Ögn Þórarinsdóttir segir að það verði mjög tæpt að geta keypt annað húsnæði utan Grindavíkur því fasteignaverð sé víðast hærra.
„Maður krossleggur bara fingurna og verður að vona það besta,“ segir hún.
„Við erum fjögurra manna fjölskylda og vorum í 180 fm húsnæði, við þyrftum alltaf að minnka við okkur og getum gleymt því að kaupa á höfuðborgarsvæðinu.“
Ögn segir að þau séu að skoða húsnæði í Þorlákshöfn, en það sé erfitt að plana nokkuð þegar ekkert hefur enn verið ákveðið.
Hún segir ólíklegt að þau muni snúa aftur til Grindavíkur. „Við erum með tvö ung börn og ég yrði aldrei örugg að leyfa börnunum að fara út að leika sér.“
Ögn segir að það sé erfitt að vera í þessari óvissu og vonar að tími framkvæmda sé að renna upp. „Það er búið að tala um lausnir í þrjá mánuði og nú má eitthvað fara að gerast.“