laust allskon­ar pirr­ing­ur

Eft­ir þessa yf­ir­lýs­ingu Svandís­ar í morg­un, þar sem hún seg­ir álit umboðsmanns Alþing­is um reglu­gerð henn­ar um hval­veiðar ekki gefa til­efni til sér­stakra viðbragða, hef­ur þú skynjað ein­hvern pirr­ing í sam­starfs­flokk­un­um í rík­is­stjórn­inni?

„Ég veit það ekki en vafa­laust er allskon­ar pirr­ing­ur, en mér finnst hann al­gjör­lega víkj­andi út af þeim stóru verk­efn­um sem eru í gangi hjá mín­um sam­starfs­mönn­um. Við erum búin að sitja sam­an út af mál­efn­um Grind­vík­inga síðustu daga og vik­ur og reyna að leysa úr þeirra mál­um og nú í dag var fyrsta skrefið stigið.“

mbl.is