„Þarf að geta tekið óþægilegar ákvarðanir“

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, fyrr­ver­andi for­seti Íslands, seg­ir að for­seti Íslands þurfi að geta tekið óþægi­leg­ar ákv­arðanir í stað þess að sitja á friðarstóli á ör­laga­tím­um.

Þetta sagði Ólaf­ur Ragn­ar í viðtali við Sig­ríði Hagalín Björns­dótt­ur í Silfr­inu á RÚV í gær­kvöld. For­seta­kosn­ing­ar fara fram á hér á landi í sum­ar og hafa fjöl­marg­ir ákveðið að bjóða sig fram til embætt­is­ins.

„Ég er bless­un­ar­lega í þeirri stöðu að geta leyft mér að hafa ekki nein­ar skoðanir á þeim sem bjóða sig fram til embætt­is­ins á sama hátt og ég hef ekki tekið þátt í umræðum um verk ein­stakra rík­is­stjórna eða ráðherra síðan ég lét ef embætt­inu,“ sagði Ólaf­ur meðal ann­ars í viðtal­inu.

Hann sagði þá tíma hafa komið í sögu lýðveld­is­ins að for­set­inn hefði þurft að koma að lausn erfiðra stjórn­mála­verk­efna og skapa stöðug­leika.

Rík­ur þátt­ur í stjórn­skip­un lýðveld­is­ins

„For­set­inn er rík­ur þátt­ur í stjórn­skip­un lýðveld­is­ins. Marg­ir þekkja mál­skots­rétt­inn og hvernig hon­um hef­ur verið beitt og sá sem gegn­ir embætt­inu þarf að vera til­bú­inn að veita þjóðinni þenn­an rétt og jafn­vel í and­stöðu við rík­is­stjórn og Alþingi og jafn­vel í and­stöðu við alla sína stuðnings­sveit,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar.

Ólafur Ragnar á Bessastöðum á sínum tíma.
Ólaf­ur Ragn­ar á Bessa­stöðum á sín­um tíma. mbl.is/​Golli

Ólaf­ur sagði að for­set­inn væri höfuð rík­is­ins og sá eini sem væri end­an­lega ábyrg­ur fyr­ir því að lýðveldið hefði rík­is­stjórn. Ólaf­ur sagðist sjálf­ur líkt og for­ver­ar hans hafa þurft að glíma við það verk­efni.

„Þegar menn ganga að kjör­borðinu þá verða menn að hafa það í huga að það er ekki aðeins verið að treysta ein­stak­lingi fyr­ir mál­skots­rétt­in­um. Það er líka verið að treysta ein­stak­lingi fyr­ir því að geta séð lýðveld­inu fyr­ir rík­is­stjórn ef flokk­arn­ir bregðast því hlut­verki á Alþingi að geta náð sam­an um það verk­efni.“

Lýðræðis­leg­ur rétt­ur í gegn­um mál­skots­rétt­inn

Hann sagði að þegar þjóðin geng­ur að kjör­borðinu þá verður hún að hafa það í huga að það sé verið að velja ein­stak­ling sem geti þurft á því að halda á ör­laga­tím­um að sitja ekki á friðarstóli held­ur þurfa að taka óþægi­leg­ar ákv­arðanir til að tryggja lýðræðis­leg­an rétt þjóðar­inn­ar í gegn­um mál­skots­rétt­inn.

Sag­an sýni að for­set­inn þurfi ekki alltaf að koma úr heimi stjórn­mál­anna og all­ir for­set­ar lýðveld­is­ins hafi þurft að grípa til sinna ráða.

„Eng­inn veit fyr­ir fram hvenær þær stund­ir koma að ákv­arðanir for­set­ans geta skipt sköp­um fyr­ir ör­lög þjóðar­inn­ar,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar enn frem­ur í viðtal­inu.

mbl.is