Ráðleggja áframhaldandi humarveiðibann

Það eru fleiri ár síðan álíka humarafli sást í afurðastöðvum …
Það eru fleiri ár síðan álíka humarafli sást í afurðastöðvum á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Haf­rann­sókna­stofn­un legg­ur til að humar­veiðar verði bannaðar árin 2024 og 2025, að því er seg­ir í ráðgjöf stofn­un­ar­inn­ar sem birt var í dag. Þá legg­ur stofn­un­in jafn­framt til að áfram verði bannað að veiða með botn­vörpu á af­mörkuðum svæðum í Breiðamerk­ur­djúpi, Horna­fjarðar­djúpi og Lóns­djúpi til vernd­ar humri.

Humar­veiðar hafa verið bannaðar frá ár­inu 2022 vegna slakr­ar stöðu humarstofns­ins og tel­ur Haf­rann­sókna­stofn­un stofn­stærðina vera und­ir varúðarmörk­um.

Á síðasta ári til­kynnti stofn­un­in að vís­bend­ing væri um að humarstofn­inn hefði tekið að vaxa þar sem taln­ing humar­hola sýndi að fjöldi þeirra hafði tvö­fald­ast frá ár­inu 2021. Humar­inn vex þó hægt og mun því taka nokk­urn tíma áður en stofn­inn sé nógu stæðileg­ur til að rétt­læta veiðar.

Tví­sýnt þrátt fyr­ir aukn­ingu

„Aukn­ing humar­hola get­ur stafað af tvennu. Ann­ars veg­ar er talið að humar­hol­ur séu grein­an­leg­ar frá því að dýr­in eru um 17 mm á skjald­ar­lengd, sem sam­svar­ar um þriggja ára humri, en í humar­vörpu sést hann yf­ir­leitt ekki fyrr en um 4–5 ára (25–34 mm á skjald­ar­lengd). Hins veg­ar að þegar álag á veiðislóð er lítið þá séu humar­hol­ur, sem ekki eru í ábúð, grein­an­legri í lengri tíma og get­ur það valdið skekkju á mati á heild­ar­fjölda humars,“ seg­ir í ráðgjaf­ar­skjali Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um há­marks­afla í humri hef­ur dreg­ist sam­an á hverju fisk­veiðiári frá fisk­veiðiár­inu 2009/​2010, en þá var ráðgjöf­in 2.200 tonn og nam hum­arafli ís­lenskra báta 2.456 tonn það fisk­veiðiár.

mbl.is