„Fólk bara séð mjög afmarkaðan kafla af mér“

Helga Þórisdóttir býður sig fram í embætti forseta Íslands.
Helga Þórisdóttir býður sig fram í embætti forseta Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Sem for­stjóri Per­sónu­vernd­ar hef­ur fólk bara séð mjög af­markaðan kafla af mér sem ein­stak­lingi og mér fannst vera kom­inn mjög sterk­ur tími til þess að ég myndi stíga fram og bjóða ís­lenskri þjóð mína krafta, þekk­ingu og reynslu.“

Þetta seg­ir Helga Þóris­dótt­ir, for­stjóri Per­sónu­vernd­ar, sem til­kynnti fyrr í dag að hún ætli að gefa kost á sér til embætt­is for­seta Íslands.

Hún tel­ur sig hafa sterkt er­indi í slag­inn um Bessastaði og seg­ist koma með reynslu, vit og ein­lægni í kosn­inga­bar­átt­una.

Gríðarlega stór ákvörðun

Spurð hvort hún hafi hugsað ákvörðun­ina lengi seg­ir Helga að henni hafi verið beint í þessa átt í ein­hvern tíma. Þegar í ljós kom að það yrðu for­seta­skipti fór hug­mynd­in um for­setafram­boð að þró­ast fyr­ir al­vöru.

„Þetta er nátt­úru­lega gríðarlega stór ákvörðun. Eft­ir sam­ræður við fjöl­skyld­una mína og nán­ustu þá var al­veg ljóst að mér fannst ég eiga sterkt er­indi,“ seg­ir Helga. Þá bæt­ir hún við að ákvörðunin stjórn­ist ekki síður af því að hún brenni fyr­ir hags­mun­um ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Reiðubú­in að taka erfiðar ákv­arðanir

Hún seg­ir for­seta­embættið snú­ast núm­er eitt, tvö og þrjú um al­manna­hags­muni, að vera í far­ar­broddi fyr­ir ís­lenska þjóð, hér heima og að heim­an.

„Þetta er það sem allt mitt líf snýst um. Þarna hef ég þekk­ingu og ég tel mig hafa reynslu og vit en líka þá ein­lægni sem mér finnst þarna þurfa vera.

Ekki bara ein­lægn­ina held­ur líka vilja til að hlúa að lands­mönn­um öll­um og hlúa að því sem ger­ir okk­ur að þess­ari sterku þjóð nyrst í atlants­hafi. Þessi sköp­un­ar­kraft­ur og drif­kraft­ur.“

Helga seg­ir störf sín sem for­stjóri Per­sónu­vernd­ar sýna að hún geti tekið erfiðar ákv­arðanir. Þá bæt­ir hún við að hún hafi sýnt dug, þor og þá ákveðni sem þarf til þess að stíga inn og taka þær ákv­arðanir sem þarf að taka.

For­set­inn ör­ygg­is­ventill fyr­ir þjóðina

Spurð hverj­ar áhersl­ur henn­ar yrðu í embætti for­seta seg­ir Helga þær fyrst og fremst vera virðing, festa og stöðug­leiki. „Að geta verið til sóma fyr­ir ís­lenska þjóð og stíga inn í þau verk­efni sem þarf að stíga inn í,“ bæt­ir hún þá við.

Hún seg­ir þjóðina lifa á mikl­um um­brota­tím­um og í embætti for­seta þurfi að vera ein­stak­ling­ur sem sé ákveðinn ör­ygg­is­ventill.

Þá nefn­ir hún að ekki sé sjálfsagt að halda í grunn­gildi þjóðar­inn­ar á tækniöld, þar kem­ur sterk inn sérþekk­ing henn­ar úr Per­sónu­vernd.

Önnur fram­boð ekki haft áhrif

Nú hafa ansi marg­ir stigið fram og til­kynnt um fram­boð sitt til for­seta. Spurð hvort það hafi haft ein­hver áhrif á fram­boð henn­ar seg­ir Helga það ekki hafa haft áhrif á ákvörðun henn­ar. 

„Ef ég á að svara al­gjör­lega í ein­lægni, þá hef­ur það ekki gert það. Vegna þess að ég stend bara fyr­ir mínu, ég stend fyr­ir þeirri þekk­ingu og reynslu sem ég hef.“

Þá seg­ir Helga reynslu sína víðtæka. Reynsla sem snýr bæði að ís­lenskri stjórn­sýslu, um­gjörð form­legra verk­efna for­seta Íslands og reynsla af alþjóðleg­um verk­efn­um og sam­skipt­um. Einnig sé hún mik­il tungu­mála­mann­eskja.

Í leyfi sem for­stjóri

Helga hef­ur óskað eft­ir því að vera í leyfi frá störf­um sem for­stjóri Per­sónu­vernd­ar frá og með deg­in­um í dag fram til 1. júní. Staðgeng­ill henn­ar, Helga Sig­ríður Þór­halls­dótt­ir, hef­ur tekið við.

Næstu skref séu að fara af stað í kosn­inga­bar­áttu þar sem hún ætl­ar að leggja áherslu á að tryggja að hlúið sé að ís­lensk­um drif­krafti og að þjóðin geti áfram lifað sátt og sæl sam­an. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina