„Við keyptum húsnæði í apríl í fyrra og ég sé fram á að við töpum alveg útborguninni,“ segir Ellen María Þórsdóttir, íbúi í Grindavík, um hvað myndi blasa við henni ef húsnæðisfrumvarp fyrir Grindvíkinga yrði samþykkt óbreytt.
„Við myndum koma út í 6-7 milljón króna tapi og mér finnst ansi hart að það sé verið að miða við brunabótamatið sem er miklu lægra en fasteignamatið.“
Ellen segir að til þess að þau geti átt möguleika á að kaupa sér aðra eign þurfi þau að leigja í nokkur ár og safna aftur fyrir útborgun.
Sem betur fer sé maðurinn hennar á sjó frá Stykkishólmi svo hann missir ekki vinnuna.
„Ég þurfti að segja upp minni vinnu því við fundum ekkert húsnæði með viðráðanlega leigu nema á Akranesi og núna erum við komin með íbúð sem við höfum fram í ágúst,“ segir hún og að frumvarpið þurfi að tryggja jafnræði fyrir alla Grindvíkinga.