Söfnuðu mottum og hálfri milljón

Gylfi Víðisson og Hafþór Björnsson segja söfnunina í tilefni Mottumars …
Gylfi Víðisson og Hafþór Björnsson segja söfnunina í tilefni Mottumars hafi farið fram úr væntingum. Ljósmynd/Samherji

Áhöfn­inni á Snæ­felli EA-310, frysti­tog­ara Sam­herja, safnaði ekki bara mott­um í síðasta túr þeirra held­ur tókst þeim einnig að safn tæp­lega hálfri millj­ón í tengsl­um við átakið mottumars á veg­um Krabba­meins­fé­lags Íslands.

Nokkr­um dög­um áður en lagt var í túr­inn í síðasta mánuði fengu all­ir karl­ar sem starfa hjá sam­stæðu Sam­herja sokka í til­efni af átak­inu. Í kjöl­farið hafi komið fram sú hug­mynd að taka þátt í skegg­keppni Mottumars og safna í þágu mál­efn­is­ins í veiðiferðinni, seg­ir Gylfi Víðis­son und­ir­stýri­maður á Snæ­felli í færslu á vef Sam­herja.

Í upp­hafi var stefn­an sett á að safna 250 þúsund krón­um en niðurstaðan varð 471 þúsund krón­ur.

„Það var í raun Hafþór Björns­son há­seti sem leiddi þetta og hvatti aðra í áhöfn­inni til dáða. Staðreynd­in er að þriðji hver karl­maður grein­ist með krabba­mein ein­hvern tím­ann á lífs­leiðinni, þannig að þetta stend­ur okk­ur í raun nærri og áhöfn­in var því sam­mála um að taka virk­an þátt í Mottumars,“ út­skýr­ir Gylfi.

Fór ró­lega af stað

Hafþór seg­ir að söfn­un­in hafi ró­lega af stað en hafi tekið kipp er leið á veiðiferðina.

„Við skráðum okk­ur sem sagt til leiks og sett­um mark­miðið á 250 þúsund krón­ur. Þegar líða fór á túr­inn send­um við skila­boð til ætt­ingja og vina um að taka þátt og í kjöl­farið sáum við upp­hæðina hækka dag frá degi. Við end­um í tæpri hálfri millj­ón króna og ég held að eng­um okk­ar hafi dottið í hug að þetta yrði niðurstaðan. Krabba­meins­fé­lagið treyst­ir á stuðning al­menn­ings og ég er viss um að þess­ir pen­ing­ar koma að góðum not­um.“

Flest­ir í áhöfn­inni tóku þátt í að safna skeggi. „Þetta skapaði ákveðna stemn­ingu og Mottumars-sokk­arn­ir komu að góðum not­um. Marg­ir okk­ar skörtuðu flott­um og metnaðarfull­um mott­um í lok veiðiferðar­inn­ar og það verður spenn­andi að sjá hversu marg­ar verða látn­ar fjúka í land­leg­unni.“

Ingþór Björnsson vélstjóri, Guðjón Ragnarsson Baader-maður og Hafþór Björnsson háseti …
Ingþór Björns­son vél­stjóri, Guðjón Ragn­ars­son Baader-maður og Hafþór Björns­son há­seti skörtuðu fín­ustu mott­ur í lok túrs­ins. Sam­sett mynd

„Þetta var skemmti­legt verk­efni og jafn­framt gef­andi. Til þess að drífa svona söfn­un áfram þarf helst að vera góð og já­kvæð stemn­ing og það er hún svo sann­ar­lega um borð í Snæ­felli. Við þökk­um öll­um þeim lögðu okk­ur lið í þessu mik­il­væga ár­vekni- og fjár­öfl­un­ar­átaki, eitt er víst að áhöfn Snæ­fells EA-310 er ákaf­lega stolt af því að taka þátt í stuðningi við Krabba­meins­fé­lag Íslands.“

mbl.is