„Það er búið að vera mikið um árekstra í morgun og mikið um harða árekstra. Ég kenni að stórum hluta þessum blindbyl sem kom áðan. Það var bara núll skyggni,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áreksturs.is, í samtali við mbl.is.
Eins og greint hefur verið frá þá gekk umferðin á höfuðborgarsvæðinu hægt í morgun, enda færðin slæm og, eins og Kristján bendir á, varð alveg blint um tíma sem gerði ökumönnum erfitt fyrir.
„Ég varð sjálfur vitni að því þegar fólksbíll stoppaði úti í kanti, eða bara á götunni, og setti bara hazard-ljósin á og stóð á bremsunni. Fólk gat ekki keyrt,“ segir Kristján um ástandið í umferðinni þegar veðrið var sem verst.
Kristján segir að frá því klukkan átta í morgun hafi orðið um það bil 20 árekstrar á höfuðborgarsvæðinu. Hann telur að um átta bifreiðar séu ónýtar eftir árekstra morgunsins.
Aðspurður segir hann að meiðsl á fólki í þessum umferðaróhöppum hafi verið minniháttar.