Ekkert markvert fundist af loðnu

Guðmudnur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir uppsjávarskipin enn ekki hafa …
Guðmudnur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir uppsjávarskipin enn ekki hafa fundið loðnugöngu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upp­sjáv­ar­skip­in Ásgrím­ur Hall­dórs­son SF og græn­lenska skipið Pol­ar Ammassak urðu ekki vör við loðnu­göngu suðaust­ur af land­inu í yf­ir­ferð sinni sem lauk um helg­ina. Enn hef­ur Heima­ey V Eekki fundið loðnu­göngu norðvest­ur af land­inu, en þeirri leit er ekki lokið.

Þetta seg­ir Guðmund­ur J. Óskars­son, sviðsstjóri upp­sjáv­ar­sviðs hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, í sam­tali við 200 míl­ur.

Ásgrím­ur Hall­dórs­son og Pol­ar Ammassak héldu til leit­ar fimmtu­dag síðastliðinn (22. fe­brú­ar) og hófst með því fjórða til­raun­in til að finna loðnu frá loðnu­mæl­ing­unni síðasta haust er mæld­ist um 320 þúsund tonn af kynþroska loðnu.

„Það var ekk­ert markvert að finna hjá þeim. Þessi litla loðnu­ganga á þeim slóðum var far­in að sjást í Lóns­dýpi og því kom­in upp á grunn­in að ein­hverju leyti. Það var ekk­ert vart við aðra göngu eins og von­ast var eft­ir,“ út­skýr­ir Guðmund­ur.

Ásgrímur Halldórsson SF er gerður út frá Hornafirði.
Ásgrím­ur Hall­dórs­son SF er gerður út frá Hornafirði. mbl.is/​Sig­urður Bogi Sæv­ars­son

Heima­ey gefst ekki upp

Föstu­dags­morg­un hélt síðan Heima­ey VE til leit­ar á miðunum norðvest­ur af land­inu en þar hef­ur meðal ann­ars haf­ís og veður truflað fyrri mæl­ing­ar á loðnu­stofn­in­um.

„Það hef­ur ekki orðið vart við neina loðnu­göngu enn fyr­ir norðvest­an land hjá Heima­ey. Veðrið hef­ur verið að stríða þeim en engu að síður hafa þeir náð að vera við leit. Þeirra yf­ir­ferð mun halda áfram suður eft­ir næstu daga og ég vill ekk­ert segja um horf­urn­ar á þess­um tíma­punkti,“ seg­ir Guðmund­ur.

mbl.is