„Sennilega besti samstarfsaðili sem við gátum hugsað okkur“

Ný íslensk þáttaröð er væntanleg.
Ný íslensk þáttaröð er væntanleg. Ljósmynd/Aðsend

Hin virta fransk-þýska sjón­varps­stöð ARTE hef­ur gert samn­ing um fram­leiðslu og sýn­ingu á glæ­nýrri ís­lenskri þáttaröð sem ber titil­inn Reykja­vík Fusi­on. Kvik­mynda­fram­leiðslu­fyr­ir­tækið ACT4 hef­ur haft verk­efnið í smíðum síðastliðið ár og mun fram­leiða þáttaröðina í sam­starfi við ARTE. Sjón­varps­stöðin, sem er með þeim virt­ustu í Evr­ópu og helguð menn­ingu, til­kynnti um sam­starfið á sjón­varps­hátíðinni Series Mania á dög­un­um. 

„Það er mér sönn ánægja og heiður að fá jafn virt­an og reynd­an sam­starfsaðila og ARTE um borð í fyrsta verk­efnið okk­ar hjá ACT4. Teymið okk­ar hef­ur lagt hjarta og sál í þetta verk­efni sem verður um margt ein­stakt í ís­lenskri sjón­varps­flóru og það eru for­rétt­indi að fá að sýna Evr­ópu það á miðlum ARTE,“ seg­ir Jón­as Mar­geir Ing­ólfs­son, fram­kvæmda­stjóri ACT4.

Jónas Margeir Ingólfsson.
Jón­as Mar­geir Ing­ólfs­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Þáttaröð af bestu gerð

Þáttaröðin verður al­ís­lensk og seg­ir frá mat­reiðslu­meist­ara sem reyn­ir að koma lífi sínu og til­veru á rétt­an kjöl og vinna traust fjöl­skyldu sinn­ar eft­ir fang­elsis­vist. Hug­mynda­smiður þátt­anna er Hörður Rún­ars­son og skrif­ar hann Reykja­vík Fusi­on ásamt hand­rits­höf­und­in­um Birki Blæ Ing­ólfs­syni. 

„Við erum bún­ir að vera að vinna í þessu síðastliðið rúmt ár,“ seg­ir Birk­ir Blær. „All­an þann tíma höf­um við átt í sam­ræðum við mögu­lega er­lenda sam­starfsaðila til að taka þátt í verk­efn­inu og gera það með okk­ur svo að loka­út­kom­an verði sem best,“ út­skýr­ir hann frek­ar. „Þegar ARTE sýndi verk­efn­inu áhuga þá vor­um við him­in­lif­andi enda senni­lega besti sam­starfsaðili sem við gát­um hugsað okk­ur.“

Birkir Blær Ingólfsson.
Birk­ir Blær Ing­ólfs­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvaða áhrif hef­ur sam­starfið á verk­efnið?

„Þetta þýðir í raun­inni bara að við get­um gert þetta af fullri al­vöru svo að gæðinn verði eins og best ger­ist í Evr­ópu og víðar. Og svo von­andi og vænt­an­lega - því línu­lega sjón­varps­stöðin og streym­isveita ARTE hef­ur svo rosa­lega marga áhorf­end­ur - að þáttaröðin beri hróður fyr­ir­tæk­is­ins okk­ar víða. Von­andi verður þetta til þess að við get­um gert fleiri vönduð verk­efni í framtíðinni.“

Tök­ur á Reykja­vík Fusi­on hefjast síðsum­ar í ár, 2024. ARTE hef­ur keypt sýn­ing­ar­rétt á þýsku- og frönsku­mæl­andi svæðum. Hér­lend­is verða þætt­irn­ir sýnd­ir á Stöð 2. Alþjóðleg dreif­ing er í hönd­um fé­lags­ins Wild Sheep Content. 

mbl.is