Guðmundur Felix Grétarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.
„Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir þann ómetanlega stuðning sem þið hafið veitt mér á minni vegferð. Ég stend í dag á tímamótum, þar sem ég hef lokið 3 ára endurhæfingu eftir tvöfalda handaágræðslu, sem aldrei hefði verið möguleg, nema fyrir einstakan stuðning og samstöðu íslensku þjóðarinnar,” segir Guðmundur Felix í framboðsræðu sinni.
Hann segir Ísland vera land tækifæranna en að blikur séu á lofti.
„Undanfarin ár hafa verið ákaflega sérkennileg í samskiptum manna og skautun samfélaga eykst dag frá degi. Lýðræðislegar samræður hafa vikið fyrir óbilgirni. Deilur ganga ekki út á að finna sameiginlega lausn heldur er allt kapp lagt á að vinna og helst niðurlægja. Samfélagsumræðu er í æ meiri mæli stjórnað af jaðarhópum sitthvoru megin á hinu pólitíska litrófi. Saklausar vangaveltur um eðli hluta eru teknar sem afstöður og fólki er skipað í fylkingar að því forspurðu,” segir Guðmundur Felix.
Hann bendir á að tæplega helmingur íslenskra drengja sé ólæs að loknu grunnskólanámi og um 30% stúlkna. Einnig nefnir hann að um 100 manns deyi árlega úr fíknisjúkdómum á Íslandi og að næstum helmingur ungs fólks hafi áhyggjur af andlegri heilsu sinni, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun.
Mikilvægt sé að umvefja unga fólkið í landinu með ábyrgri hegðun og góðu fordæmi.
„Embætti forseta Íslands er í hugum flestra sameiningartákn og líf mitt er bókstaflega holdgerfingur þess hvers Íslendingar eru megnugir þegar við tökum höndum saman. Atkvæði greitt til mín ætti að virka sem áminning fyrir alla, hvort heldur innanlands sem utan, að það er alltaf von og það er alltaf leið,” segir Guðmundur Felix, sem er byrjaður að safna undirskriftum.
.