Eyjamenn eru margir hverjir með böggum hildar yfir auknum húshitunarkostnaði á heimilum sínum. HS Veitur hafa hækkað gjaldskrár sínar umtalsvert á undanförnum mánuðum.
Síðasta haust var Eyjamönnum tilkynnt um hækkun gjaldskrár ásamt því að vatnið yrði kaldara en áður. Á nýju ári hefur verðið síðan hækkað enn meira.
Fram kom í tilkynningu HS Veitna að nauðsynlegt hefði verið að gera breytingar á gjaldskrá vegna erfiðleika í rekstri hitaveitunnar í Eyjum vegna raunhækkunar á raforkukostnaði, bilana á sæstreng Landsnets og skerðinga í raforkuframleiðslu.
„Þetta er ótrúlega mikil hækkun á mjög stuttum tíma. Ég hef aldrei séð svona tölur áður," segir Eyjamaðurinn Bjarni Ólafur Guðmundsson og talar um tugi prósenta í því samhengi. Hann setti inn facebookfærslu um málið sem hefur fengið mikil viðbrögð. Um 100 manns hafa skrifað við hana ummæli og greinilega um að ræða mikið hitamál í bænum.
„67.000 fyrir febrúar, hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta þetta?” spurði hann HS Veitur í færslunni og bætti við að reikningurinn hljóðaði upp á um 9.400 krónur fyrir rafmagn og tæp 58 þúsund fyrir hita.
Rafmagns- og hitaveitukostnaður hjá Bjarna Ólafi í janúar og febrúar árið 2023 var 57.310 krónur en á þessu ári tvöfaldaðist hann næstum því og nam 102.826 krónum fyrir sömu mánuði.
Í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar kom fram að mikill munur getur verið á orkukostnaði heimila eftir byggðarlögum landsins og er munurinn á húshitunarkostnaði mun meiri en á raforkuverði. Vestmannaeyjar voru á meðal þeirra byggðarlaga þar sem orkukostnaðurinn var hæstur.
Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Eyjum, greindi frá því í aðsendri grein á vefsíðunni Eyjar.net og í Morgunblaðinu á dögunum að varmadælustöð sé notuð í bænum til orkusparnaðar með því að breyta raforku yfir í varmaorku til húshitunar.
„En nú vandast málið. Með því að spara 6 MW af rafmagni hækkar flutningskostnaður raforkunnar hjá Landsneti upp úr öllu valdi því gjaldskráin gerir ekki ráð fyrir því að orka sé spöruð. Þetta er einn helsti þátturinn í því að nú hafa hitaveitureikningar Vestmannaeyinga hækkað um 25% á innan við ári. Það er eðlilegt þegar næg orka er til skiptana að verðlauna þá sem kaupa meira með lægra verði en það skýtur skökku við í orkuskorti að refsa þeim sem spara,” skrifaði hann og bætti m.a. við: „Hér er ríkið með módel sem hvetur til hækkunar gjalda óháð orkuskorti, verðbólgu og háu vaxtastigi.”
Hann heldur áfram:
„Til að vinna á móti þróuninni hefur ríkið svo valið að auka niðurgreiðslu til Vestmannaeyinga úr Orkusjóði sem kemur ekki á móti hækkuninni nema að hluta. Ríkið færir því fjármagn á milli vasa sem er heldur ekki frítt því það kostar mannafla til útreikninga og eftirlits.”
Gísli segist í samtali við mbl.is skilja vel óánægju Eyjamanna yfir þessum gjaldskrárhækkunum. Sjálfur hafi hann nýlega fengið reikning upp á tæpar 70 þúsund krónur. „Þetta er engan veginn í samræmi við það sem er eðlilegt,” segir Gísli.
Hann segir ósanngjarnt að HS Veitur skuli velta auknum orkukostnaði yfir á Vestmannaeyjar. „Ég velti því fyrir mér hvort það sé líðandi fyrir fyrirtækið að demba öllum þessum hækkunum einvörðungu á Eyjar. Mér þætti gaman að vita hvort það væri eitthvað sem stæðist samninga,” greinir hann frá og segir að í raun og veru sé þarna um innviðakostnað að ræða.
Hann segir að skoða þurfi kerfið í heild sinni og bætir við að stjórnvöld þurfi að „vaða í þetta mál”.