Sjónvarpsmaðurinn og uppistandarinn, Jay Leno, hefur sótt um forræði yfir eiginkonu sinni, Mavis Leno. Sú var greind með Alzheimer-sjúkdóminn í byrjun árs.
Jay, 73 ára, lagði fram gögn í dómi hæstaréttar í Los Angeles á föstudag er varða eignir og eftirlaunasjóði eiginkonu sinnar. Í gögnunum er einnig tekið fram að Mavis, sem þjáist af alvarlegri heilabilun, verði áfram undir umsjá eiginmanns síns en að hann ætli sér að stofna sérstakan sjóð sem tryggi öryggi hennar og áframhaldandi umsjá ef hann deyi á undan.
Jay og Mavis kynntust árið 1976 og gengu í hjónaband fjórum árum síðar, eða 1980. Hjónin eiga engin börn. Jay varð heimsþekktur þegar hann tók við sem kynnir The Tonight Show árið 1992. Hann gegndi starfinu til ársins 2014, en þá tók Jimmy Fallon við.