Gular viðvaranir vegna suðvestan hríðar eru í gildi á Suðurlandi og Faxaflóa.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Spáð er suðvestan 13 til 20 metrum á sekúndu með dimmum éljum.
Slæmt ferðaveður er vegna lélegs skyggnis í éljum, snjóþekju á vegum og mögulegrar ófærðar.
„Ráðlegt er að kanna ástand á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað í ferðalög og hafa í huga að aðstæður til aksturs geta farið hratt versnandi þegar él skellur á,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Viðvaranirnar eru í gildi til klukkan þrjú í dag á Suðurlandi og fjögur á Faxaflóa.