Guðmundur Felix gefur kost á sér

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. Ljósmynd/Aðsend

Guðmund­ur Fel­ix Grét­ars­son hef­ur ákveðið að gefa kost á sér til embætt­is for­seta Íslands.

„Ég vil byrja á því að þakka ykk­ur öll­um fyr­ir þann ómet­an­lega stuðning sem þið hafið veitt mér á minni veg­ferð. Ég stend í dag á tíma­mót­um, þar sem ég hef lokið 3 ára end­ur­hæf­ingu eft­ir tvö­falda handa­ágræðslu, sem aldrei hefði verið mögu­leg, nema fyr­ir ein­stak­an stuðning og sam­stöðu ís­lensku þjóðar­inn­ar,” seg­ir Guðmund­ur Fel­ix í fram­boðsræðu sinni.

Hann seg­ir Ísland vera land tæki­fær­anna en að blik­ur séu á lofti.

„Und­an­far­in ár hafa verið ákaf­lega sér­kenni­leg í sam­skipt­um manna og skaut­un sam­fé­laga eykst dag frá degi. Lýðræðis­leg­ar sam­ræður hafa vikið fyr­ir óbil­girni. Deil­ur ganga ekki út á að finna sam­eig­in­lega lausn held­ur er allt kapp lagt á að vinna og helst niður­lægja. Sam­fé­lagsum­ræðu er í æ meiri mæli stjórnað af jaðar­hóp­um sitt­hvoru meg­in á hinu póli­tíska lit­rófi. Sak­laus­ar vanga­velt­ur um eðli hluta eru tekn­ar sem af­stöður og fólki er skipað í fylk­ing­ar að því for­sp­urðu,” seg­ir Guðmund­ur Fel­ix.

Hann bend­ir á að tæp­lega helm­ing­ur ís­lenskra drengja sé ólæs að loknu grunn­skóla­námi og um 30% stúlkna. Einnig nefn­ir hann að um 100 manns deyi ár­lega úr fíkni­sjúk­dóm­um á Íslandi og að næst­um helm­ing­ur ungs fólks hafi áhyggj­ur af and­legri heilsu sinni, sam­kvæmt ný­legri skoðana­könn­un.

Mik­il­vægt sé að um­vefja unga fólkið í land­inu með ábyrgri hegðun og góðu for­dæmi.

„Embætti for­seta Íslands er í hug­um flestra sam­ein­ing­ar­tákn og líf mitt er bók­staf­lega hold­gerf­ing­ur þess hvers Íslend­ing­ar eru megn­ug­ir þegar við tök­um hönd­um sam­an. At­kvæði greitt til mín ætti að virka sem áminn­ing fyr­ir alla, hvort held­ur inn­an­lands sem utan, að það er alltaf von og það er alltaf leið,” seg­ir Guðmund­ur Fel­ix, sem er byrjaður að safna und­ir­skrift­um.

.

mbl.is