Fordæmir enn hluta af stefnu jafnaðarmanna

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist enn fordæma hluta af útlendingastefnu Mette Fredriksen, formanns danskra jafnaðarmanna en athygli vakti árið 2021 þegar hann lét þung orð falla um þá stefnu sem systurflokkur Samfylkingarinnar innleiddi í kjölfar síðustu þingkosninga þar í landi. Felur hún í sér mun stífara regluverk um málaflokkinn þar sem miðað er að því að draga að langstærstum hluta úr straumi flóttamanna til Danmerkur.

Logi er gestur Spursmála ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins. Þar eru flóttamannamálin til umræðu.

Styður ekki búðir í Afríku

„Ég held að þeir sem lásu og fóru yfir það stefnuplagg sem Mette [forsætisráðherra Danmerkur] setti fram, þeir sem lásu það stefnuplagg átta sig á því að það var ýmislegt þar sem hefur ekki einu sinni ratað inn í umræðuna í íslenskum stjórnmálum. Þar voru hugmyndir um að setja upp búðir í Afríkuríki og geyma fólkið þar. En það hefur komið fram samkvæmt breska hæstaréttinum að það stenst ekki mannúðarlög. Það er mjög ólíklegt að Mannréttindadómstóll Evrópu myndi samþykkja slíkt. Það voru svoleiðis hlutir sem ég var að gagnrýna. Það var líka talað með mjög ónærgætnum hætti um fólk sem væri ekki af vestrænum uppruna. Og það er bara orðalag sem ég gat ekki sætt mig við,“ segir Logi.

- En þau gera það enn. Þau hafa t.d. tekið saman skýrslu sem sýnir það að það fer eftir því hvaðan fólk kemur í heiminum hversu mikil atvinnuþátttaka er.

„Ég efast um að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja taka ómengaða þá stefnu upp.“

- Þannig að þú fordæmir enn hluta af stefnu hennar?

„Já, hluta af stefnu hennar,“ svarar Logi.

Gjörbreytt heimsmynd

Sigmundur grípur þá boltann og bendir á að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim tíma þegar flóttamannalöggjöf Vesturlanda var komið á fót í kjölfar heimsstyrjaldar.

„Málið með þessi útlendingamál er að stjórnmálamenn hér á Íslandi og aðrir í umræðunni, flestir, ekki allir auðvitað, virðast ekki gera sér grein fyrir eðli og umfangi þessa vanda. Þetta er miklu, miklu stærri vandi en langflestir gera sér grein fyrir og eðlið er líka ólíkt. Hér er enn verið að tala eins og 1989 um einhverja fjölmenningu og einhverjir svona frasar. Þegar það alþjóðaregluverk var sett upp úr seinni heimsstyrjöld, 1950-1951, eins og flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, þá miðaði hann að því að taka tímabundið á þeim vanda þegar það er stríð að fólk gæti fært sig yfir í nágrannaríkin og beðið þar í öryggi. Nú er þetta orðið gjörbreytt. Fólk er farið að ferðast um heiminn á miklu auðveldari hátt en áður en það er líka búið að byggja upp gríðarlega mikla glæpastarfsemi í kringum smygl á fólki. og Evrópulögreglan bendir á að 95% þeirra sem koma til Evrópu, utan álfunnar, til þess að sækja hér um hæli koma hér á vegum glæpamanna og setja fólkið í hættu. Selja ferðir og selja væntingar. Selja t.d. Ísland. Metta vinkona þín sagði Danmörk má ekki vera söluvara glæpagengja. Nú er Ísland orðið söluvara glæpagengja. Og það er ekki bara í hælisleitendamálunum eins og við sjáum núna heldur er líka verið að misnota þær heimildir sem eru til þess að taka inn á þeim forsendum að það vanti vinnuafl,“ segir Sigmundur Davíð.

Bendir hann á að aðgerðaleysi stjórnvalda valdi því að nú séu þessi mál komin gjörsamlega úr böndunum.

„Við höfum horft upp á þetta án þess að bregðast við. Þrátt fyrir að það sé augljóst að við getum ekki lengur látið eins og það sé árið 1950 þegar það er orðin skipulögð starfsemi að selja fólki væntingar um lífskjör í Evrópu og ekki síst núna á Íslandi þar sem við höfum tekið algjörlega fram úr hinum Norðurlöndunum, sem hafa að einhverju leyti gert sér grein fyrir vandanum, lært af eigin reynslu. Okkur virðist fyrirmunað að læra af reynslu þeirra og þess vegna eru 20-falt fleiri hælisumsóknir á Íslandi en í Danmörku hlutfallslega. Sem er ótrúleg staðreynd en það á sér sínar skýringar og þær eru sú stefna sem íslensk stjórnvöld hafa rekið og aðgerðaleysi þeirra,“ segir Sigmundur Davíð.

Efla þarf íslenska löggæslu

Bregst Logi þá við þessum ummælum Sigmundar.

„Þessi hluti sem Sigmundur kemur inn á og þarf að taka mjög alvarlega, þar sem verið er að misnota fólk og þetta mansal sem við erum að sjá birtast í íslenskum veruleika. Þetta bætum við ekki eingöngu með því að fókusera á hælisleitendakerfið og bara alls ekki. Hvað höfum við séð t.d. með íslenska lögreglu á síðustu 10-15 árum? Ég held að það séu færri lögreglumenn núna en voru 2008. Það er minna fé sett í lögregluna per mann á núvirði heldur en nokkur sinni áður.“

- En hafið þið stutt tillögur til dæmis um að efla möguleika lögreglunnar til að fylgjast með alþjóðlegri glæpastarfsemi? Það hafa verið lögð fram frumvörp þar um og menn hafa ekki komið slíkri löggjöf í gegnum þingið. Hverjir bera ábyrgð á því?

„Ríkisstjórnin ber augljóslega ábyrgð á því að koma ekki sínum málum í gegn.“

- En ykkur ber skylda til þess að styðja mál sem efla löggæsluna?

„Okkur ber ekki skylda til þess að efla hvaða mál sem eru, Stefán. Í fyrsta lagi þá er grunnatriðið að það þarf að efla til muna almenna löggæslu.“

Vilja auka heimildir lögreglu

- Það er ekki almenn löggæsla sem tekur á alþjóðlegum glæpahringjum?

„Nei, það þarf að gera það vegna þess að menn sem er ætlað að vera í ákveðnum sérstörfum eru að sinna almennum störfum. Það er það fyrsta. Við getum ekki séð lögregluna grotna niður. Í öðru lagi er alveg sjálfsagt og Samfylkingin hefur aldrei sett sig upp á móti því að auka heimildir lögreglu og auka möguleikana á því að taka á móti alþjóðlegri brotastarfsemi. Hins vegar er það í hlutarins eðli inni í þinginu að við getum tekist á um það hvernig það er gert og útfært. Ég hef t.d. ekki fengið enn þá skýringu á því af hverju að lögreglan þarf til dómara til þess að sækja um ýmis leyfi ef að tilefni er til gruns en í nýjum lögum getur lögreglan upp á sitt einsdæmi án þess að neitt tilefni sé til. Dómarar eru hér um allt land. Þeir eru á vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Það tekur innan við sólarhring fyrir þá að kveða upp úr með þetta. Í 90% tilvika er þetta heimilað vegna þess að lögreglan hefur undirbyggt hlutinn vel þegar hún kemur fram með hann.“

- Þetta lýtur líka að heimildum um að fá upplýsingar frá alþjóðlegum lögreglustofnunum.

„Við höfum ekki sett okkur upp á móti því, að það yrðu fundnar leiðir til þess. Alls ekki,“ bætir Logi við.

Viðtalið við Sigmund Davíð og Loga má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is