Á bilinu 20-30 eldingar mældust á Suðvesturhorninu í dag að sögn veðurfræðings.
Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að eldingar séu ekki óþekkt fyrirbrigði í janúar.
„Það er kalt loft að koma úr suðvestri og það hitnar yfir sjónum og þá myndast mikill óstöðugleiki og í öllu þessu uppstreymi þá eru líkur á eldingum.“
Segir Birgir þrumuveður því alls ekki óþekkt hér á landi þó svo að það sé vissulega algengara annars staðar í heiminum. Víðs vegar í Evrópu sé óalgengt að sjá þrumur og eldingar um hávetur en algengt á sumrin.
„Það er í rauninni annars eðlis. Þá er sólin búin að hita upp landið í röku lofti. Það eru aðrar aðstæður en þetta þar sem er ískalt loft yfir sjónum sem hitnar að neðan.“