Hringdi í mömmu eftir óvænt símtal

Rósa faðmar móður sína innilega. Gömlu hjónunum hefur þótt vistin …
Rósa faðmar móður sína innilega. Gömlu hjónunum hefur þótt vistin heldur dauf í sumarhúsi í Ölfusborgum en það stendur nú til bóta. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fékk sím­tal um hálf­níu­leytið í [gær­morg­un] og var spurð: „Heyrðu, ert þú ekki ör­ugg­lega sú sem er í Morg­un­blaðinu í dag?““ seg­ir Rósa Ruth Guðmunds­dótt­ir í sam­tali við blaðið en móðir Rósu, Hólm­fríður Georgs­dótt­ir, dvel­ur í sum­ar­húsi í Ölfus­borg­um ásamt Árna Berg­mann Hauks­syni eig­in­manni sín­um.

Þar er allþröngt um þau hjón­in sem kom­in eru af létt­asta skeiði, Hólm­fríður 72 ára og Árni 67, en þeim var gert að rýma hús sitt í Grinda­vík í skjálftun­um í nóv­em­ber.

Hólm­fríður ræddi við Morg­un­blaðið í gær og kvaðst hvort tveggja sár og reið yfir þeim kröppu kjör­um sem þeim Árna væru boðin. „Ég vil að við á þess­um aldri för­um að fá fast hús­næði,“ sagði hún og spurði hve lengi eldra fólki væri ætlað að bíða.

„Ég bara redda þessu“

Svarið við þeirri spurn­ingu barst í gær­morg­un í sím­tal­inu til dótt­ur henn­ar en þær mæðgur birt­ust á mynd í blaðinu með viðtal­inu í gær sem sýn­ir þær faðmast af inni­leika.

„Ég held að þetta sért þú, ertu ekki að faðma mömmu þína?“ seg­ir Rósa viðmæl­anda sinn hafa spurt sem í kjöl­farið hafi kveðið upp ein­fald­an úr­sk­urð: „Ég ætla ekki að hlusta á svona kjaftæði, ég bara redda þessu.“ Svo mörg voru þau orð og varð í kjöl­farið ljóst að Hólm­fríðar og Árna bíður íbúð í Reykja­nes­bæ inn­an skamms.

Seg­ir Rósa móður sína hafa tekið tíðind­un­um sem himna­send­ingu. „Ég hringdi í mömmu og sagði henni frá þessu sím­tali, að þessi kona ætlaði ekki að taka það í mál að það væri komið svona fram við þau,“ seg­ir Rósa og bæt­ir því við að aðbúnaður Hólm­fríðar og Árna hafi verið fyr­ir neðan all­ar hell­ur.

„Þau sváfu á dýnu fyrstu vik­urn­ar, þau voru ekki einu sinni með rúm. Við viss­um nátt­úru­lega ekk­ert að þetta væru bara ein­hverj­ir þrjá­tíu fer­metr­ar. Það er gólf­hiti sem er bara á ein­hverj­um ein­um punkti í hús­inu og það blæs inn um allt. Það er skítak­uldi þarna,“ seg­ir Rósa af hús­inu í Ölfusi sem er í eigu sveit­ar­fé­lags.

„Ég bara grét og grét“

„Við systkin­in erum búin að vera á fullu að gera allt til að koma þeim í hús­næði sem er búið að vera erfitt,“ rifjar Rósa upp. Hólm­fríður og Árni hafi þó fyrst áttað sig fylli­lega á aðstæðum þegar þau komu aft­ur til Grinda­vík­ur eft­ir rým­ing­una og sáu aðstæður þar. „Þau eru ekk­ert að fara að flytja til baka þangað, fólk eins og þau sem er heilsu­lítið,“ seg­ir Rósa og legg­ur ríka áherslu á orð sín.

Seg­ir hún gleði móður sinn­ar hafa verið ólýs­an­lega þegar henni bár­ust frétt­irn­ar í gær­morg­un. „Þakk­lætið er því­líkt, ég bara grét og grét,“ seg­ir Rósa, „mamma mín verður ekki á göt­unni eða í þrjá­tíu skít­köld­um fer­metr­um næstu mánuðina.“

Unnið myrkr­anna á milli

Bend­ir hún á að kyn­slóð móður henn­ar hafi unnið baki brotnu alla æv­ina og ekki þekkt ann­an raun­veru­leika. „Að tapa al­eig­unni sem fólk hef­ur unnið fyr­ir myrkr­anna á milli er meira en að segja það, auðvitað er bruna­bóta­mat betra en ekk­ert, en hvenær verður þetta greitt út, vit­um við það?“ spyr Rósa og kveður heilsu móður sinn­ar hafa hrakað veru­lega eft­ir rým­ing­una.

„Hún get­ur varla labbað, kona sem var svo heilsu­hraust áður en þetta gerðist. Það er svaka­legt hvað þetta tek­ur á fólk,“ seg­ir Rósa Rhut Guðmunds­dótt­ir að lok­um, glöð og þakk­lát fyr­ir hönd Hólm­fríðar móður sinn­ar sem kemst í leigu­íbúð í mars með Árna manni sín­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: