„Hef aldrei séð svona tölur áður“

Horft yfir Vestmannaeyjar.
Horft yfir Vestmannaeyjar. mbl.is/Árni Sæberg

Eyja­menn eru marg­ir hverj­ir með bögg­um hild­ar yfir aukn­um hús­hit­un­ar­kostnaði á heim­il­um sín­um. HS Veit­ur hafa hækkað gjald­skrár sín­ar um­tals­vert á und­an­förn­um mánuðum.

Síðasta haust var Eyja­mönn­um til­kynnt um hækk­un gjald­skrár ásamt því að vatnið yrði kald­ara en áður. Á nýju ári hef­ur verðið síðan hækkað enn meira.

Fram kom í til­kynn­ingu HS Veitna að nauðsyn­legt hefði verið að gera breyt­ing­ar á gjald­skrá vegna erfiðleika í rekstri hita­veit­unn­ar í Eyj­um vegna raun­hækk­un­ar á raf­orku­kostnaði, bil­ana á sæ­streng Landsnets og skerðinga í raf­orku­fram­leiðslu.

Tvö­föld­un á einu ári 

„Þetta er ótrú­lega mik­il hækk­un á mjög stutt­um tíma. Ég hef aldrei séð svona töl­ur áður," seg­ir Eyjamaður­inn Bjarni Ólaf­ur Guðmunds­son og tal­ar um tugi pró­senta í því sam­hengi. Hann setti inn face­book­færslu um málið sem hef­ur fengið mik­il viðbrögð. Um 100 manns hafa skrifað við hana um­mæli og greini­lega um að ræða mikið hita­mál í bæn­um. 

„67.000 fyr­ir fe­brú­ar, hvernig í ósköp­un­um er hægt að rétt­læta þetta?” spurði hann HS Veit­ur í færsl­unni og bætti við að reikn­ing­ur­inn hljóðaði upp á um 9.400 krón­ur fyr­ir raf­magn og tæp 58 þúsund fyr­ir hita.

Raf­magns- og hita­veitu­kostnaður hjá Bjarna Ólafi í janú­ar og fe­brú­ar árið 2023 var 57.310 krón­ur en á þessu ári tvö­faldaðist hann næst­um því og nam 102.826 krón­um fyr­ir sömu mánuði.

Kostnaður einna hæst­ur í Eyj­um

Í ný­legri skýrslu Byggðastofn­un­ar kom fram að mik­ill mun­ur get­ur verið á orku­kostnaði heim­ila eft­ir byggðarlög­um lands­ins og er mun­ur­inn á hús­hit­un­ar­kostnaði mun meiri en á raf­orku­verði. Vest­manna­eyj­ar voru á meðal þeirra byggðarlaga þar sem orku­kostnaður­inn var hæst­ur. 

„Refsa þeim sem spara“

Gísli Stef­áns­son, bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í Eyj­um, greindi frá því í aðsendri grein á vefsíðunni Eyj­ar.net og í Morg­un­blaðinu á dög­un­um að varma­dælu­stöð sé notuð í bæn­um til orku­sparnaðar með því að breyta raf­orku yfir í varma­orku til hús­hit­un­ar.

„En nú vand­ast málið. Með því að spara 6 MW af raf­magni hækk­ar flutn­ings­kostnaður raf­orkunn­ar hjá Landsneti upp úr öllu valdi því gjald­skrá­in ger­ir ekki ráð fyr­ir því að orka sé spöruð. Þetta er einn helsti þátt­ur­inn í því að nú hafa hita­veit­u­r­eikn­ing­ar Vest­manna­ey­inga hækkað um 25% á inn­an við ári. Það er eðli­legt þegar næg orka er til skipt­ana að verðlauna þá sem kaupa meira með lægra verði en það skýt­ur skökku við í orku­skorti að refsa þeim sem spara,” skrifaði hann og bætti m.a. við: „Hér er ríkið með mód­el sem hvet­ur til hækk­un­ar gjalda óháð orku­skorti, verðbólgu og háu vaxta­stigi.”

Vestmannaeyjar voru á meðal þeirra byggðarlaga þar sem orkukostnaðurinn var …
Vest­manna­eyj­ar voru á meðal þeirra byggðarlaga þar sem orku­kostnaður­inn var hæst­ur, í ný­legri skýrslu. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hann held­ur áfram:

„Til að vinna á móti þró­un­inni hef­ur ríkið svo valið að auka niður­greiðslu til Vest­manna­ey­inga úr Orku­sjóði sem kem­ur ekki á móti hækk­un­inni nema að hluta. Ríkið fær­ir því fjár­magn á milli vasa sem er held­ur ekki frítt því það kost­ar mannafla til út­reikn­inga og eft­ir­lits.”

Eng­an veg­inn eðli­legt

Gísli seg­ist í sam­tali við mbl.is skilja vel óánægju Eyja­manna yfir þess­um gjald­skrár­hækk­un­um. Sjálf­ur hafi hann ný­lega fengið reikn­ing upp á tæp­ar 70 þúsund krón­ur. „Þetta er eng­an veg­inn í sam­ræmi við það sem er eðli­legt,” seg­ir Gísli.

Hann seg­ir ósann­gjarnt að HS Veit­ur skuli velta aukn­um orku­kostnaði yfir á Vest­manna­eyj­ar. „Ég velti því fyr­ir mér hvort það sé líðandi fyr­ir fyr­ir­tækið að demba öll­um þess­um hækk­un­um ein­vörðungu á Eyj­ar. Mér þætti gam­an að vita hvort það væri eitt­hvað sem stæðist samn­inga,” grein­ir hann frá og seg­ir að í raun og veru sé þarna um innviðakostnað að ræða.

Hann seg­ir að skoða þurfi kerfið í heild sinni og bæt­ir við að stjórn­völd þurfi að „vaða í þetta mál”.

mbl.is