„Við getum orðað það þannig að í venjulegu árferði þá værum við ekki að halda þennan fund,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokks, en þingflokkurinn hefur boðað til fundar klukkan 13.
Alla jafna fara þingfundir þingflokka fram á mánudögum og miðvikudögum. Hins vegar hefur þingið ekki komið saman og því hefur fundurinn verið sérstaklega boðaður.
Spurð hvort umræðuefnið verði mögulegt forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra segir Ingibjörg að það muni eðli málsins samkvæmt vera eitt af því sem rætt verður á fundinum
Hún segir ekki tímabært að ræða framhald ríkisstjórnarinnar.
„Katrín er ekki búin að gefa það út að hún muni bjóða sig fram. Í ljósi þess munum við að óbreyttu halda áfram í þessu ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Ingibjörg.
Eins og fram kom á mbl.is í gær hyggst þingflokkur Sjálfstæðisflokks einnig koma saman á fundi eftir hádegi í dag. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður flokksins, sagði að mögulegt framboð Katrínar myndi verða rætt.