Fordæmalaust tilstand Katrínar rætt í Spursmálum

Jón Gunnarsson, Heiða Kristín Helgadóttir og Snorri Másson eru gestir …
Jón Gunnarsson, Heiða Kristín Helgadóttir og Snorri Másson eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum.

Spursmálaþáttur vikunnar verður helgaður yfirvofandi forsetakosningum þar sem kafað verður ofan í kjölinn á þeirri fordæmalausu stöðu sem nú er komin upp í íslenskum stjórnmálum.

Þau Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, Heiða Kristín Helgadóttir, sem situr í kosningastjórn hjá Jóni Gnarr, og Snorri Másson, ritstjóri Ritstjóra, mæta í settið til að ræða möguleg næstu útspil og hvers sé að vænta miðað við stöðuna sem nú er yfirstandandi. 

Stjórnarkreppa í kortunum?

Hugsanlegt forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttir núverandi forsætisráðherra hefur valdið þó nokkrum úlfaþyt síðustu daga og framhald ríkisstjórnarsamstarfsins alls kostar óljóst. Kann það að auka líkurnar á að möguleg stjórnarkreppa sé í kortunum því óhjákvæmilega þyrfti að gera breytingar á ráðherraskipan og erfiðlega gæti gengið að mynda nýja stjórn undir forystu nýs forsætisráðherra.

Stórtíðinda er að vænta frá Katrínu um ákvörðun hennar til hugsanlegs framboðs. Segir hún von á tilkynningu þess í allra náinni framtíð en hún hefur sagst íhuga það af fullri alvöru að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.

Ekki missa af Spursmálum í beinni útsendingu hér á mbl.is á slaginu kl. 14 í dag.

mbl.is